miðvikudagur, 29. ágúst 2012

fráttir

 feðgini í strætó með háalofti og engu þaki
 nesti í Harrison park eftir skóla
 Karólína og vinir á bát á skólalóðinni
 Espressobar á ferð um skosku hálöndin
 Ströndin í Findhorn
 Skýin í Skotlandi eru einstaklega falleg, Findhorn
 Skosku hálöndin, þjóðgarðurinn Cairngorm...
 Pitlochry
 Kaffistopp í Pitlochry
 Nýja skrifstofa systranna
 Karólína súperglöð að fá að hitta vinkonu sína Heklu á skæp
Brjóstsykur og lakkrís


ég meinti fréttir en fráttir er líka ágætisorð og ekki er ég nú þekkt fyrir að vera með orðarasisma. En hvað um það hér er fjölskyldan búin að vera í næstum mánuð...komum á fullu tungli og nú er það orðið ansi fullt aftur. Og já við erum búin að vera á fullu endalaust. Og búin að ferðast um Skotland. Samt er sumt eftir eins og sjónvarpið sem er ekki komið í gang og það er að gera mig geðveika vegna þess að já geðheilsa mín veltur á því að geta horft á lélegt sjónvarp einhverjar mínútur á dag. Hins vegar er alnetið komið, síminn var kominn en farinn aftur vegna tengingarvitleysu. Nú börnin, hjartans börnin eru komin í skoskan skóla, ekki Hogwarth en ansi nálægt því samt. Þangað fara þær misglaðar á morgnana, Karólína volandi en Ísold minna í volinu en alltaf eru þær brosandi þegar við sækjum þær. Foreldrahjörtun okkar A. eru því svona miskramin því það er erfitt að horfa upp á börnin sín volandi...mikið í einu. Þessi foreldrahjörtu hafa því styrkt kindereggjaframleiðendur meira en góðu hófi gegnir. Við erum hins vegar bjartsýn á að þær verði bráðum blaðrandi á skosku og á fullu að leika við nýja vini. Annað í fréttum er að ritstjóri pipiogpupu hefur fært kvíarnar-ómæ, getur það verið...ég hélt þetta væri aðeins kjaftasaga? kann einhver að hugsa, en jú! Heimasíðan heitir því mikilvæga og sögulega hlaðna nafni Lesbókin. Þetta verður m.a. starfsvettvangur pipiogpupu sem sagt tilraun til að gera eitthvað smá fullorðins...

fimmtudagur, 23. ágúst 2012

fimmtudagur, 16. ágúst 2012

tvær vikur í skotlandi og Heideggerískt ástand


ferðamátinn hér í borg ögn betri fyrir umhverfið en gamli góði fjölskyldubíllinn:)

Elín Ey á Íslensku kvöldi á bókmenntahátíð borgarinnar, frábær tónlistarkona!
 Nú höfum við verið hér í tvær vikur og komin ansi langt í þessu skrifstofustússi öllu saman. Mér tókst að rennbleyta tölvuna mína...og var að fá tölvuna aftur eftir rúma viku í herkví...ég er enn svo stressuð að ég þori varla í sturtu eða koma nálægt vatnsbrúsum! Þvílíkt áfall og þvílíkt sem maður treystir á þessi fyrirbæri:)
Angistin var líka mjög mikil hjá okkur foreldrunum þegar skólastjórinn í Craiglockhart vildi ekki staðfesta 100% að Karólína fengi pláss fyrr en daginn fyrir skólasetningu...Við vorum gjörsamlega að fara yfir um og sátum um skólann síðustu daganna og Arnar gaf skólastjóranum lúkkið! Lúkkið sem já er einhvers staðar á milli eldingu Þórs og Auga Óðins...það er svakalegt. Og blessaður skólastjórinn skalf á beinunum minnugur meðferðar okkar víkingana á Skotunum fyrr á öldum. Þannig að sjálfsögðu komst Karólína inn og þær saman í þennan skóla sem er víst mjög góður að sögn nágrannans og J.K Rowling var með barnið sitt þarna áður en hún varð rosalega þekkt og rík. Ps. Joan K. Rowling er Björkin þeirra og þeir tala um lítið annað hérna. En við getum státað af því að búa í hverfinu þar sem Harry Potter var skapaður! En hverfið gæti varla verið meira næs, það er park rétt fyrir utan sem lítur út fyrir að vera klipptur út úr votta jehóva bæklingi (vantar bara að börnin séu að leika við góðglatt ljón) Fyrir aftan parkinn (Harrison park) er Union canal og meðfram þessum kanal er göngu/hjólreiðastígurinn okkar niður í bæ, þar eru endurnar áreiðanlega votta jehóvar líka og svanapar til að toppa þetta og já árabátaleiga...(hljómar eins og dísætt te) Á einu horni er melabúð og svo auðvitað breskara en allt sem breskt er lítið kaffihús sem heitir Blueberry hill...hvað annað.
Og nú eru stúlkurnar byrjaðar á námi sínu erlendis á undan heimilisföðurnum í mínískrifstofufötum sínum og bara nokkuð brattar með þetta:)

