föstudagur, 28. september 2007

leikskólalíf

eldri anginn okkar er heima með hitaslæðing í dag, henni leist reyndar ekkert á að Kalíní sín þyrfti að fara á leikskólann. Vildi hafa hana hjá sér. Í gær var dagurinn ótrúlega pródúktívur, náði að læra heima og með hjálp afa og ömmu í holtó gat ég loks sett upp gardínur inn í svefnherbergi, sýningum sem sagt hætt og sem betur fer því vindhviður gærdagsins feyktu öllum eftirhangandi laufum af trjánum.
Litli angi er búin með aðlögun þó svo við foreldrarnir eigum eitthvað eftir í að aðlagast þessu. Okkur líst nú bara ágætlega á leikskólann hennar og finnst hún hafa mannast helling síðan hún byrjaði. Maður er náttúrulega æstur í að fá leikskólapláss svo maður geti sinnt námi og vinnu en síðan hellist yfir mann samviskubit þegar maður lætur barnið frá sér. Þrátt fyrir þessar þversagnir er ég ósköp ánægð með leikskólana og fólkið sem hugsar um börnin okkar. yesserí svo mikið viturlegt hef ég að segja í dag!

miðvikudagur, 26. september 2007

menning í norðurmýri

Hvað er að frétta héðan úr norðurmýri, tja ykkur er velkomið að kíkja sjálf. Við tókum niður níðþungar og stórhættulegar rimlagardínur fyrir um viku síðan og gengur ílla að fá eitthvað í staðinn. Ein af fáum breytingum sem karldýr heimilisins hefur stutt frá upphafi því gardínur eru tákngerfing firringar siðmenningarinnar(vill hann meina). Maðurinn var ekki gerður til að vera lokaður inni í felum frá öðrum(hvað þá að fela líkamann með fötum)! Niðurstaðan er að við erum nú til sýnis en ég læt ykkur um að finna út hvenær er mest krassandi að kíkja. Best er auðvitað að planta sér á göngustíginn þar er einmitt fínasta útsýni yfir svefnherbergi okkar og stofu.

miðvikudagur, 19. september 2007

af systrum

Sóttum Karólínu í aðlögun, 5. dagur. Henni gengur stórvel virðist vera hörkutól en er voða glöð að sjá okkur aftur. Samskipti þeirra systra eru alltaf að verða meiri. Um daginn kallaði ég að maturinn væri til; systurnar voru þá í barnaherberginu og Arnar að leggja á borðið. Ísold segir við litlu systur sína að koma nú og setjast við matarborðið en tekur svo ráðin í sínar hendur þegar hún áttar sig á að hún er ekkert að hlýða. Næsta sem ég sé er Ísold haldandi á Karólínu á hausnum, Arnar hljóp til og náði henni án þess að nokkuð gerðist. Úff
Í gær var fullskipuð dagskrá eins og venjulega, við Kalíní versluðum í matinn síðan fór ég að sækja ísold og fara með hana í franska bókasafnið. Arnar og Kalíní sáu um að ganga frá matnum á meðan og undirbúa kvöldmat. Arnar hringir síðan í mig þá hafði hann fundið glerbrot í munni litlunar!!! Það sem getur gerst stundum er rosalegt, þá hafði ein barnamatskrukka brotnað í matarpokanum og hún komist í þetta. Þetta bjargaðist, Arnar náði því og athugaði vel, hins vegar eru taugarnar þandar með svona lifandi ryksugu.
Góðu fréttirnar eru þær að krílína fór í mælingu og er alveg að vaxa og dafna vel.
Um kvöldið var svo foreldrafundur á ísoldarleikskóla þar kom í ljós að á leikskólanum hennar er met af menntuðum leikskólakennurum og starfið til fyrirmyndar. Svo sá ég vídeó af daglegri rútínu á furustofu deild Ísoldar. Það var gaman að vera fluga á vegg í lífi litla beinsins sjá hana leika sér, borða og sofa. Hún er sem sagt bara pluma sig vel þó hún sé yngst á nýju deildinni.

föstudagur, 14. september 2007

eirðarleysi

já ég er að farast úr eirðarleysi.
Hins vegar svo ég haldi áfram fréttaflutningi frá okkar lífi (vegna einskærs áhuga ykkar;) þá er ég að fara vera með krakkahóp í alliance francaise á laugardögum í vetur, einhvers konar frönskukennsla innan gæsalappa þar sem þetta á nú að vera fyrir 5- 8 ára krakka. Ísold verður með mér og pikkar upp kannski nokkrar setningar.
Svo er það hin fréttin kláraði stykki loksins í herðubreið í gær ekki sekkinn góða, en hólk. Bleikur og gylltur, átti að vera trefill en er miklu kúlari sem hólkur(eða hvað sem maður kallar þetta fyrirbæri sem getur verið trefill og húfa í senn), jibbí. Var að fatta að hann á eftir að smellpassa við hjólið-úha. Nú verð ég setja sekkinn á fastforward ef hann á að klárast áður en Karólína er komin á fullt í Sólgarði. Bytheway henni gekk vel í dag lék sér og var hin hressasta reyndi hins vegar að skríða yfir andlit kollega síns í aðlögun....hum hum.

