mánudagur, 20. desember 2010

Karólína 4 ára 19. des

Þessi litla dama varð fjögurra ára í gær, hún er að mati móður sinnar eitt fyndnasta barn sem fæðst hefur fyrir utan að vera krúttlegust og skemmtilegust. Hún hefur ákveðnar skoðanir og veit hvað hún vill, t.d. þykist hún heita Karólína Einarsdóttir...það hefur ekkert með föður hennar að gera eða að henni mislíki Thoroddsen-nafnið, hún vill bara heita eins og vinkona sín á leikskólanum. Litla Karólína er með sama stríðnissvip og afi hennar Geirlaugur, strípihneigð föður síns og fýlugjörn eins og móðirin! (þvílík blanda)
Merkileg er sjálfskoðunin sem maður gengur í gegnum sem foreldri, maður hrósar sér af því að barnið hafi sömu galla og maður sjálfur eða kosti og í þeirra fari eru þau mun krúttlegri og ásættanlegri!
En Daman var ánægð með daginn, veisluna, diskóeyjukökuna og pakkana. Mest ánægð var hún með að vera afmælisstelpa. Eftir afmælið var að venju farið í jólatrésleiðangur og eitt slíkt keypt upp á Landakotshæð sem er sérlega lítið og pent. Það stendur nú skreytt til óbóta í stofunni.

föstudagur, 17. desember 2010

jólajólajóla HVAÐ!

Stundum er svo mikið jóla á íslandi að það fer með mann, það eru jólabækur, jólamatur, jólanammi, jóla hitt og jóla þetta...hins vegar er jólaveðrið yfirleitt vitlaust og engan veginn í stíl við yfirdrifin áhuga landsmanna að skeyta orðinu jóla- á undan hverju sem er!
Jólamóa er ekki í yfirdrifnu jólaskapi, þarf að skrifa og jólaskrifa jólaritgerð í jólaþjóðar-bókhlöðunni og fær því lítið jólafrí...og finnst það reyndar ekkert svo jólaslæmt. jólabless

fimmtudagur, 16. desember 2010

strætóeltingur

Ísold tók þátt í því að skreyta strætó fyrir jólin með leikskólanum sínum-Sólborg. Það er hægt að finna myndina hennar á heimasíðu strætó og svo auðvitað á strætó-Ísold og hennar félagar skreyttu strætó 166- nú ætla ég að fara keyra um alla borg og sjá þennan óendanlega fagra strætó. Annars sagði  ég stelpunum mínum frá því þegar ég var sótt af kópavogsstrætó á stelluróló einu sinni-þær voru impóneraðar svo ekki sé meira sagt. Hvort það var Ikarusinn eða Leylandinn veit ég ekki en mikið var nú kópavogsstrætó alltaf flottur!

þriðjudagur, 7. desember 2010

Stólatangó

Okkur áskotnuðust nokkrir stólar í vor nú svo var ég að kaupa einn grænan hægindastól í góða hirðinum um daginn en við erum sum sé nokkuð vel sett með stóla.(engar áhyggjur ekkert af þessu er svona designdrasl) Það sem mér finnst algerlega dásamlegt að þetta ástand er eiginmanni mínum mjög hugleikið fyrst sagði hann "þetta er eins og að búa í húsgagnabúð", stundum þusar hann yfir því að þurfa færa til stól í hvert skipti sem hann vill komast eitthvert. Stundum er hann jákvæður og segir þá "það er sama hvar maður er í íbúðinni það er alls staðar hægt að setjast". Hann talar að sjálfsögðu mest um þetta ástand á meðan hann skúrar, já hann skúrar! ég er reyndar búinn að grátbiðja hann um að við fáum aðkeypta hjálp á meðan ég er að klára mastersritgerðina-en nei hann vill heldur gera öll heimilisstörfin sjálfur. Í kvöld sagði hann "þetta er eins og að búa í bíósal-það eru stólar ALLS staðar". Um daginn hélt hann smá vinafögnuð og þá sá hann auðvitað ljósið, nefnilega, allir fengu sæti.

mánudagur, 6. desember 2010

frankensteinbreiðstrætið

Gatan mín gengur venjulegast undir nafninu Auðarstræti-þar eru mörg hávaxin og fögur tré, húsin öll nokkuð svipuð og allflest steinuð gráu grjóti, á sumrin er gatan svo græn að Írland bliknar í samanburði. En nú er gatan fremur grá og það dökkgrá-ég kvarta ekki gulu skórnir mínir skína bara betur á þessum gráa undirtón. Hins vegar getur verið ansi draugalegt í götunni okkar ekki vegna þessa áðurnefnds gráleika heldur vegna dularfullra nágranna sem ganga framhjá húsi okkar yfirleitt þegar við förum inn og út úr húsi eða bíl eins og í leiðslu, þungum skrefum, með hendur beint á undan sér! Ég hef að sjálfsögðu dæmt allt þetta fólk sem afkomendur Frankenstein en sá hinn sami virðist hafa elt mig á röndum frá því við Arnar heyrðum hann anda vélrænt úr nálægri koju í Sigurðarskála við Kverkfjöll. Um geðslag nágranna ætla ég ekki að dæma hér en ungarnir á heimilinu kippa sér ekkert við dauðyflislegt göngulag þeirra, enda vanar og búið hérna við Frankensteinsbreiðstrætið frá ungri bernsku eða fæðingu.
Ég mæli með óhugnanlegri aðventu og lestri á gömlum bókum undir teppi s.s. bókina um hinn títtnefnda þokkafulla og sjarmerandi Frankenstein.

