nýtt skólaár, frunsan og snúðtaglið


Það er að frétta að stúlkurnar eru komnar í jakkafötin því nýtt skólaár er hafið. Karólína sagðist vera bæði spennt en líka leið vegna þess að sumarfríið væri búið. Stúlkurnar voru afskaplega ánægðar með árangur sinn þetta sumarfrí, í kílómetrum sem ferðast var en einnig í ískílóum sem þær hefðu torgað. Ísold var sérstaklega ánægð með að hafa hitt alla þessa ættingja á ættarmótinu og metfjölda sundferða.
Ég hef slegið öll met mín eigin sem og Norðurlanda og Evrópumet í stærð frunsu...hún er svo stór að ég var lengi að átta mig á því hvað hér væri á ferðinni. Hún er meira að segja stærri en frunsan mín frá árinu 1996 sú varð til þess að Sigurður nokkur Árni, (myndlistamaður sem ég passaði fyrir í París nokkrum sinnum) hafði sérstaklega orð á því að hann hefði aldrei séð þvílíka stærðarinnar frunsu.
Spurningin er hvort frunsan muni vilja sækja um sjálfstæði eða jafnvel vilja gerast tuttugasta fylki Noregs, hvort sem raunin verður mun ég segja, farið hefur fé betra!
Arnar hins vegar elskhugi minn er að hugsa um að safna skeggi af meiri elju en undafarin ár og er jafnvel að spá í að leggja í snúðtaglið því ekki má hann vera síðri en hipsterafélagar hans á fróni. Hægt verður að fylgjast með þróun hárvöxts á þessari fréttaveitu.
En nú þarf ég að hafa samband við sekkjarpípukennarann og fara að vinna að þessum tugþúsundum mikilvægra verkefna sem bíða mín.

Ummæli

Vinsælar færslur