fimmtudagur, 29. júní 2006

eftir 6 daga

fljúgum við enn á ný og í þetta skiptið á frón. Þetta verður 17. flugferð Ísoldar sem hún fer og það ókeypis þar sem hún er ekki orðin tveggja. Auk hennar verður enn minni laumufarþegi sem fær ókeypis.... sá/sú er líka ástæðan fyrir því að ég kem heim með fremur framstæðann maga. Segið svo að við kunnum ekki að spara! Annars fer hver að vera síðastur að kommenta um hversu mikið mín er saknað og hve frónið sé ekki samt án mín!!!!
Kannski skelli ég inn nokkrum myndum frá velheppnaðri Póllandsferð annars sjáumst við bara.

fimmtudagur, 22. júní 2006

konunglegir dagar.

Arnari og fylgdarmey(mér) var boðið til prinsessu á dögunum. Sú er með nokkur eftirnöfn eins og þeim ber og eitt þeirra er meira að segja Wittgenstein. Eftir langa S-bahn ferð suður til ég veit ekki hvað komum við í ekkert svo fansí hverfi, ekkert sextánda hverfi í gangi. En í einu fínu húsi þó án turna á annari hæðinni tók á móti okkur brosmild prinsessan í buxum. Nei nei ó sei sei, engar krínolínur þar á ferð. Þar vorum við kynnt endalaust fyrir körlum í blaser jökkum og konum í léttum sumarklæðnaði. Flestir gestanna þó eitthvað eldri en við en einhvern veginn tókst okkur að vera ekki alger krækiber í helvíti, ég fann mér franska konu og ræddi við hana um dásamlega brie ostinn(á stærð við sextán tommu pizzu frá franz) sem var á boðstólum og svo auðvitað fótbolta...það var ekki bjart upplitið á konunni. Franska liðið væri hrein hneisa fyrir þjóðina tjáði hún mér, maðurinn hennar reyndi nú að finna jákvæða punkta á þeirra síðasta leik en konan dró hann niður á jörðina og sagði þá hafa "sökkað feitt". Við komumst heil í gegnum þessa berlínsku efristéttar skemmtun. Eitt lærði ég þó þetta kvöld að maður á að bjóða upp á einfaldar en góðar veitingar(þegar ég fer að halda konunglegu veislurnar mínar)- s.s ekki sjö tegundir af kökum, köldum eða heitum réttum. Prinsessan bauð upp á ljúffenga tómatsúpu sem var fullkomin að mati Arnars svo var fyrrnefndi brie osturinn og kirsuber. Einfalt og gott.
í gær ásamt annari prinsessu í minni kantinum en í buxum líka fórum við til Potsdam, röltum áhyggjulaus um Sanssouci(tíhíhíh) garðinn og kíktum á alla rococcogeðveikina. Áttum indælisdag undir funheitri berlínarsólinni.
Hér blaktir þýski fáninn sem aldrei fyrr, þeir eru að koma út úr skápnum með þjóðernisstoltið mætti halda. Flestir segja þó að þessi gul-rauð-svarta manía muni enda eftir leikanna, því hér er þjóðernisstolt yfirleitt tabú(skiljanlega, humhum). Fyrir minn smekk gæti ég ekki verið stolt af svona ljótum fána, litasamsetningin er fatal.
Tvær vikur í íslenska grámann, vindinn, vatnið, sundið og plokkfiskinn-og ég hlakka brjálað til....undarlegt nokk!!!

mánudagur, 19. júní 2006

dúbídú

áttum fína þjóðhátíðarhelgi, borðuðum íslenskar pulsur hjá sendiherranum í hinu fínasta veðri. Veðurguðirnir greinilega hlustað aðeins á mig og tónað niður í hitanum. Í gær fórum við svo að weisensee vatni í fjölskylduferð ásamt öllum sítt að aftan austur-þjóðverjunum og konum í níðþröngum leopard kjólum með aflitað hár. Það er ágætt að fá frí frá hipp og kúlinu sérstaklega áður en maður kemur á svölu eyjuna. dúbídúdúbídúbídúbídúdúdúdúbídúdúbídúdúdúdúbíbíbídúdúbíbídúbídúbídú.

miðvikudagur, 14. júní 2006

Þjóðverjar gera sér glaðan dag.