þriðjudagur, 30. nóvember 2010

dramatískur morgun

ég hef alltaf verið svolítið dramatísk-ef ekki bara mjög mikið. Arnar er líka í dramatískari kantinum þar af leiðandi eru börnin okkar dramatísk! þau henda sér í gólfið í grátköstum þegar þau eiga laga til og segja-"mamma, ég er svo þreytt" þegar þau verða lasin eða eru með smásár á puttanum heyrast óp sem flestir myndu tengja við heimsenda. Eldri stúlkan hefur slíkan grát að engin kemst með hælana þar sem hún hefur tærnar, eftir að hafa kennt Ísold að sofna sjálfa á sínu fyrsta aldursári hlaut ég að þola allt, eldur og brennisteinn kemst ekki í tæri við þjáningar  foreldrana við að hlusta á barnið góla. Litla systirin kemst ekki nálægt decíbelum stóru systur sem betur fer. Í morgun fór okkar eldri í sitt dramatíska skap og fer skyndilega að gráta og segist ekki vilja deyja! ég reyni eftir fremsta megni að afstýra þessari of hrikalegu hugsun en skyndilega er litla beinið farið að gráta í kór með henni. Einhvern veginn reyni ég að hugga þær og forðast allar þær heimspekilegu vangaveltur sem ég hef stúderað í háskólanum í allt of mörg ár. Við förum í leikskólann og stóra stelpan mín er enn ofurviðkvæm sem endar þannig að hún æpir úr sér lungun þegar ég fer á brott og ég verð að sjálfsögðu glaseygðari en regnvot framrúða á bíl...stundum er erfitt að vera manneskja!

fimmtudagur, 25. nóvember 2010

afmælisdagatalið!

Ég er farin að líta allt öðrum augum á facebook-ég er hætt að hatast við þetta fyrirbæri...jafnvel þó að fyrirbærið hafi verið verið skapað af  bitrum nörd úr fínum háskóla í Ameríku! Nei ekki beint gott karma sem kom þessu öllu af stað-kostir þessarar síðu eru auðvitað ótalmargir-færir okkur nær fólki og gömlum vinum, hjálpar nördum að leggja gamlar kærustur í einelti (úps kannski ekki kostur), við getum nú raunverulega fylgst með unglingunum okkar. Get ekki beðið eftir að sjá dætur mínar vera tjá ást sína við unga drengi fáklæddar(já eða stúlkur-maður er svo opinn)!(eða þannig)-hvað þá neyta gruggugra drykkja...
Já svo er hægt að láta alla í heiminum vita ef maður á í hjónabandsvandræðum, þetta bætir við nýrri vídd í kjaftasögur (úff er orðin rugluð er þetta kostur eða?)! Vegna þess lesi maður blöð og aðra fjölmiðla kemst maður fljótt að því að það eina sem fólk hefur virkilega áhuga á er ANNAÐ fólk-hvort annað fólk sé gift, að skilja, eigi börn, ætli sér að eiga börn, eigi viðhald eða höld, hvort það prumpi í baði og þannig fram eftir götunum.
Hins vegar hef ég ákveðið einfalda tilgang þessarar síðu og mun framvegis þýða facebook  sem Afmælisdagatalið þar sem heilög skylda mín verður að óska vinum mínum og ættingjum til hamingju með afmælið-reyna að vera frumleg og skemmtileg í kveðjunum-þannig hlýt ég að fá gott karma til baka, einhvern tíman og kannski ef vera skyldi á afmælinu mínu!!!
hver man ekki eftir litlu afmælisdagatalsbókunum sem voru til á hverju einasta hippaheimili með vott af virðuleika-við hvern dag var lýsing á kostum manns og eiginleikum og til móts við daginn í bókinni voru auðar línur þar sem fólk var hvatt til þess að skrifa nafn sitt! þannig gat maður munað afmæli alls kyns fólks og vitað um leið hvaða kostum það væri búið!
Þessi færsla er að sjálfsögðu tileinkuð Jóa móðurbróður mínum sem á afmæli í dag og er bogmaður!

laugardagur, 20. nóvember 2010

klósettástarjátning

Eitt sinn var ég ung stúlka og hafði óhemju margar skoðanir á sem flestu, þóttist fylgjast með stjórnmálum af miklum áhuga og hafði þó nokkur prinsipp...Eitt þeirra var að ég ætlaði undir engum kringum stæðum að vera svona par sem hefur hurðina opna þegar það fer á prívatið-hvað þá ræða málin þar inni! nei prívatið er prívat. Nei, raunin varð svo allt önnur, í fyrsta lagi er makinn minn ekki beinlínis þögla týpan þannig að ég komst fljótt að því að mjög oft þarf hann að ræða við mig einmitt þegar ég sit á postulíninu...nú svo skánaði ekki ástandið við barneignir. Það er eins og hellist yfir börnin gífurlegur aðskilnaðarkvíði þegar ég þarf að bregða mér frá í þessar sirkabát tvær mínútur og áður en ég veit af sit ég, les bók fyrir Karólínu, reyni að finna plástur fyrir þá eldri og hlusta á arnar tala um lystisemdir blaðamannsstarfsins...allt á meðan ég skila af mér mínu. ég er eiginlega farin að halda að ég sé mest aðlaðandi þegar ég sit á klósettinu!
Í kvöld fórum við öll 4 á skyndibitastað með svakaboltalandi (sem þýðir við gátum borðað í rólegheitunum á meðan þær léku sér og fáum því ekki magasár en maturinn var svo óhollur að við fáum líkast til kransæðastíflu).  Eldri dóttir mín á í ákveðnum erfiðleikum með að hafa hægðir (ég veit ekki frásögur færandi) heldur í sér, verður kvíðin þar til hún getur varla gengið og kúkurinn verður á stærð við hrossabjúgu. En hvað um það! Fljótlega eftir að við komum inn fer hún að ganga hokin og æpa að hún þurfi að kúka, þannig ég hleyp með hana inn á WCið og í þriðju tilraun tókst það svo loksins! Gleðin og feginleikin eru slík hjá barninu að það er engu líkt. Þar sem ég krýp og held í höndina á henni,  horfir hún djúpt í augu mín og segir "mamma, ég elska þig" með mikillri áherslu og bætir við "þegar ég kúka, þegar ég pissa, þegar ég hósta. þegar ég faðma þig og þegar ég kyssi þig"--auðvitað bráðnaði hjartað mitt eins og ... smjör!

föstudagur, 19. nóvember 2010

blá að innan sem utan...

