þriðjudagur, 30. nóvember 2010

dramatískur morgun

ég hef alltaf verið svolítið dramatísk-ef ekki bara mjög mikið. Arnar er líka í dramatískari kantinum þar af leiðandi eru börnin okkar dramatísk! þau henda sér í gólfið í grátköstum þegar þau eiga laga til og segja-"mamma, ég er svo þreytt" þegar þau verða lasin eða eru með smásár á puttanum heyrast óp sem flestir myndu tengja við heimsenda. Eldri stúlkan hefur slíkan grát að engin kemst með hælana þar sem hún hefur tærnar, eftir að hafa kennt Ísold að sofna sjálfa á sínu fyrsta aldursári hlaut ég að þola allt, eldur og brennisteinn kemst ekki í tæri við þjáningar  foreldrana við að hlusta á barnið góla. Litla systirin kemst ekki nálægt decíbelum stóru systur sem betur fer. Í morgun fór okkar eldri í sitt dramatíska skap og fer skyndilega að gráta og segist ekki vilja deyja! ég reyni eftir fremsta megni að afstýra þessari of hrikalegu hugsun en skyndilega er litla beinið farið að gráta í kór með henni. Einhvern veginn reyni ég að hugga þær og forðast allar þær heimspekilegu vangaveltur sem ég hef stúderað í háskólanum í allt of mörg ár. Við förum í leikskólann og stóra stelpan mín er enn ofurviðkvæm sem endar þannig að hún æpir úr sér lungun þegar ég fer á brott og ég verð að sjálfsögðu glaseygðari en regnvot framrúða á bíl...stundum er erfitt að vera manneskja!

fimmtudagur, 25. nóvember 2010

afmælisdagatalið!

Ég er farin að líta allt öðrum augum á facebook-ég er hætt að hatast við þetta fyrirbæri...jafnvel þó að fyrirbærið hafi verið verið skapað af  bitrum nörd úr fínum háskóla í Ameríku! Nei ekki beint gott karma sem kom þessu öllu af stað-kostir þessarar síðu eru auðvitað ótalmargir-færir okkur nær fólki og gömlum vinum, hjálpar nördum að leggja gamlar kærustur í einelti (úps kannski ekki kostur), við getum nú raunverulega fylgst með unglingunum okkar. Get ekki beðið eftir að sjá dætur mínar vera tjá ást sína við unga drengi fáklæddar(já eða stúlkur-maður er svo opinn)!(eða þannig)-hvað þá neyta gruggugra drykkja...
Já svo er hægt að láta alla í heiminum vita ef maður á í hjónabandsvandræðum, þetta bætir við nýrri vídd í kjaftasögur (úff er orðin rugluð er þetta kostur eða?)! Vegna þess lesi maður blöð og aðra fjölmiðla kemst maður fljótt að því að það eina sem fólk hefur virkilega áhuga á er ANNAÐ fólk-hvort annað fólk sé gift, að skilja, eigi börn, ætli sér að eiga börn, eigi viðhald eða höld, hvort það prumpi í baði og þannig fram eftir götunum.
Hins vegar hef ég ákveðið einfalda tilgang þessarar síðu og mun framvegis þýða facebook  sem Afmælisdagatalið þar sem heilög skylda mín verður að óska vinum mínum og ættingjum til hamingju með afmælið-reyna að vera frumleg og skemmtileg í kveðjunum-þannig hlýt ég að fá gott karma til baka, einhvern tíman og kannski ef vera skyldi á afmælinu mínu!!!
hver man ekki eftir litlu afmælisdagatalsbókunum sem voru til á hverju einasta hippaheimili með vott af virðuleika-við hvern dag var lýsing á kostum manns og eiginleikum og til móts við daginn í bókinni voru auðar línur þar sem fólk var hvatt til þess að skrifa nafn sitt! þannig gat maður munað afmæli alls kyns fólks og vitað um leið hvaða kostum það væri búið!
Þessi færsla er að sjálfsögðu tileinkuð Jóa móðurbróður mínum sem á afmæli í dag og er bogmaður!