mánudagur, 13. ágúst 2012

ósjálfstæði meikar ekki sens!

Dætur mínar eru svolítið ruglaðar á ýmsu sem tengist nýlegum flutningi okkar...Þær spurðu mig um daginn,
"mamma, ef við erum í skotlandi hvar er þetta  Bretland  og england" Tilraun mín til að útskýra..... the Commonwealth  var einhvern veginn á þá leið að: Skotland og England eru hluti af Bretlandi sem þýðir að Bretland og Drottningin eru yfir Skotlandi" "Fer maður þá til Bretlands þegar maður deyr" svöruðu þær þessari fínu útskýringu...(reyndar nýbúnar að horfa á bróður minn ljónshjarta) og seinna bendir önnur þeirra á Edinborgarkastala "Er þetta Bretland?"

mánudagur, 6. ágúst 2012

Í sinnepsveröld


Í miðbænum

Bakgarðurinnvið endan á canalnum

Craiglockhart-grunnskólinn

Pipiogpupu er jú komin yfir atlantsálar eða til Skotlands. Ekki að hún væri neitt ósátt við hina undurfögru norðurmýri, ónei. Eftir tveggja mánaða pakkningartörn( því pipiogpupu getur ekki átt lítið dót eins og fólk ætti að eiga ef það flytur mikið) flaug hún út ásamt fylgifiskum stórum og smáum með innan við 100 kílógramma farangur til Edinborgarfjarðar. Leigubílaferðin sem slík var ekkert ævintýraleg...eiginlega ósköp venjuleg. Þegar komið var inn í borgina blöstu húsaraðir við, velflest úr múrsteinum eins og ungviðið athugaði og með mörgum skorsteinum á hverju húsi. Landslagið líkist því mjög heimili Vöndu og Mary poppins. Inn úr leigubílnum komum við beint inn í framtíðarheimilið okkar þar sem tók við okkur leigusalinn og gekk það allt saman að óskum þannig að hér sit ég í íbúðinni sem er ósköp fín, með húsgögnum. Eitt vakti athygli mína hér fyrst um sinn, íbúðin er öll máluð í sinnepslitrófi frá gulu dönsku yfir í franskt dijon...afskaplega huggulegt. Það er hátt til lofts og baðherbergið er himinblátt :) P.s.  hér er svefnsófi!

Svör við þeim fjölspurðu spurningum sem ritstjóri fékk áður en hún fór af landi brott: Já við erum flutt til Edinborgar, Edinborg er ekki í Þýskalandi, Nei Arnar fór ekki að nema Sítarleik í Egyptalandi (heyrt á seltjarnanesi) Nei ég veit ekki hvað lengi og já við tókum ekkert sérlega mikið dót með okkur!  og já ég er ættuð ofan af Snæfellsnesi og finnst jarðaberjasjeik bestur.