Kate spurð um tilurð trúlofunar-
"Sástu hvert stefndi?"
"Nei, alls ekki því við vorum þarna með vinum okkar.
'Eg bjóst því alls ekki við þessu. Ég hélt hann hefði kannski hugleitt það!!!
En það kom mér þó algjörlega á óvart þegar þar að kom!
'Eg varð mjög spennt!!!"
Hún er sum sé búin að bíða ótrúlega þolinmóð í átta ár eftir því að hann hugleiði jafnvel að heitbindast....
Einmitt-trúi því! Í þágu rómantíkur eiga konur að látast ekki hafa neinar skoðanir á hjónaböndum fyrr en maðurinn hefur ákveðið að hann vilji spyrja "stóru spurningarinnar" og þá koma þær af fjöllum "ó ertu skotinn í mér, viltu eyða með mér þínum efri (sköllóttu í tilfelli Williams) árum-Já ok!"

fimmtudagur, 18. nóvember 2010

mánudagur, 15. nóvember 2010

latur og kaldur buffall

samkvæmt indveskri stjörnuspeki (sem indverjar nefna stjörnufræði-svo hávísindalegt er þetta) er ég mjög svo iðin, hugmyndarík, skapandi! þeir vilja líka meina að ég hafi ríka kímnigáfu og andagift svo ekki sé nú minnst á skarpa greind og færni til mannlegra samskipta (hef samt alltaf talið mig vera enn betri í dýrslegum samskiptum)-aðalsmerki mitt er samt  hversu iðin og dugleg ég er, framtaksöm og hugvitsöm... Enda er ég Buffall (skv. indverskum stjörnuspekingi). Umræddum buffal er kalt þessa daganna.

föstudagur, 12. nóvember 2010

Síðustu dagar auðnutittlingsins Þrösts

Ísold bjó til snjókall laugardag síðastliðinn út í garði með hjálp pabba síns sem fann lítinn slasaðan fugl-við tókum hann inn gáfum honum af matnum hennar Stínu og vatn! Litla greyið var fremur veiklulegt og mín kenning var sú að hér væri að ræða þrastarunga en í partíi kvöldsins fengu gestir að líta til hans í skókassann og kom í ljós að hann Þröstur litli væri auðnutittlingur, eftir nokkura daga samveru var ég svo orðin sannfærð um að hann væri ungur auðnutittlingur og hann væri jafnvel bara nýskriðinn úr hreiðri sínu. Ástandið á honum var ekki gott, með slasaðar lappir og væng, fyrst um sinn lá hann sem mest á bakinu. Flestir voru á því að ég ætti að snúa greyið úr hálslið en ég gat engan veginn fengið sjálfa mig í slíkt voðaverk-hann nærðist og drakk vatn sem mér fannst næg ástæða til að halda honum heima-húsdýragarðurinn vildi ekkert með hann hafa og stakk upp á því ég færi með hann til dýralæknis sem myndi aflífa hann. Hvort við værum með þessu að viðhalda þjáningum hans eða bjarga honum frá einmannalegum dauða í frosti og byl í Norðurmýri verður að liggja á milli hluta...Hins vegar varð hann fljótt gæfur, stelpurnar gátu strokið honum án þess að hann kippti sér við og hann horfði afskaplega blítt á okkur(virtist í raun mun gæfari en gæludýrið okkar hún Stína!).  En svo gerðist hið óumflýjanlega Þröstur litli auðnutittlingur dó í skókassanum og við fjölskyldan jörðuðum hann við reynitréð þar sem hann féll úr--Úti í garði stóðum við fjögur í fimbulkulda og sungum sofðu unga ástin mín (líklega fáránleg sjón jafnvel svolítið Bergmanísk!)--En þetta er víst gangur lífsins myndi amma mín í skjólinu segja!

fimmtudagur, 11. nóvember 2010

Mafalda og heimurinn

Mafalda var uppáhaldsteiknimyndahetjan mín þegar ég var barn og sú sem ég samsamaði mig mest við. Hún er ekki beinlínis nein hetja en hún hafði miklar áhyggjur af gangi mála í heiminum, heimsfriði, hrædd við heimsenda, pólitísk þenkjandi og fann til ábyrgðar gagnvart þeim ílla stöddu í heiminum-auk þess er hún kjáni og ofurdramatísk! Nú er ég fullorðin og loka helst til oft fyrir hörmungum heimsins, hugsa voða lítið um heimsenda og forðast pólitík eins og gjósandi eldfjall--Hins vegar er litla stelpan mín sem er nýlega farin að lesa og skrifa farin að spyrja mig margra spurninga á dag sem varðar líf, dauða, heimsenda í maföldustílnum! Það er ágætt að manni sé haldið við efnið.

þriðjudagur, 9. nóvember 2010

mánudagur, 8. nóvember 2010

allt er breytingum háð líka jarðaberjasjeik pipiogpupu

merkilegt nokk en ég eða bloggið mitt er búið að fara í meikóver! eins og þið sjáið og þið ætlið öll að hrósa mér gegt mikið fyrir þessar tímabæru breytingar....það má segja að pipiogpupu sé búið að stíga skrefið í framtíðina nú er hægt að deila og drottna internetinu öllu frá þessari annars auðmjúku og jafnframt skemmtilegu fréttasíðu.
Ég mun halda áfram að fjalla um öll þau mál sem eru efst á baugi í endurtekningarsömu lífi mínu: væmnar sögur af afkvæmum; tilefnislausa gleðipistla og fleira tilgangslaust þvaður. Ég mun halda áfram að líta á jarðaberjasjeikinn sem montvettfang:mont um þvottafjöllin sem ég klíf vikulega með fjallgönguhópi mínum, mont um klaufaskap, barnamont(var ég búin með það nokkuð?) mont um undarlegheit, mont um efnislega hluti eins og þegar ég eignast eitthvað nýtt og dýrt sem ég þarfnast engan veginn. En að endingu lofa ég að fjalla sem minnst um almenna skynsemi, sparsemi, afskiptasemi, stjórnmálasemi eða hvað semi sem er sem getur gert líf konu óbærilegt.
ps. allar stafsetningavillur eru háðar veðrabreytingum!