laugardagur, 20. nóvember 2010

klósettástarjátning

Eitt sinn var ég ung stúlka og hafði óhemju margar skoðanir á sem flestu, þóttist fylgjast með stjórnmálum af miklum áhuga og hafði þó nokkur prinsipp...Eitt þeirra var að ég ætlaði undir engum kringum stæðum að vera svona par sem hefur hurðina opna þegar það fer á prívatið-hvað þá ræða málin þar inni! nei prívatið er prívat. Nei, raunin varð svo allt önnur, í fyrsta lagi er makinn minn ekki beinlínis þögla týpan þannig að ég komst fljótt að því að mjög oft þarf hann að ræða við mig einmitt þegar ég sit á postulíninu...nú svo skánaði ekki ástandið við barneignir. Það er eins og hellist yfir börnin gífurlegur aðskilnaðarkvíði þegar ég þarf að bregða mér frá í þessar sirkabát tvær mínútur og áður en ég veit af sit ég, les bók fyrir Karólínu, reyni að finna plástur fyrir þá eldri og hlusta á arnar tala um lystisemdir blaðamannsstarfsins...allt á meðan ég skila af mér mínu. ég er eiginlega farin að halda að ég sé mest aðlaðandi þegar ég sit á klósettinu!
Í kvöld fórum við öll 4 á skyndibitastað með svakaboltalandi (sem þýðir við gátum borðað í rólegheitunum á meðan þær léku sér og fáum því ekki magasár en maturinn var svo óhollur að við fáum líkast til kransæðastíflu).  Eldri dóttir mín á í ákveðnum erfiðleikum með að hafa hægðir (ég veit ekki frásögur færandi) heldur í sér, verður kvíðin þar til hún getur varla gengið og kúkurinn verður á stærð við hrossabjúgu. En hvað um það! Fljótlega eftir að við komum inn fer hún að ganga hokin og æpa að hún þurfi að kúka, þannig ég hleyp með hana inn á WCið og í þriðju tilraun tókst það svo loksins! Gleðin og feginleikin eru slík hjá barninu að það er engu líkt. Þar sem ég krýp og held í höndina á henni,  horfir hún djúpt í augu mín og segir "mamma, ég elska þig" með mikillri áherslu og bætir við "þegar ég kúka, þegar ég pissa, þegar ég hósta. þegar ég faðma þig og þegar ég kyssi þig"--auðvitað bráðnaði hjartað mitt eins og ... smjör!

föstudagur, 19. nóvember 2010

blá að innan sem utan...

Kate spurð um tilurð trúlofunar-
"Sástu hvert stefndi?"
"Nei, alls ekki því við vorum þarna með vinum okkar.
'Eg bjóst því alls ekki við þessu. Ég hélt hann hefði kannski hugleitt það!!!
En það kom mér þó algjörlega á óvart þegar þar að kom!
'Eg varð mjög spennt!!!"
Hún er sum sé búin að bíða ótrúlega þolinmóð í átta ár eftir því að hann hugleiði jafnvel að heitbindast....
Einmitt-trúi því! Í þágu rómantíkur eiga konur að látast ekki hafa neinar skoðanir á hjónaböndum fyrr en maðurinn hefur ákveðið að hann vilji spyrja "stóru spurningarinnar" og þá koma þær af fjöllum "ó ertu skotinn í mér, viltu eyða með mér þínum efri (sköllóttu í tilfelli Williams) árum-Já ok!"

fimmtudagur, 18. nóvember 2010

mánudagur, 15. nóvember 2010

latur og kaldur buffall

samkvæmt indveskri stjörnuspeki (sem indverjar nefna stjörnufræði-svo hávísindalegt er þetta) er ég mjög svo iðin, hugmyndarík, skapandi! þeir vilja líka meina að ég hafi ríka kímnigáfu og andagift svo ekki sé nú minnst á skarpa greind og færni til mannlegra samskipta (hef samt alltaf talið mig vera enn betri í dýrslegum samskiptum)-aðalsmerki mitt er samt  hversu iðin og dugleg ég er, framtaksöm og hugvitsöm... Enda er ég Buffall (skv. indverskum stjörnuspekingi). Umræddum buffal er kalt þessa daganna.

