fimmtudagur, 26. janúar 2012

Ári síðar! Dauðagildran Snorrabraut!

Enn og aftur sendi ég borginni bréf um Snorrabrautina!


Sælir

Ég sendi ykkur póst fyrir ári síðan, þið svöruðuð fljótt og talað um að það væri á áætlun að breyta og laga ætti SNORRABRAUTINA. Í dag er liðið ár, ýmislegt hefur breyst en flest hefur ekkert breyst.
Það sem hefur ekki breyst er að græni karlinn á gatnamótum Egilsgötu/Snorrabraut fær að skína í heilar 9 sekúndur. Ég og dætur mínar tvær (5 og 7 ára) erum rétt svo komnar yfir skaflinn þegar sá rauði er kominn aftur þá eigum við fótum okkar fjör að launa að reyna komast yfir fjórar akreinar áður en bílar bókstaflega bruna yfir okkur. Við höfum margoft verið í lífshættu, ég hef sjálf verið vitni að þónokkrum slysum á Snorrabraut á þessu ári. Mér finnst ekki hægt að bjóða borgarbúum  þetta lengur, ég hef komið með hugmyndir í Betri Reykjavík, við höfum stofnað facebookgrúppu til stuðnings þessu málefni. Í skýrslu Rannsóknarnefndar umferðaslysa frá haustinu 2010 segir að það verði að breyta þessari götu! Ég er búin að heyra frá nokkrum á vegum borgarinnar sem segja að það eigi að breyta Snorrabrautinni, fækka akreinum og setja hjólastíga... en aldrei er talað um HVENÆR. Ég spyr því HVENÆR ætliði að lagfæra götuna? 

Opið bréf til Hverfisráðs Hlíða og til Stefáns A. Finnssonar deildarstjóra á umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar og Karls Sigurðssonar formanns umhverfis- og samgönguráðs.

Norðurmýri er hverfið mitt, þar hef ég búið með einhverjum hléum frá unglingsaldri. Eins og er alkunna er hverfið mitt svolítið eins og fallega gróin umferðareyja á milli nokkurra stórra gatna, Miklabrautin og Snorrabrautin þar stærstar. Skipulag þessara gatna og þá sérstaklega Snorrabrautar hefur lítið breyst samfara breyttum aðstæðum og umferð. Nú nýlega varð dauðaslys á Snorrabraut og eftir það hefur umræða í fjölmiðlum aðeins aukist um ástandið við þessa götu, bendi ég sérstaklega á greinar Ryan Parteka í Grapevine nú nýverið.
Þessa götu keyri ég sjálf næstum daglega og eða fer yfir gangandi. Hver sem hefur reynt að fara yfir Snorrabraut á grænu ljósi veit að það er ekki hægt, ljósið er það stutt hvað þá sé maður með eitt barn á hjóli og annað í kerru (þetta á einnig við ljósin sem eru á Snorrabraut til móts við Flókagötu). Barnið mitt byrjar í Austurbæjarskóla í haust og satt best að segja óar mér við þessu ástandi. Svörin sem fengust úr Fréttablaðinu frá Stefáni Agnari Finnssyni, deildarstjóra á umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar um lengd ljósa á Snorrabraut þótti mér og öðrum íbúum hverfisins snautleg. Ég trúi því ekki að ástandið geti talist eðlilegt þegar svona slys verða, þegar starfsmenn frístundaheimilis Austurbæjarskóla segjast óttast á degi hverjum um öryggi barna í þeirra umsjá þegar farið er yfir þessa götu og enn fremur þegar fólk er frekar tilbúið til þess að flytja en að búa hérna í annars fremur friðsælu hverfi.
Flestir nágrannar mínir, foreldrar, starfsmenn frístundaheimilis Austurbæjarskóla og já margir fleiri eru uggandi um þetta öryggisleysi og spyrja sig jafnframt hver forgangsröðunin sé. Eiga gangandi vegfarendur ekki að ganga fyrir eða verður bíllinn enn einu sinni ofan á. Sjálf ólst ég upp erlendis og það við hraðbraut en þar voru ráðstafanir gerðar með hliðsjón af því að þetta væri hraðbraut og það var alls ekki eins hættulegt eins og þar sem ég bý í dag. En Snorrabrautin er einhvern veginn óskilgreint millistig milli hraðbrautar og götu. Hún hefur ekki þann umferðarþunga sem hraðbrautir hafa en þeim mun hættulegri umferð. Nú er ég ekki sérfræðingur í skipulagi en hver sá sem þekkir þessa götu veit að:
Á Snorrabraut er of hár hámarkshraði, það eru of stutt ljós, of fáar göngubrautir og það þarf að athuga skipulag þessarar götu í ljósi þess að hún er í íbúahverfi og skólahverfi. Einnig veit ég til þess að skrifuð hafi verið Mastersritgerð um skipulag Snorrabrautar við HR svo ekki ætti að vanta menntað fólk til þess að gera eitthvað í þessu. Ég vona að það þurfi ekki fleiri slys eins og varð fyrir stuttu til þess að eitthvað verði að gert!