þriðjudagur, 2. nóvember 2010

vetrarfrí og tími sem hverfur stöðugt!

við fórum í okkar árlegu ferð til Ólafsfjarðar með vinafólki okkar ættuðu þaðan... og það var stórkostlegt svo ekki sé meira sagt.(myndavél biluð og við verðum að ylja okkur við gamaldags minningar). Mér finnst það alltaf jafn mikil uppgötvun hve norðurlandið er mér kært-leiðin norður er svo falleg hvað þá undir fullu tungli. Alls staðar minningar, mér finnst eins og ég hafi farið þessa leið milljón sinnum, fyrst í rauðu norðurleiðarrútunum, stoppað í gamla staðarskála og kannski keypt smá gotterí. Í síðustu ferð var ekki stoppað í staðarskála, raunar brunuðum við norður og stoppuðum ekki fyrr en í varmahlíð-litla beinið byrjaði á að spyrja í ártúnsbrekkunni hvort "við værum ekki að koma" og hélt áfram til enda ferðar! Ólafsfjörður er hreint dásamlegur bær, snotur með lítillri tjörn í centruminu og lítillri göngubrú þar yfir sem leiðir beint að svaðalegri snjósleðabrekku...og auðvitað var snjór og foreldrarnir sem höfðu talið sér trú um að þau hefðu keypt fínasta krakkasleðann í gervöllu þýskalandi, renndu sér mest sjálf. Á meðan við létum eins og bavíanar í snjósleðabrekkunni, kvörtuðu stúlkukindurnar undan fótkulda og ofurhetja ferðalagsins hún Tinna(bjargvættur) hóf sögulega björgun á andarungum sem endur bæjartjarnarinnar höfðu átt á kolröngum tíma (loftslagsbreytingar sjáiði til). Þarna stóð annars nokkuð eðlileg vinkona mín með loðkollhúfu, háf, gulan bala og krakkaskara í kringum sig. Veiddi svo hvern ungan af öðrum, auðvitað voru þeir sjö(eins og í ævintýrunum) og sá síðasti langþrjóskastur-en allir björguðust þeir og komust þeir heilir á höldnu til Andavinafélagsins(ekki fyrir framliðna né afturgengna).
Frækilega fjölskyldan fór líka ásamt hinni familíunni á skauta í höll nokkurri. Hin eldri rúsína varð mjög impóneruð og sagðist vilja fara æfa skauta ásamt balletæfingunum! árlegar hefðir hafðar í heiðri svo sem jólahús og jólamatur! UMMMmmmmmmmm!
Rúsínan í pulsuendanum var svo að fara í nýju göngin tvö kennd við Héðinsfjörð og bæta við þessum týnda firði í safnið. Siglufjörður var eins og beint úr sögubók, notalegur og fallegur og svo var keyrt heim á leið í aftaka veðri og það á kvennafrídaginn sjálfan (ég kom að sjálfsögðu ekkert að keyrslu né nokkru öðru, sat bara og reyndi eftir fremsta megni að skipta mér ekki af akstri.
Annars finnst mér tíminn líða allt allt of hratt í þessum mastersritgerðarskrifum mínum.

fimmtudagur, 14. október 2010

útboð-foreldrastarf í einn mánuð, desember nánar tiltekið!

Sko ég er eitt mesta afmælisbarn sem ég þekki og ég elska að halda upp á afmæli mitt. En nú er mér um og ó, ég er ekki kona sem er að kvíða hlutunum langt fram í tímann...en í ljósi þess að nú eru börnin mín komin á afmælisboðaaldurinn er ég strax farin að kvíða desember. Eins og ég hafi ekki nóg að gera í þessari blessuðu mastersritgerð en þá þurfum við að halda að öllum líkindum tvö leikskólaafmæli og eitt í viðbótar og já svo koma jólin þarna inn á milli. Viðurkenni að ég væri gjarnan til í að bjóða út þennan blessaða mánuð út-ég skil ekkert í því að við höfum valið okkur svona fáránlegan fengitíma, Men! Já svo eru auðvitað allir að halda þessi líka fullkomnu leikskólaafmæli...með leikjum! 'Eg kann enga leiki-hvernig höndlar maður upp undir 10 börn í dótarísaðþrengdu íbúðinni okkar í mýrinni...
Já og stelpurnar, vetrardrottningarnar mínar geta varla beðið og tala um lítið annað!

föstudagur, 1. október 2010

regnbogar og víruð langsokkur

í gær sótti ég stelpurnar á leikskóla, Karólína heimtaði að við færum í sund og svona til tilbreytingar hlýddi ég. Ísold valdi vesturbæjarlaug og heimtaði svo að við færum í útiklefa og það þrátt fyrir síkomandi haust. Við stelpurnar létum líða úr okkur daginn og spjölluðum um það sem á dag okkar hafði drifið. Ísold var mikið að tala um afmæli sem hún væri boðin í hjá bekkjarsystur svo við fórum að velta fyrir okkur gjöf--'Eg hafði séð að minnsta kosti sjö regnboga þá um daginn og spurði Ísold hvort það væri ekki sniðug gjöf?
"Nei, mamma við getum ekki borið hann og ekki einu sinni Júlían getur borið hann" svo hvíslaði hún að mér "en hann getur öruglega borið meðalstóran regnboga!"
Sundferðin var þó nokkuð tíðindamikil við sáum Jólasvein í fríi og undarleg ský. Þegar við komum svo aftur í búningsklefann var okkur öllum skítkallt, Ísold fannst ég flýta mér um of að sturta hana og klæða og segir "Mamma, viltu þvo á mér hárið þannig flétturnar standi út eins og hjá henni Langsokkur" ég malda í móinn "En mamma ég vil vera eins og langsokkur" ég reyni að útskýra að til þess að hárið standi út í loftið þurfi vír! "notaði Langsokkur vír, hvernig járn er það" ég játti og útskýrði enn frekar "þá það" með uppgjafartón.

sunnudagur, 26. september 2010

með fyrstu haustlægðinni

fýkur laufskrúðið af trjánum og þekur gangstéttarnar eins og litríkt teppi. Ég held það sé hreinlega sannleikurinn en norðurmýrin er fegurst á haustin, hívaðir spörfuglar, reyniber og þytur í laufi--eitt ljúfasta hljóð sem hægt er að hlusta á eins og verið sé að strjúka á manni eyrun. Auðvitað verð ég svo einhvern tíman að taka þvottinn af snúrunum áður hann fýkur út í veður og vetur.

