mánudagur, 29. desember 2008

Krumminn á skjánum


Ég veit ekki hvað krumminn krúnkaði sem við Stella frænka og telpnahjörðin mættum í dag hjá Rútstúni, ég veit hins vegar að það getur varla verið verra en heimsósóminn sem vellur út úr öllum fjölmiðlum. Skammdegisþunglyndið sem vanalega tekur við af jólunum er hjá mörgum veruleiki jólanna í ár. Desembermánuðurinn okkar hefur líklega ekki verið mjög frábrugðinn öðrum, við tókum þátt í stressinu með því að tvíbóka hverja mínútu fyrir jól. Allt til þess að geta svo haldið börnunum hátíðleg jól og slappað af...það eru allir svo mikið að stressa sig á því að ná að hvíla sig, lesa allar jólabækurnar, baka í rólegheitunum og prjóna allar jólagjafirnar. Mitt í öllu kaósinu, dafna börnin saklaus af glæpum góðærisins.Verður afkoma barnanna tryggð? Hvort Björgúlfarnir, Davíð, síungi gráhærði bankastjórinn eða hinir alsaklausu(í þeirra eigin huga) leiði hugann einhvern tíman að því, leikur mér forvitni á að vita. Ekki á svo að skiljast að ég sé svartsýn eða þunglynd, ég er nokk bjartsýn á að fá vinnu þegar minni lýkur að fjölskyldan geti lifað sæmilegu lífi í skuldafeninu.
Kannski er þetta kæruleysi eða aðgerðarleysi, því ekki er hægt að segja ég hafi verið aktíf í andófinu hef ekki mætt með slæðu við opinberar byggingar þennan mánuðinn þó frumburðurinn sé búin að lýsa því yfir að hún sé búin að fá nóg af mótmælum. Verst þykir mér þó að flestir þeir er stóðu í þessum glæpum sitja þarna í sætum sínum senda manni ekki einu sinni jólakort (sem í stæði, Takk kæra þjóð fyrir að leyfa okkur að taka ykkur í "#$%T%/Y$U), hvað um það!


Næst á dagskránni hjá okkur er að halda upp á fæðingarafmæli tveggja snótra, gullmolanna okkar( sem eru fæddar á sitt hvoru árinu sitt hvoru megin við áramótin...er þetta skiljanlegt stærðfræðingum?), búið er að panta balletköku af foreldrunum því þetta á að vera prinsessuafmæli hið mesta. Við sem höfum staðið okkur með prýði hingað til í afmæliskökugerðinni erum nokkuð stressuð því kröfurnar eru gífurlegar...hvernig á balletkaka að vera eiginlega? spyr maður sig, og ekki dettur mér til hugar að panta fullbúna köku frá kapítalísku bakaríi. Snót númeró dúó er búin að eiga afmæli og varð tveggja vetra með miklum glans fimm dögum fyrir jól, hún og skyrgámur eiga þennan dag sameiginlegan. Fékk jólaball og míníveislu, varð altalandi og alsyngjandi í kjölfarið. Miklar meiningar hefur hún líka um hvernig hlutunum skal háttað og síðast en ekki síst skulu allir vera kurteisir við fröken Karólínu Thoroddsen! Eða eins og hún orðar það við systur sína og hnykklar brýrnar "EKKI DÍÐA ANÖNU" (hún kann að segja sitt fulla nafn en kýs þó að kalla sig anana sem hún beygir með glans eða hreinlega Anna) móðirin er hæstánægð með dótturina enda góður kostur nútildags að standa fyrir sínu.

miðvikudagur, 10. desember 2008

la sofasaga


Já, þeir eru mættir í stofuna til okkar og nei það þýðir ekki að rúv séu að taka kreppufortíðarþrána út í ystu æsar. Okkur áskotnaðist nefnilega nýr sófi og með honum stól í stíl, það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá gripinn var nefnilega Derrick-það er einhver munchen áttatíubragur á honum, traustur úr brúnu leðri og þægilegur. Derrick er sko ekkert annað en ávísun á notalegt kvöld með afa og ömmu fyrir einhverjum áratugum í mínum huga, matarkex og jafnvel moli frá einum af felustöðum afa, stefið og skýrmælt og hófstemmd spenna. Þegar Derrick og stóllinn komu varð ljóst að stóllinn er ekki síðri en sófinn og hefur sá hlotið nafnið harry Klein. Í þessum skrifuðu orðum sit ég í harríinum með fótaskemil og það er algjörlega yndislegt ég prjóna jafnvel hraðar í honum en í gamla. Fínu frúarsófinn úr vesturbænum var orðinn ansi lúinn eftir trampólínæfingur yngstu kynslóðarinnar hér á bæ en það verður að segjast að sá stóð sína pligt þrátt fyrir allt.

laugardagur, 6. desember 2008

Vííííííííííí


Vííííííííííí, originally uploaded by pipiogpupu.

skemmtilegar myndir frá krepputímum, yndislegar ferðir í sumarbústað með frænkunum, Ólafsfjarðar ferð með Tinnu und co og bara svona beisik mótmæli og önnur borgaraleg óhlýðni ;)

föstudagur, 5. desember 2008

alles mugligt

Ætlar engin flokksbróðir Stalíns Oddsonar að klappa honum á bakið og leiða hann á heilsuhæli, maðurinn er búinn að vera of mikið og of lengi að klúðra hlutunum konunglega. Hann þarf bara hvíld, af mannúðarástæðum.
....
Annars er jólaskapið komið með tilheyrandi stressi yfir því að ég nái að njóta aðventunar nógu vel, með því að baka nægilega oft með stelpunum, með því að smíða, prjóna, klastra saman jólagjöfum, vinna, læra fyrir próf. Samt vil ég helst ná að slappa mikið af liggja undir sæng, borða mandarínur og piparkökur...íslenska aðventan er alveg yndisleg þversögn.
.....
Stelpur eru búnar að fá jólaklippinguna, eru sætari en allt jólasælgætið til samans, farnar að syngja jólalögin og búnar að baka í leikskólanum.
......
Aldrei þessu vant var ég nokk ánægð með tilnefningar til bókmenntaverðlauna og þá sérstaklega með ÓÁÓ.