Bestu kveðjur
Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir
Norðurmýrarbúi, þýðandi og móðir tveggja ungra gangandi vegfarenda.

miðvikudagur, 18. janúar 2012

janúarþunglyndið og áramótafeikin

Það verður að viðurkennast að það er búið að vera hell að vakna þennan mánuðinn ekki hjálpar veðrið sem hefur ákveðið að vanrækja skyldur sínar við loftslagshitnun allrækilega. eins og allvanalegt er hjá mér hafði ég ákveðið að vera með einhver stórfengleg áramótaheit. Öll koma þau úr sama brunni, ég var ekki nógu eitthvað árið 2011 og nú ætla ég vera mun betri í þessu öllu, miklu sætari og allt. En svo las ég ráð frá einhverjum búddískum zen besserwisser sem sagði mér beinlínis að svoleiðis væri asnalegt...þá fór ég að hugsa út í öll áramótaheit síðustu ára sem mörg hver urðu aldrei að veruleika...t.d. hef ég enn ekki hætt að borða sælgæti, ég bloggaði ekki meira eins og ætlunin var, var ég betri manneskja? keine anung...(en ég náði loksins að sauma rúmteppið í haust sem var áramótaheitið 2007)
Nú svo heyrði ég í útvarpinu að flestir sem strengdu heit gæfust upp 10. jan sérstaklega ef heitið snérist um megrun, hætta reykingum eða að hreyfa sig geðveikt! Hins vegar vill þessi búddistazen gaur meina að það sé mun ráðlegra að reyna breyta venjum sínum og helst ekki tækla nema eitt í einu. Ég ætla því auðvitað að venja mig af 12 asnalegum venjum, fyrsta er að venja mig af því að strengja áramótaheit sem ég stend svo ekki við...(sem er mér greinilega ómögulegt)
Í staðinn ætla ég því að umfaðma þunglyndið sem fylgir því að búa á norðurhveli jarðar, þar sem er engin birta og vont veður og þar sem nýútskrifaður og hæfileikaríkur þýðingafræðingur með sérlegan áhuga á feminískri heimspeki fær ekki vinnu (og já hún tekur það persónulega)...
Umfaðma þá staðreynd hversu kaldranalegt lífið getur verið og að sem norður-evrópubúi sé mér eðlislægt að vera langt niðri á vetrarmánuðum. (Kem því hér með á framfæri að ríkisstjórnin getur varla kallast sósíalísk velferðarstjórn nema hún bjóði okkur til heitari sósíalískra landa þar sem sól skín í heiði.)
þangað til horfi ég á  Ingmar Bergman kvikmyndir út í eitt og nýt mikillra samvista við sængina góðu...

þriðjudagur, 3. janúar 2012

nýársbarnið og annum nobili 2011

litla ljúf er 7 ára í dag(2. jan), okkur þykir öllum mikið til koma enda sérstaklega upprifin af afmælum. Ísold byrjaði í skóla síðasta haust sem okkur þótti líka svakalega merkilegur áfangi. 'Eg sem hafði svarið þess eið að koma ekki nálægt skólastofnun aftur eftir að hafa útskrifast sem meistari á árinu, þurfti aldeilis að sætta mig við það að nú væri skólagangan byrjuð á nýjan leik og nú sem foreldri...Jú ég viðurkenni að það hvarflaði að mér að finna mér skútu og sigla með börn og buru (hvað er bura?) um heimsins höf. Í stað þess að skilja barnið eftir á stofnun, en nei eitt það sem ég hef lært í skóla sem utan að skólinn verður ekki umflúinn.
Ísold hefur lært margt og mikið á þessari fyrstu önn sinni í hinum virðulega austurbæjarskóla og mun meira en að lesa og reikna; hún hefur lært að eignast vini á örskotsstundu, vera huguð, standa með sér...hún hefur mikið verið að velta fyrir sér kynhneigð, justin bieber, rómantík og stefnumótum. Áður en systurnar byrjuðu í skólanum höfðu þær auðvitað lært heilmargt sérstaklega í sumarfríinu okkar í Berlín, þar lærðu þær t.d. heilmargt um ólík samgöngutæki, um mismuninn á afríska fílnum og þeim indverska, um tilvist jógafuglsins, hvernig maður biður um gosvatn á þýðversku og svo má lengi telja.
Unglingaveikin hefur ekki farið framhjá okkur og við höfum komist að því að frumburðurinn er einstaklega raddsterk, reyndar svo mikið að yngra barnið hefur kvartað mikið undan eyrnaverk sem endaði svo með læknisskoðun. Læknirinn sá staðfesti að þar væri engin bólga aðeins viðkvæmni fyrir unglingaveiki, litlan sættist á aukaskammt af lýsismeðali. Á jólasýningunni sáum við svo loks litla barnið sem er búið að stækka helling á þessari fyrstu önn á sviðinu í bíósalnum á austó syngja nokkur lög og það voru að vonum stoltir foreldrar sem leiddu dætur sínar í kringum  jólatréð í íþróttasalnum.
En önninni var ekki lokið þegar lífið kenndi okkur öllum mikilvægustu lexíuna eða þá endanlegustu. Olla langaamma/amma mín í holtó kvaddi okkur nefnilega í byrjun desember þá kom að því að segja litlum hjörtum frá leiðarenda...
bestu óskir á nýju ári!