fimmtudagur, 16. september 2010

facebookhatur-útdautt sjálf


Sit hér á skrifstofunni með hryllilegt hauskvef sem gerir það að verkum að heilinn virðist varla virka. Ég er með höfuðverk og lítið sem ekkert nefrennsli sem er slæmt því það skýrir þessa stíflu á eðlilegri hugsun. Engu að síður sit ég hér og kíki á facebook-og þið sem viljið endilega íslenska þetta hryllilega fyrirbæri þá gerið það en mér finnst ægilega asnalegt að kalla þetta "fésbók, snjáldur".
Í fyrsta lagi þá hangir maður á þessu stundum tímunum saman án þess að nokkuð gerist
þetta gerir mann ótrúlega forvitinn um eitthvað fólk út í bæ sem kemur manni ekkert við og skyndilega er maður farinn að skoða afar leiðinlegar barnaafmælismyndir hjá einhverju liði sem maður þekkir ekkert en á vin sem droppaði þarna við.
maður fer að upphugsa alls konar asnalegar setningar til að setja í "hvað liggur þér á hjarta" boxið og þykjast vera sniðugur, fyndin, einlæg. Svo bíður maður eftir því að einhverjir læki mann til þess að fá fyllingu í sitt auma líf... Nei þetta er hræðilegt, aumkunarvert, leiðinlegt. Ég veit maður hittir sér löngu horfna vini eða kunningja, maður getur fylgst með vinum í útlöndum sem maður hefur samviskubit yfir því að hafa ekki skrifað! En nei mér finnst þetta ekki nægilegir kostir til þess að afsaka það, að þetta fyrirbæri ætti í raun að heita Procrasti-Nation og árás á einkalífið. Það góða eða það slæma að það er erfiðara að fletta aftur í tímann svo asnalega of-hreinskilinn status...getur gleymst. En þvílíkt líf fyrir unglinga dagsins í dag...ég hefði ekki haft áhuga á því á mínum menntaskólaárum að frændfólk, foreldrar eða bara einhverjir sæu myndir af mér á menntaskólaballi í undarlegu ástandi. Mýstíkin um sjálfið er að hverfa, það verður erfiðara og erfiðara að vernda sjálfan sig fyrir sinni eigin athyglissýki og meinfýsni! ÉG HATA FACEBOOK!

mánudagur, 13. september 2010

prjónað haust


Anja og Veikko, originally uploaded by pipiogpupu.

þrátt fyrir mikil plön og stórar hugmyndir virðist ég eiga erfitt með að prjóna á sumrin-og það verður bara segjast eins og er að um leið og hitastigið fer niður og laufin falla finnst er mér mun eðlilegra að taka upp prjónanna. Hins vegar er ég búin að standa mig vel í því að fara á prjónanámskeið bæði á dásamlegri prjónahátíðinni lykkjur sem var í sumar í Norræna húsinu og nú í haust hjá ungri skoskri dömu sem ég hefi fylgst með á netinu undanfarin ár. Síðasta námskeiðið var nokkuð sérstök upplifun þar sem ég var búin að kynna mér netsjálf þessarar geðþekku dömu mjög vel og uppgötvaði því að ég hafði m.a. fyrirfram hugmyndir um rödd hennar! Í sumar sótti ég líka mjög skemmtilegt námskeið hjá norskum píum sem reka heimasíðuna pickles. Í haust er ég því enn með peysu sem ég byrjaði á í vor og svo langar mig að prjóna heilan helling í viðbót. Vildi samt að ég gæti prjónað hraðar:)

föstudagur, 3. september 2010

Sumarfríið í myndum


fyrirsætan, originally uploaded by pipiogpupu.

komið á alnetið....já maður spyr ekki að myndarskapnum hér í Norðurmýrinni.
Haustið hér farið að láta á sér kræla þó ekki í hitastigi heldur rútínubreytingum og haustverkum. Búið að sulta smá en ætla að fara herja á Reyniberin sem eru í miklu magni í mýrinni...þannig að hverfið hljómar sem yndislegt spörfuglabjarg...
blíðar kveðjur

miðvikudagur, 25. ágúst 2010

afar dapurlegt án þín

elsku pabbi minn-svo ég vitni í þig sjálfan sem átt afmæli í dag.
"leiði

bardzo smutno bez ciebie
máð letur stirðnaðra tilfinninga
málið órætt
smáletri fjarlægða málfræði gleymskunnar
eldingavararnir klofnir
sumt letur geymist best i ösku
án upphafsstafa
tryggð dökka pennans
takmarkalaus
spyr aldrei tilefni áritana áheita
bez ciebie
á miðju torginu minnismerki
torginu umluktu gráum súrkálsilmandi húsum
borgin mannlaus minningalaus
hlaðin áletrunum merkjum hvítum
borðum
veggspjöldum
að gleymi sér
smutno bez ciebie
niðrað fljótinu stigi hruninn
rústir upplýstar á aðra hönd
reimt eftir gángstígunum
en aldrei milli runna eftir rigningu
gegnum rúðurnar glittir í kertaljós
óvært
bardzo smutno bez cibie"
Geirlaugur Magnússon