fimmtudagur, 13. september 2007

" NEI hlusta á Metal"


Sagði eldri dóttir mín við mig í morgunsárið þegar ég bað föður hennar að spila eitthvað aðeins léttara ! Arnar var auðvitað mjög glaður með viðleitni dóttur sinnar enda er hann að byrja með metalþátt í kvöld sem heitir einmitt-Metall. Ég treysti á að þið metalhausarnir leggið við hlustir á rás tvö klukkan 22:00 í kvöld! Efast ekki um að Arnar eigi eftir að spila frábært þungarokk af ýmsum toga, persónulega myndi ég bara spila orthodox metal oftast bara Black Sabbath og svo myndi ég alltaf spila TÚ MINUTES TÚ MIDNÆT með járnfrúnni rétt fyrir miðnætti.
Það er náttúrulega hellingur að frétta, en í dag byrjaði krílína speedy í aðlögun á Sólgarði og það er nákvæmlega ár síðan systir hennar byrjaði á Sólborg. í dag var hún nú aðeins í klukkutíma með þrem öðrum krílum í herbergi langminnst en mest á hraðferð. Hún skreið út um allt og yfir alla nú og ekki nóg með það heldur var hún ekkert að veigra sér við það að rífa leikföngin af hinum börnunum, hum hum...
Fengum plássið fyrirvaralaust, ég reyndar trúði því að við fengjum ekki pláss fyrr en um áramót svo það er auðvitað svolítið undarleg tilfinning að Karólína sé byrjuð á leikskóla alveg heilu ári yngri en Ísold var þegar hún byrjaði.
Já svo fór ég á klippingu í gær, jesserí topp-lady!

mánudagur, 10. september 2007

laugardagur, 8. september 2007

sameining og jafnvægi

jæja fyrsta skólavika byrjuð, gekk þokkalega en fór reyndar langmest í að endurskipuleggja hvaða kúrsa ég ætti að taka og hvað væri hentugast. Annars er ég að reyna hætta að velta mér upp úr því hve mikið er að gera hjá mér, því mér finnst leynast einhvers konar vestræn firring og eigingirni í því. Langflest af því sem maður er að gera velur maður sjálfur, þannig að hafi maður mikið að gera þá er það vegna þess maður vill það! og hvers vegna vera gera mál úr því og þar að auki þeirri eigingjörnu hugsun að það sé meira að gera hjá manni en hjá einhverjum öðrum hvað þá að halda því fram að það sé mikilvægara.
Stelpurnar komnar saman í herbergi og gengur vel. Sú yngri reyndar töluvert fljótari að sofna en sú eldri en hingað til hafa þær lúrað saman alla nóttina án vandræða. Ég man alveg eftir því sem lítil stelpa að hafa talað við sjálfa mig inn í svefninn og hugsað með öfund til krakka sem gátu talað við systkynin sín á kvöldin svo ég get ekki ímyndað mér annað að þeim eigi eftir að líka þetta fyrirkomulag en það kemur líklega bara í ljós.

sunnudagur, 2. september 2007

hjólahamingja

Eins og þið vitið sem nennið að lesa þetta blaður mitt var hjólinu mínu stolið í mai síðastliðinn(þriðja í röð; kommon!), ég hef verið í reglulegu sambandi við Jóhannes hjá löggunni, en nei ég hef ekki fengið hjól mitt til baka og vegna hárrar sjálfsábyrgðar eða vegna þess hve hjól mitt var ódýrt fékk ég zero út úr tryggingum. En hvað um það ég tók mig til og spurði kollega mína í prjónaklúbbnum Herðubreið (kratarnir stálu nafninu frá okkur helvískir) hvort einhver ætti gamlan fák til að selja mér og viti konur, Sóla og Þura áttu slíkan handa mér og gáfu mér. Það heitir ROCKY sem mér finnst auðvitað all-svakalega kúl og í dag tók ég mig til og spreyjaði það gyllt á meðan Kalíní svaf og Ísold bjó til graut í sandkassanum. Það er geggjað!
Á morgun byrjar skólinn og smá taugatitringur í gangi og áhyggjur yfir tímaleysi.
af börnum, Karólína segir dada, baba, mama, jæja en eina orðið sem okkur finnst hún segja og skilja hvað hún er að segja er "hæ". Ísold talar um margt og mikið sum orð eru enn á einhvers konar barnamáli eins og; skófla er slobba, kollhnís er púddnís, Paddi broddgöltur í dýrunum í Hálsa... heitir Broddlákur.