föstudagur, 12. nóvember 2010

Síðustu dagar auðnutittlingsins Þrösts

Ísold bjó til snjókall laugardag síðastliðinn út í garði með hjálp pabba síns sem fann lítinn slasaðan fugl-við tókum hann inn gáfum honum af matnum hennar Stínu og vatn! Litla greyið var fremur veiklulegt og mín kenning var sú að hér væri að ræða þrastarunga en í partíi kvöldsins fengu gestir að líta til hans í skókassann og kom í ljós að hann Þröstur litli væri auðnutittlingur, eftir nokkura daga samveru var ég svo orðin sannfærð um að hann væri ungur auðnutittlingur og hann væri jafnvel bara nýskriðinn úr hreiðri sínu. Ástandið á honum var ekki gott, með slasaðar lappir og væng, fyrst um sinn lá hann sem mest á bakinu. Flestir voru á því að ég ætti að snúa greyið úr hálslið en ég gat engan veginn fengið sjálfa mig í slíkt voðaverk-hann nærðist og drakk vatn sem mér fannst næg ástæða til að halda honum heima-húsdýragarðurinn vildi ekkert með hann hafa og stakk upp á því ég færi með hann til dýralæknis sem myndi aflífa hann. Hvort við værum með þessu að viðhalda þjáningum hans eða bjarga honum frá einmannalegum dauða í frosti og byl í Norðurmýri verður að liggja á milli hluta...Hins vegar varð hann fljótt gæfur, stelpurnar gátu strokið honum án þess að hann kippti sér við og hann horfði afskaplega blítt á okkur(virtist í raun mun gæfari en gæludýrið okkar hún Stína!).  En svo gerðist hið óumflýjanlega Þröstur litli auðnutittlingur dó í skókassanum og við fjölskyldan jörðuðum hann við reynitréð þar sem hann féll úr--Úti í garði stóðum við fjögur í fimbulkulda og sungum sofðu unga ástin mín (líklega fáránleg sjón jafnvel svolítið Bergmanísk!)--En þetta er víst gangur lífsins myndi amma mín í skjólinu segja!

fimmtudagur, 11. nóvember 2010

Mafalda og heimurinn

Mafalda var uppáhaldsteiknimyndahetjan mín þegar ég var barn og sú sem ég samsamaði mig mest við. Hún er ekki beinlínis nein hetja en hún hafði miklar áhyggjur af gangi mála í heiminum, heimsfriði, hrædd við heimsenda, pólitísk þenkjandi og fann til ábyrgðar gagnvart þeim ílla stöddu í heiminum-auk þess er hún kjáni og ofurdramatísk! Nú er ég fullorðin og loka helst til oft fyrir hörmungum heimsins, hugsa voða lítið um heimsenda og forðast pólitík eins og gjósandi eldfjall--Hins vegar er litla stelpan mín sem er nýlega farin að lesa og skrifa farin að spyrja mig margra spurninga á dag sem varðar líf, dauða, heimsenda í maföldustílnum! Það er ágætt að manni sé haldið við efnið.