mánudagur, 16. ágúst 2010

sófar og finnar

Sófasagan heldur áfram, af einhverri ástæðu virðast sófar áskotnast okkur frá öllum áttum og einhvern veginn virðast þeir kannski ekki endast sem skyldi hjá okkur. Hann Derrick yfirgaf okkur í vor og sameinaðist feðrum sínum á sófahimnum. Í stað hans fengum við sófa og stóla frá ömmu minni á Skjólbrautinni. Þetta eru húsgögn sem eru meir en 100 ára gömul en hafa þjónað ömmu síðan um 1944 giska ég og þar á undan afabróður mínum...sem var fæddur á nítjándu öld! Já hann er grænn og nokkuð virðulegur hins vegar er hann ekki beint slaka á sófinn svo upphófst leit hjá undirritaðri að dívan, já Dívan...Ég veit ekki af hverju en skyndilega varð ég hugfangin af því að eignast dívan fékk fólk út um allan bæ til þess að vakta góða hirðinn og kíkja í geymslur. Allir áttu dívan þegar ég var að alast upp sem reyndist svo hentugur bæði til að liggja í fyrir framan sjónvarp, láta unglinga sofa á og breyta svo í sófa. Um kosti dívana gæti ég skrifað endalaust. Allt kom fyrir ekki og þegar ég var í raun búin að gefast upp á dívan-hugmynd minni(eftir að hafa séð góðæriseftirlíkingu í okurbúllunni Ilva á 70.000 og það á rýmingarsölu) Þá datt dívaninn í hendurnar á okkur(ekki bókstaflega) en sambóndi okkar í skammadal var að losa sig við slíkan. Dívaninn er með grænuvelúr og köflóttu baki sem sagt Fullkominn
Hann hefur verið nefndur Sherlock Holmes og ömmusófi Hercule Poirot, já við nefnum sófana okkar eftir persónum í reyfurum og lögregluþáttum...skrítið en svona er þetta. Í stofunni eru því Holmes, Harry klein, Der Alte og lögregluhundurinn Rex en í nýju heimspekistofunni(svefnherbergi okkar Arnars) er Hercule poirot, þar eru aðeins rædd siðfræðileg og frumspekileg vandamál!
Finnar eru okkur álíka jafn hugstætt áhugamál og sófar. Þeir virðast líka áskotnast okkur á undarlegan og yndislegan hátt. Sælla minninga var Viivi vinkona mín frá því ég bjó í París í heimsókn í sumar ásamt familíunni sinni sem var yndislegt. Síðastliðið haust komu Jussi og Maija sem eru kærir vinir okkar sem við kynntumst í Berlín. En í þessum skrifuðu orðum er finnskt par að hjóla í kringum landið, Viivi benti okkur á þau og Arnar búin að skrifa grein um þetta par sem hjólar út um allt á tveimur alvöru og tveimur gervi-fótum og þar að auki teikna myndasögur um herlegheitin: Ég bendi hér með á bloggið þeirra
kveðja úr klein!

fimmtudagur, 12. ágúst 2010

Martröð

Mig dreymdi martröð í nótt og það var svo sannarlega martröð, átti sér stað út á rúmsjó. Við vorum að sigla í draumkenndum veruleika, sjórinn var ógagnsær og hvítur. Höfnin var þakin sjó og ég missti annað barn mitt í sjóinn þegar ég ætlaði að láta hana á bryggjuna, Þura veiddi barn mitt upp úr á meðan ég var frávita af hræðslu. Skyndilega vorum við öll komin inn á spítala sem var mjög mikið gulur eiginlega habsborgaragulur(þ.e. eins og húsin í Austurríki) þar fyrirhittum við strangar hjúkrunarkonur sem skipuðu okkur öllum að gista þar!
Þvílíkt og annað eins.
Annars var hjóli eiginmanns míns stolið um síðustu helgi! Virkilega ömurlegt og lágkúrulegt-næ ekki upp á nef mér af hneysklun á þessum hjólaþjófum.

föstudagur, 6. ágúst 2010

Dansar eins og madonna


Dansar eins og madonna, originally uploaded by pipiogpupu.

Það eru komnar myndir á flikkrið síðan fyrri hluta sumars! ég var að átta mig á því að ekki allir hafa brennandi áhuga á að skoða barnamyndir manns og sumum finnst það jafnvel hrútleiðinlegt...en ég meina who cares...for bears:)

þriðjudagur, 3. ágúst 2010

skelfilegi bloggarinn ég

hef verið upptekin við svo margt að undanförnu að ég hef varla litið hér inn...en að sjálfsögðu lofa ég sjálfri mér bót og betrun. Verð hálfpartinn fegin að lesendurnir séu búnir að yfirgefa þetta sísökkvandi skip en þráast við að halda því á floti. En hvað um það sumrin eru til þess að njóta þeirra, hvers vegna skyldi maður hanga inni endalaust í asnalegum tölvusamræðum.
Við vísitölufamilían höfum verið mjög mikið saman undanfarin mánuð saman í fríi og það er dásamlegt að maður er alltaf að kynnast lífsförunautum sínum betur. Ég hef t.d. komist að því að frumburður minn getur talað frá því hún vaknar og þar til hún sofnar án afláts! Að litla skottan elskar að hlusta á rokk og vill hlusta á það mjög hátt(meira að segja hærra en rokkpabbinn); Að báðar dætur mínar fíla Ramones sem þær kalla ramons og geta sofnað mjög vært út frá þeim! Að frumburðurinn getur lært söngtexta eftir fyrstu hlustun en litla skottan virðist hafa erft hæfileika móðurinnar á því sviði. Að Karólína gæti lifað á kakói einu saman(sum sé kölluð Kakólína í útilegunni). Að tvær systur geta sprengt í foreldrum hljóðhimnuna en alltaf svo friðsælar þegar þær lygna aftur augunum á kvöldin.
Jú um moi hef ég komist að ýmsu nýju aðallega því að ég er ekkert endilega sú sem ég held ég sé...Meikar sens?
En nú er síðsumarið komið og það finnst mér dásamlegur tími, uppskeran, birtan, notalegheit og ýmis afmæli!
Fréttir dagsins Móa er komin með skrifstofu, JÚHÚ!!!

föstudagur, 4. júní 2010

sumar sumar og sól

Það er sumar og þá gerir maður eitthvað sumarlegt. kartöflur komnar niður einhver fræ líka upp í skammadal. Í garðinum stússast ég þó hann sé of stór til að ég nái nokkuð að ráða við hann, uppanágrannarnir hafa enn ekki losað risavaxna jólatréð líklega of fín fyrir það. Stelpurnar kátar og hressar í garðinum og á hjólunum. Ég er farin að lesa í tvær bækur á hverju kvöldi fyrir allra hæfi, bangsímon púa í þýðingu Einar más fyrir gríslinginn minn og prinsessubók fyrir prinsessuna mína. Og fyrir sjálfa mig les ég svo Gróður jarðar e. Hamsun. Ein peysa á prjónunum og það fyrir sjálfa mig, sem er í förste gang. Já það er margt brallað og gert á þessum bjartasta tíma. Varð mikið hugsað til ferða minna með norðurleiðarútunum í gamla daga upp á Krók, rúturnar voru rauðar og hvítar, allir blótuðu Hvalfirðinum hvort sem var á norðurleið eða suður. Staðarskálinn var hlýlegur og maður gat skoðað dótauppstillinguna endalaust. Það var nú gaman þá!

