barnaafmælisþunglyndi
Eftir þónokkur bekkjarafmæli hér á landi höfum við komist að því að Skotar eru komnir aðeins "lengra" í barnaafmælum en við á íslandi, ég er samt ekki viss um að lengra sé rétta orðið en þessi þróun er byrjuð á íslandi en er ekki komin jafn langt--sem betur fer.
Í fyrsta lagi þá fá krakkarnir boðskort mörgum vikum fyrir afmælið.
Það er engin regla á því hverjum er boðið í bekknum, þannig varð ég oft vör við fyrstu vikurnar að krakkarnir voru að skiptast á boðskortum en alls ekki allar stelpur fengu eða strákar.
Afmælin eru haldin í einhvers konar ævintýralöndum, keiluhöllum eða sölum. Meira að segja safnaðarheimili kirkjunnar hérna er mikið notað í þessum tilgangi. Það er alltaf eitthvað þema/activity/trúður þ.e. eitthvað sem kostar peninga.
(stelpurnar eru búnar að fara í keiluhallarafmæli, ævintýralands, klappstýrudansæfingarafmæli, sleðaafmæli á gervisnjóbrekku) Reyndar var eitt heimaafmæli þar sem þemaið var að lita á eigin stuttermabol sem dóttir mín fílaði í botn. Okkar barnaafmæli voru hins vegar í heimahúsi, annað með íslenskujólasveinaþema-sem þýddi að Arnar kom í norskupeysunni sinni og bauð krökkunum harðfisk og hitt var haldið með bekkjarfélaga og var með moshimonsterþema sem þýddi að það voru moshimonster á afmæliskökunni.
Börnin fá goodiebag með sér heim og í honum er kakan (sem er iðulega hræðilega vond). Þessi poki er fylltur af alls kyns litlum leikföngum og sælgæti...helmingurinn fer í ruslið eða dettur í sundur strax.
Það er ekkert verðtakmark á gjafir eins og er fyrir bekkjarafmæli heima og flestir virðast gefa frekar dýrar gjafir, sem mér finnst út í hött af því dýr leikföng er langt frá því að vera ávísun á gæði eða sniðuglegheit og þetta espir upp materialismann í börnum sem er nú nægilega espaður fyrir.
Og eftir afmæli fá börnin þakkarkort frá afmælisbarninu en pakkarnir eru ekki opnaðir í afmælinu sjálfu.
Æskuafmæli mín voru þannig að mamma bakaði Balthasar, bekkurinn var boðin heim stundum bara stelpum, Við lékum okkur fullkomlega óskipulagt, borðuðum kökuna (sem var alltaf himnesk), ég opnaði pakkana og þakkaði krökkunum fyrir og búið.
Fyrir stelpurnar höfum við oftast haldið fjölskylduafmæli en leikskóla/skólaafmælin hafa verið í þessum stíl- Súkkulaðikakan í forgrunni og skreytingin...mesta skipulagið hefur verið kannski pakkaleikur og stoppdans... allir sáttir og voða gaman.
En þessi krafa um þema, drasl í poka, almennt vesen, borga einhverju fyrirtæki einhverja formúgu til þess að gera þetta fyrir mann og vondar afmæliskökur gera mig þunglynda. Ég held að börnin myndu alveg sætta sig við einfaldara snið á afmælunum ef allir væru ekki í þessum pakka...og ég þekki ekkert barn sem myndi kvarta yfir því að hafa ekki fengið þakkarkort frá afmælisbarninu.
Ummæli
Það er yfirleitt boðið með amk 2 vikna fyrirvara en stundum ekki nema með 2 daga fyrirvara. Afmælisboðin eru ýmist í heimahúsi en oft annars staðar, t.d. í 'garði' (park), eða innanhús. Við höfum þannig fari í Burger King (sem er með innileikjasvæði), stað sem heitir Fun Barn sem er með fullt af leikjum (sem foreldrarnir þurfa að borga fyrir) eða að við höfum farið í Chuck E. Cheese, sem er pizzastaður með leikjum (en þurfum þá að fara til Columbus í 2 tíma fjarðlægð).
Yfirleitt koma börnin og leika sér. Svo er maturinnn étinn (ef það er matur) yfirleitt pulsur eða pizzur og svo kakan (sem er vond búðarkaka) með ís. Svo eru pakkarnir opnaðir með öllum viðstöddum.
Kaninn kann alveg að gera þetta án þess að hafa mikið fyrir, amk sakna ég ekki stressins að vera að baka fyrir barnaafmæli.
Það eru yfirleitt gúddýbags með einhverju drasli og nammi en ég klikka yfirleitt á því. Ef ég man eftir að kaupa þetta þá gleymi ég að deila því út þegar krakkarnir fara.
Við bjóðum yfirleitt öllum bekknum fyrir Ásu afmæli (sem er rétt eftir að skóla líkur), það má ekki gera upp á milli (nema ef maður sendir bara boðskortin í pósti heim til krakkana). En það koma yfirleitt bara örfáir úr bekknum.
m