föstudagur, 28. janúar 2011

dagurinn

það er merkilega hressandi að hafa dagsbirtu á daginn. Í gær tókst ég næstum á loft tvisvar sinnum ég veit ekki hvort það var dagsbirtunni að þakka eða fantasíukúrsinum sem ég er í upp íhí. Ég er reyndar ílla svikin ef ég læri ekki að fljúga í þeim kúrsi, vera í endalausu teboði eða eignast töfrahring...Síðustu daga hef ég reyndar aðallega verið að fantasera um gríska eyju, skærblátt haf og sól.
Af afkvæmum er margt að segja eins og venjulega, stóra stýrið er á einhvers konar unglingaskeiði...við vonum að hún taki það bara út núna og sleppi þessari síðari gelgju. Litla stýrið veit núna allt í heiminum og geiminum eins og systir hennar svo vill hún helst taka þátt í því að ala upp eldri systur sína sem er ekki auðvitað alls ekki vinsælt. Um síðustu helgi slógu þær met í því að hlæja og gráta til skiptis.

miðvikudagur, 26. janúar 2011

::::Dauðagildran Snorrabraut:::::

Norðurmýri þann 26. Janúar 2011


Opið bréf til Hverfisráðs Hlíða og til Stefáns A. Finnssonar deildarstjóra á umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar og Karls Sigurðssonar formanns umhverfis- og samgönguráðs.

Norðurmýri er hverfið mitt, þar hef ég búið með einhverjum hléum frá unglingsaldri. Eins og er alkunna er hverfið mitt svolítið eins og fallega gróin umferðareyja á milli nokkurra stórra gatna, Miklabrautin og Snorrabrautin þar stærstar. Skipulag þessara gatna og þá sérstaklega Snorrabrautar hefur lítið breyst samfara breyttum aðstæðum og umferð. Nú nýlega varð dauðaslys á Snorrabraut og eftir það hefur umræða í fjölmiðlum aðeins aukist um ástandið við þessa götu, bendi ég sérstaklega á greinar Ryan Parteka í Grapevine nú nýverið.

Þessa götu keyri ég sjálf næstum daglega og eða fer yfir gangandi. Hver sem hefur reynt að fara yfir Snorrabraut á grænu ljósi veit að það er ekki hægt, ljósið er það stutt hvað þá sé maður með eitt barn á hjóli og annað í kerru (þetta á einnig við ljósin sem eru á Snorrabraut til móts við Flókagötu). Barnið mitt byrjar í Austurbæjarskóla í haust og satt best að segja óar mér við þessu ástandi. Svörin sem fengust úr Fréttablaðinu frá Stefáni Agnari Finnssyni, deildarstjóra á umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar um lengd ljósa á Snorrabraut þótti mér og öðrum íbúum hverfisins snautleg. Ég trúi því ekki að ástandið geti talist eðlilegt þegar svona slys verða, þegar starfsmenn frístundaheimilis Austurbæjarskóla segjast óttast á degi hverjum um öryggi barna í þeirra umsjá þegar farið er yfir þessa götu og enn fremur þegar fólk er frekar tilbúið til þess að flytja en að búa hérna í annars fremur friðsælu hverfi.

Flestir nágrannar mínir, foreldrar, starfsmenn frístundaheimilis Austurbæjarskóla og já margir fleiri eru uggandi um þetta öryggisleysi og spyrja sig jafnframt hver forgangsröðunin sé. Eiga gangandi vegfarendur ekki að ganga fyrir eða verður bíllinn enn einu sinni ofan á. Sjálf ólst ég upp erlendis og það við hraðbraut en þar voru ráðstafanir gerðar með hliðsjón af því að þetta væri hraðbraut og það var alls ekki eins hættulegt eins og þar sem ég bý í dag. En Snorrabrautin er einhvern veginn óskilgreint millistig milli hraðbrautar og götu. Hún hefur ekki þann umferðarþunga sem hraðbrautir hafa en þeim mun hættulegri umferð. Nú er ég ekki sérfræðingur í skipulagi en hver sá sem þekkir þessa götu veit að:

Á Snorrabraut er of hár hámarkshraði, það eru of stutt ljós, of fáar göngubrautir og það þarf að athuga skipulag þessarar götu í ljósi þess að hún er í íbúahverfi og skólahverfi. Einnig veit ég til þess að skrifuð hafi verið Mastersritgerð um skipulag Snorrabrautar við HR svo ekki ætti að vanta menntað fólk til þess að gera eitthvað í þessu. Ég vona að það þurfi ekki fleiri slys eins og varð fyrir stuttu til þess að eitthvað verði að gert!

Bestu kveðjur

Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir

Norðurmýrarbúi, Mastersnemi í þýðingarfræði og móðir tveggja ungra vegfarenda.

þriðjudagur, 18. janúar 2011

sepalausa móa

ég hefi losnað við þrjá fæðingarbletti...nei ekki merkilegt. jú það held ég nú! Húðlæknirinn vildi kalla þá sepa og ég sem hafði haft verulegar áhyggjur af þessu litlu brúnu viðhengjum mínum hefði átt að anda rólegar. Læknirinn rannsakaði þá með logsuðugleraugunum sínum og sagði þá meinlausa sepa! Það var ótrúlega þungu fargi af mér létt þarna en samt bauðst hann til þess að taka nokkra og þar af einn sem hefur verið á augabrún minni um ómuna tíð. Tveir voru á hálsinum mínum, stelpurnar kölluðu þá hlaupabólurnar sínar og höfðu þann sið að fikta í þeim þegar við kúrðum. Læknirinn gerði nú mest lítið úr þessari aðgerð-en mér varð mest hugsað til eins fyrsta heimspeki tímans míns. Þegar Róbert Haraldson spurði hvort ef hann myndi losna við vörtu af tánni væri hann þá sami maðurinn, væri vartan hluti af honum og þar fram eftir götunum/vörtunum...gleymspekin. Þegar aðgerðin hófst fór ég að skilja logsuðugleraugun-fyrst var stungið nál í skytturnar þrjár...og síðan hafist handa við að brenna þá bókstaflega af mér hljóðið var eins og í aggressívri árásarflugu, brunalykt í loftinu...engin sársauki fylgdi þeim þremur. En skyndilega fer hann að brenna mig í kringum einn fæðingarblettinn og kom þá í ljós að einn sepinn hafði átt nokkur sepabörn sem tók því ekki að deyfa! Mymen það var sárt, úff- en svo sem ekki jafn sárt og að fæða barn. Nú finnst mér ég fremur nakin í andlitinu...finn meira að segja fyrir söknuði. Án þess að gera mér grein fyrir því var ég vön að vera endalaust að fikta í þessum sepa á augabrúninni oft þegar ég var að spá og spekúlera. Þá strauk ég eftir augabrúninni, staðnæmdist aðeins við sepann góða. Þetta veit ég vegna þess að síðan ég missti hann rek ég mig á það að vera strjúka augabrúninni og bregða í brún þegar ég finn aðeins sárið undir fingurgómnum-Er sepalausa móa, ég eða er ég önnur og ennfremur ætti sepalausa móa að fá sér seppa?

þriðjudagur, 11. janúar 2011

áramótaheitin...

Já áramótaheitin eru bara nokkuð mörg og kannski vegna þess að ég tók heit síðasta árs og framlengdi þau þar sem þónokkur voru óefnd! En samt hef ég fulla trú á þessu fyrirbæri, óskir til þess að gera eitthvað, láta sér líða betur eða vera á einhvern hátt aðeins betri getur ekki annað en verið jákvætt:)
Best of síðasta ár:

Besta platan: Sóley
Besta bókin: Jónas Svafár (heildarútgáfa) mjög falleg bók!
Besta bloggið: pipiogpupu....djók
Besta nýja lúkkið á bloggi: Tinnublogg og já pipiogpupu (ekki djók)
Fyndnasta nýja bloggið: pi...nei ok, tískubloggið
Skemmtilegustu, sætustu og krúttlegustu börnin: Ísold, karólína....já og svo öll hin börnin sem við þekkjum og koma fast á hæla þeirra.
Frábærustu vinirnir: þið vitið hver þið eruð...takk fyrir að vera þið (og lesa bloggið mitt)
Yndislegustu ættingjarnir: Já þið sem lesið þetta blogg og hinir líka-þið eruð yfirleitt frábær...
Mesta afrekið: synda í Atlanshafinu...nokkrum sinnum í sumar, það er geggjað.
Já annars er þetta best of form ekkert alveg að gera sig hjá mér ég verð bara brjálaður egóisti og guð minn góður það er náttúrulega alveg hræðilegt að hrósa fólki hvað þá börnum sínum ef marka má orð Margrétar Pálu í útvarpinu í dag!

Nýjárskveðja M.

sunnudagur, 9. janúar 2011

Haltu þér fast!

Hér á fróni er alltaf eitthvað veður og svo þegar það er hræðilega vont veður köllum við það óveður. Á ekki-veðursdögum gerist svolítið séríslenskt. Skyndilega er eins og jörðin undir manni sé ekkert sérlega traust, vindhviðurnar slíkar að maður þarf að halda sér fast og það í sjálfan sig. Í útvarpinu í vikunni var talað um að það hefði verið tvöfaldur fellibylshraði á hviðum í einhverjum firðinum! Hér þykir þetta varla tiltökumál, sjaldan talað um fellibyli...mest varað við hlutir fjúki og geri óskunda. Við vini og ættingja segir maður haltu þér fast, en það sagði vinkona mín einmitt við mig í þann mund sem hún flaug á hús og ég reyndi eftir fremsta megna að halda mér fastri á íslenskri grundu með því að halda í sjálfa mig. Þetta er auðvitað stórkostlega merkilegt orðatiltæki og á þeim örfáu tungum öðrum sem ég þekki til er aldrei talað um þetta-maður heldur sér í eitthvað í mesta lagi. Eftir að hafa búið hér þriðjung úr ævi hef ég séð margt takast á flug annað en flugvélar, eitt sinn sá ég stöðumælavörð fljúga upp í loft og pompa svo niður en þá reyndar vegna hálku og með engri pragt, börn, eldri konu og marga fleiri. Vona að ég takist á meira andlegt flug á þessu nýja ári og  ætlunin að blogga sem aldrei fyrr!!

mánudagur, 3. janúar 2011

Ísold 6 ára, 2. janúar 2011!


Þetta eru mögnuð sex ár sem við höfum lifað saman við og Ísold, mér finnst eins og hún hafi fæðst í gær-eins og nýbökuðum foreldrum sæmir þá fannst manni eins og enginn hefði gengið í gegnum jafn einstaka reynslu og við þegar við eignuðumst litla trjáfroskinn okkar. Það var yndislegt að sjá augu pabba ljóma þegar hann sá Ísold fyrst, hrifningin var algjör-hún slær þér jafnvel við sagði pabbi, mikið þótti mér vænt um það:)
Litla sunnudagsbarnið mitt er mikil dama, hefur mikinn áhuga á prinsessum, ballet og bleiku, já og það þrátt fyrir að eiga femínista fyrir móður! Sniðuga og skemmtilega stelpan mín vakir og vaknar seint, hermir eftir röddum eins og pabbinn sinn (já og er mjög lík pabba sínum að öllu öðru leyti). Þegar hún leikur nornina í mjallhvíti verðum við öll þrjú skíthrædd. En Hvað um það sex ára aldurinn virðist vera mjög mikilvægur í hugum barna, í kvöld fór Ísold að sofa með ballettöskuna með sér upp í rúm og spurði mig hvort hún færi ekki í skólann og balletskólann á morgun...og hvenær losna tennurnar eiginlega?Allt á að gerast strax! Ekki síðar en í gær.