sunnudagur, 23. maí 2010

pipiogpupu afmæli


pipiogpupu afmæli, originally uploaded by pipiogpupu.

myndir komnar frá viðburðarríku vori í Norðurmýri: Pipiogpupu átti afmæli, móa líka, maó fékk tattú, páskar komu með tilheyrandi hreti og lungnabólgu, kræklingaævintýraferð, nýtt hjól, fyrsti mai og bara hele livet í blíðu og stríðu.

sunnudagur, 16. maí 2010

hellirigning

ég er ekki nógu kát þessa daganna og þá virðist allt erfiðara og vaxa mér í augum. Birtan of mikil og upplýsandi. verkefnin of mörg og tíminn naumur. Laugardagskvöld með tveimur hnátum breytist í vælukeppni og móðirin úttauguð...eftir að hafa komið þeim í svefninn bætist á sálina hrúga af þvotti sem þarf að brjóta saman. Krafan um að finna alltaf jákvæðu eða björtu hliðina finnst mér þrúgandi, má fólk ekki bara vera stundum leitt í friði.

miðvikudagur, 14. apríl 2010

gos gos gos

þessi gos eru nú alveg! alltaf þegar eitthvað spennandi er að gerast eins og skýrsla rannsóknarnefndar kemur fram, Nei þá er það enn eitt gosið og hvað fylgir því, slefandi útlendingar, slefandi íslendingar í útlöndum sem finnst þeir vera missa af einhverju... Og Við sem vorum búin að vera svo dugleg að fæla allt þetta loðúlpu, 66grnorður íslands aðdáendur í burtu. Nei það ætlar bara ekki að takast. Annars finnst mér að við ættum að breyta nafninu á landi okkar, það er enginn ís hérna nema ef vera skyldi rjómaís. Það er bara siðleysi og gos
þannig að hvernig líst ykkur á siðleysisland eða þá gosland hið síðara væri svo hægt að misnota í gosauglýsingum og gosútrás.
Svo ætti að sjálfsögðu að virkja þessi gos betur...henda nokkrum siðspilltum viðskiptamönnum, bankastjórum, stjórnmálamönnum beint í gíginn! Já hvítþvoum þetta gosland bara á einu bretti.

fimmtudagur, 8. apríl 2010

ráðleggingar

1. Ekki fá lungnabólgu um páska, það er ömó.
2. of mikil innivera gerir mann/konu skapvonda/nn.
3. Ekki spyrja fólk álits þegar maður vill aðeins fá jákvæð svör: niðurstaða vonbrigði.
4. Ekki horfa á myndir um dauða, eða hugsa út í endanleika lífsins: niðurstaða þú verður andvaka og skapvond.
5. Ekki skilja fulla skúringarfötu fyrir framan eldhúsdyrnar þegar þú ert andvaka með dauðahugsanir og hor niður í tær: niðurstaða þú endar með að þurfa skúra alla íbúðina um miðja nótt.
.
........

þriðjudagur, 30. mars 2010

athyglisbrestur, Duras og hretið-Manifestó um vor

Vorið er komið
vegna þess að hitastigið er loksins undir frostmarki...sem þýðir að páskahretið er mætt.
aðfararkvöld vorjafndægurs var Afmælispartýið mitt haldið sem endaði með eldgosi. Ég bjó til kökur til heiðurs pipi og pupu, síðan var kátt í höllini á móugleði með nýjum lakkrís frá góu.
Annars er allt einhvern veginn miklu hressara með vorinu, lóunni og gosinu.
Ég hef litla löngun til þess að ganga í opið ginið á eldgosinu, en hefði svo sem ekkert á móti því að sjá smá glæringar á meðan ég fæ mér gos og hraun...
Hins vegar hefur mér loks tekist að greina sjálfa mig með athyglisbrest á háu stigi, einbeitingu á lágu stigi. En svo hef ég líka greint gervallan vestræna heiminn með egóismaathyglisbrest sem er að sjálfsögðu afleiðing kapítalisma og karlrembu.
Litlu beinin stækka allt of ört, sú eldri með gelgjustæla milli þess sem hún óttast heimsenda, sú yngri farin að kunna stafina og mikill bókaormur.
Ég sakna kirsuberjatrjáa, hljóðsins í trjánum og þegar froskarnir vakna til vorsins.
Get þó þakkað öldruðum nágrönnum fyrir að gefa fuglunum í garðinum og líður því næstum eins og ég sé komin á ítalskan veitingastað þegar ég geng út í garð.

mig langar til útlanda.

mánudagur, 15. mars 2010

pipiogpupu er fimm ára!

blogg þetta hófst fyrir fimm árum og átti mestan part að vera fréttaveita um litla fjölskyldu. Ungabarnið sem skapaði fjölskylduna er líka orðin fimm ára og er nú inni í herbergi í hrókasamræðum við litlu systur og það þó þær eigi að vera löngu sofnaðar. Reyndar átti ég annað blogg sirkabát ári fyrr sem hét sama nafni en því var eytt úr úthafi internetsins...sem mér finnst nú miður, soldið eins og að týna dagbók. Já og þrátt fyrir að hafa flutt upp undir þrjátíu sinnum er það eina dagbókin sem ég hef týnt. Á safn handritaðra dagbóka sem bera vitni um misgáfulegar hugsanir mínar hverju sinni. Nú fimm árum eftir upphaf þessa bloggs, má eiginlega segja að bloggið sé hálfdautt (eins og ljóðið og guð) flestir mínir tenglar hér til hliðar skrifa lítið sem ekkert. Ef einhver hefði sagt mér á unglingsárum að ég ætti eftir að halda einhvers konar opinbera dagbók...hefði ég sagt er ekki í lagi með þig! En ég gat heldur ekki ímyndað mér að ég gæti sent fólki hinum megin á hnettinum rafræntbréf á innan við mínútu, hvað þá beinlínis spjallað við fólk einhvers staðar í útlöndum og horft á það um leið! Nei þessi jamesbondgadget veröld er skrítin og kemur sífellt á óvart.
Svo er allt hitt sem helst óbreytt, hvernig rigningin fellur, sólin rís og hvernig þrátt fyrir allt, þá lætur vorið sjá sig að lokum. já til hamingju með pipiogpupubloggafmæli!