þriðjudagur, 9. nóvember 2010

mánudagur, 8. nóvember 2010

allt er breytingum háð líka jarðaberjasjeik pipiogpupu

merkilegt nokk en ég eða bloggið mitt er búið að fara í meikóver! eins og þið sjáið og þið ætlið öll að hrósa mér gegt mikið fyrir þessar tímabæru breytingar....það má segja að pipiogpupu sé búið að stíga skrefið í framtíðina nú er hægt að deila og drottna internetinu öllu frá þessari annars auðmjúku og jafnframt skemmtilegu fréttasíðu.
Ég mun halda áfram að fjalla um öll þau mál sem eru efst á baugi í endurtekningarsömu lífi mínu: væmnar sögur af afkvæmum; tilefnislausa gleðipistla og fleira tilgangslaust þvaður. Ég mun halda áfram að líta á jarðaberjasjeikinn sem montvettfang:mont um þvottafjöllin sem ég klíf vikulega með fjallgönguhópi mínum, mont um klaufaskap, barnamont(var ég búin með það nokkuð?) mont um undarlegheit, mont um efnislega hluti eins og þegar ég eignast eitthvað nýtt og dýrt sem ég þarfnast engan veginn. En að endingu lofa ég að fjalla sem minnst um almenna skynsemi, sparsemi, afskiptasemi, stjórnmálasemi eða hvað semi sem er sem getur gert líf konu óbærilegt.
ps. allar stafsetningavillur eru háðar veðrabreytingum!

þriðjudagur, 2. nóvember 2010

vetrarfrí og tími sem hverfur stöðugt!

við fórum í okkar árlegu ferð til Ólafsfjarðar með vinafólki okkar ættuðu þaðan... og það var stórkostlegt svo ekki sé meira sagt.(myndavél biluð og við verðum að ylja okkur við gamaldags minningar). Mér finnst það alltaf jafn mikil uppgötvun hve norðurlandið er mér kært-leiðin norður er svo falleg hvað þá undir fullu tungli. Alls staðar minningar, mér finnst eins og ég hafi farið þessa leið milljón sinnum, fyrst í rauðu norðurleiðarrútunum, stoppað í gamla staðarskála og kannski keypt smá gotterí. Í síðustu ferð var ekki stoppað í staðarskála, raunar brunuðum við norður og stoppuðum ekki fyrr en í varmahlíð-litla beinið byrjaði á að spyrja í ártúnsbrekkunni hvort "við værum ekki að koma" og hélt áfram til enda ferðar! Ólafsfjörður er hreint dásamlegur bær, snotur með lítillri tjörn í centruminu og lítillri göngubrú þar yfir sem leiðir beint að svaðalegri snjósleðabrekku...og auðvitað var snjór og foreldrarnir sem höfðu talið sér trú um að þau hefðu keypt fínasta krakkasleðann í gervöllu þýskalandi, renndu sér mest sjálf. Á meðan við létum eins og bavíanar í snjósleðabrekkunni, kvörtuðu stúlkukindurnar undan fótkulda og ofurhetja ferðalagsins hún Tinna(bjargvættur) hóf sögulega björgun á andarungum sem endur bæjartjarnarinnar höfðu átt á kolröngum tíma (loftslagsbreytingar sjáiði til). Þarna stóð annars nokkuð eðlileg vinkona mín með loðkollhúfu, háf, gulan bala og krakkaskara í kringum sig. Veiddi svo hvern ungan af öðrum, auðvitað voru þeir sjö(eins og í ævintýrunum) og sá síðasti langþrjóskastur-en allir björguðust þeir og komust þeir heilir á höldnu til Andavinafélagsins(ekki fyrir framliðna né afturgengna).
Frækilega fjölskyldan fór líka ásamt hinni familíunni á skauta í höll nokkurri. Hin eldri rúsína varð mjög impóneruð og sagðist vilja fara æfa skauta ásamt balletæfingunum! árlegar hefðir hafðar í heiðri svo sem jólahús og jólamatur! UMMMmmmmmmmm!
Rúsínan í pulsuendanum var svo að fara í nýju göngin tvö kennd við Héðinsfjörð og bæta við þessum týnda firði í safnið. Siglufjörður var eins og beint úr sögubók, notalegur og fallegur og svo var keyrt heim á leið í aftaka veðri og það á kvennafrídaginn sjálfan (ég kom að sjálfsögðu ekkert að keyrslu né nokkru öðru, sat bara og reyndi eftir fremsta megni að skipta mér ekki af akstri.
Annars finnst mér tíminn líða allt allt of hratt í þessum mastersritgerðarskrifum mínum.