Já já það er erfitt að láta fótboltann fara framhjá sér akkurat núna. En í kvöld finnst mér hann bara allt í lagi fyrirbæri. Strákarnir fóru út að horfa á leik og ég fæ vistarverurnar fyrir mig, ótrúlegt en satt þá er ég bara mjög skemmtilegt kompaní. Inn um galopna gluggana berst skvaldur, barnaskrækir,grillilmur og svona áhagendahróp. Ég er að spá í smá spa og tedrykkju. Megi þeir bestu vinna.

þriðjudagur, 13. júní 2006

gleymspeki og of mikil sól

Líklegast hefur einhver heimspekingurinn sagt að menn væru alltaf óánægðir, en ég hef ekkert haft fyrir því að muna eitthvað af þessum fræðum sem ég hef lagt stund á. Nú er í Berlín brjáluð sól og blíða sem er mér algerlega um megn...svo mikið að ég reyni að forðast að fara út úr húsi. Ég veit að þetta er guðlast í eyrum Íslendinga með D-vítamín vöntun á háu stigi, en mér er alveg sama. Hér er ein mesta molla sem ég hef kynnst þó allir gluggar séu hér upp á gátt má enga golu finna. Ég er með innilokunar og köfnunartilfinningu og þrái vesturbæjarlaugina heitar en nokkru sinni.

sunnudagur, 11. júní 2006

föstudagur, 9. júní 2006

sumarið er tíminn

Þegar enginn nennir að blogga...eða hvað? Ég er afskaplega eirðarlaus, hitinn er kominn aftur og framtíðin óljós. Fréttir frá Íslandi eru ákaflega stopular og stundum finnst mér erfitt að geta ekki bara stokkið heim þegar eitthvað liggur á. Nýbúinn í mér er leiður á nýbúalifnaðinum, langar að þekkja og skilja umhverfi sitt. Heyra og sjá vini( og nýjar vinaviðbætur). Þar til næst.

þriðjudagur, 6. júní 2006

international Slayer dagurinn

Í dag kom litli bróðir minn til borgarinnar, orðinn höfðinu hærri en ég(heldur samt titlinum litli bróðir). Mér finnst hann ósköp duglegur að fljúga svona einn stórborganna á milli svo ekki sé minnst á hve mikil hjálp hann er hér á heimilinu. Ísold var nú ekki lengi að taka hann í sátt og þau orðin mestu mátar eftir hálftíma.
En að heimóttarstjórnmálum, ekki vissi ég að Halldór Á. væri Slayer aðdáandi eða djöfladýrkandi en hann kann sannarlega að velja daginn.

sunnudagur, 4. júní 2006

tv5....MONDE

Hef horft svolítið mikið á franska sjónvarpið undanfarið, sambýlismanni mínum varð næstum því nóg um þegar ég horfði á enn einn fréttatímann sem innihélt aðeins fréttir af mótmælum. Mótmælt var í Toulouse að björnum væri sleppt í Pýreneafjöllin til að lifa þar sínu náttúrulega lífi. Næsta frétt var svo auðvitað frétt af mótmælum á svipuðum slóðum frá náttúruverndarsinnum sem styðja þessa bjarnaráætlun. Í öllum þessum mótmælafréttum er svo talað við einn mann eða eina konu(oftar en ekki með stór nef) í hópnum sem er alveg brjálaður, baðar út öngum og er þetta virkilega mikið hjartans mál.Það er sem sagt líf og fjör í frans, svei mér þá ef dvöl mín hér í þýskalandi er ekki bara að lækna antipatíu mína á fóstrum mínum frökkum;)