fimmtudagur, 11. mars 2010

nokkur atriði sem benda til þess að ég er að eldast og eigi afmæli í næstu viku....JIBBÍ

a. ég keypti mér fyrsta hrukkukremið í bónus um daginn...reyndar vegna þess það var ódýrara en nivea dagkremið, það heitir aþena!
b. ég er alltaf að prjóna og vonast til að prjóna jafn flott og amma einhvern tíman í bráð
c. ég stelst til þess að hlusta á gufuna.
d. langar á synfóníutónleika með manninum sem vill bara rokk rokk rokk!
e. ég horfi alltaf á bókmenntaþáttinn kiljuna aðallega fyrir Kolbrúnu og Pál, mér finnst þau fyndin en þáttastjórnandinn er yfirleitt með allt of löng innslög um karlpunga.
f. mér finnst 34 niðurdrepandi tala
g. ég var með þeim elstu á Bakkus síðustu helgi og í yngri kantinum á Boston.

æ, kann ekki stafrófið er það elli eða unglingamerki. Anyways.
p. for pink elska bleikan, ekki ellimerki.
og á afmæli bráðum þar sem allt á helst að vera bleikt. Eða eins og dætur mínar segja alltaf "mamma á afmæli bráðum og það er næstum eins og jólin"....(já ég kenndi þeim það)

miðvikudagur, 24. febrúar 2010

loksins snjóaði milli jóla og nýárs

og svo ekki aftur fyrr en 24. febrúar...þetta land, þetta veðurfar það er allt að fara til fjandans. Enda sögðu stelpurnar í kvöld, "það er að snjóa, jólin eru komin"! hvað um það: nýjar myndir á flickr!!!!!

mánudagur, 22. febrúar 2010

heilaflækja

ég er að reyna prjóna eina ferðina enn, nei ég gefst ekki upp þó hægt gangi. Sit hér í ullarsokkum prjónuðum af Brynju Björk, sú hin sama og prjónar á fræga fólkið í hollywood. Heilinn minn virðist ekki ná utan um þessa uppskrift Elizabeth Zimmerman nokkurar...sem er svakalega fræg í þessum prjónaheimi, eins konar Pavarotti síns geira.
Uppskriftin virðist vera hin mesta verkfræðiuppskrift og er útkoman algjört sörprise...Nafnið á peysunni er sum sé baby jacket surprise eða eitthvað svoleiðis en það er hægt að fletta þessu öllu upp á wikkí. . Svo var planið að senda peysuna út til finnlands og þá þarf ég helst að ná að prjóna aðra eins!
Annars er ekkert mikið að frétta af þessari stórkostlega skemmtilegu fjölskyldu: Mamman er alltaf í leikfimi, sefur aðeins of mikið og er kallt í þessum rituðu orðum, Pabbinn fékk hjálm í afmælisgjöf frá dætrum sínum sem mamman er afskaplega ánægð með því hún var hrædd um hann á hjólinu sínu út í móa. Minnsta stelpan er alltaf að grallarast og stundum alveg að gera foreldra gráhærða með þrjósku og öðrum uppátækjum, þess á milli er hún ómótstæðilegt lítið stýri sem svaraði aðeins nafninu Gríslingur á öskudaginn(alveg eins og í fyrra og örugglega á næsta ári líka). Aðeins stærri stelpan ætlar að taka bleika tímabilið út í ystu æsar, var ekki kát með mömmu sína því hún keypti ekki rándýran prinsessubúning á öskudaginn(eins og hinar mömmurnar) en varð svo glöð með bleikan glimmerkjól af frænku sinni Morgan í ameríku. Hún er auðvitað alltaf sama krúttið þó hún hafi fullorðnast ansi mikið við það að verða fimm ára. Svo teiknar hún öllum stundum og kallar sjálfa sig listakonu.
Já og vegna þess að lífið er sífelld endurtekning þá er ég farin að þrá sumarið allt allt of snemma og get ekki beðið eftir að verða afmælisbarn...júhú

fimmtudagur, 28. janúar 2010

sumar, vetur, vumar, setur, sutar????

Nei ég kvarta ekki, ég kvarta ekki þó sleðinn sitji einn og ónotaður, þó ég geti farið út án peysu, vettlinga og húfu, þó krakkarnir séu í endalausu drullumalli í pollagöllum. Nei ég kvarta ekki þó það sé ekki 20 og eitthvað stiga frost eins og í prússlandi...mér finnst þetta veðurfar bara ágætt í þetta skiptið. Viðurkenni þó að ég sé svolítið rugluð, að sjá laukana vera skjótast upp úr jörðinni, sjá grænt gras og steingráar gangstéttir.
Rigningin, gráminn, skýin, ljósbláminn, ljósgula grasið...allir þessir litir blekkja mig eins og laukana og ég er farin að halda að ég búi í miðevrópskri stórborg en ekki þessu menningarsnauðuskammdegisskulduga ríki(löng orð eru svo skemmtileg). Fegnust er ég þó yfir því að það sé farið að birta!

fimmtudagur, 14. janúar 2010

16 litbrigði af gráum

Er hægt að lesa af eins og af alvöru pappír. Hann les upphátt, geymir fjölda bóka, hægt að lesa blöð, blogg... léttur sem fiður sléttur sem særinn...Kyndillinn er víst framtíðin og hvað þýðir það fyrir bókelskandi fólk. Ég heyrði viðtal við bókakonu nokkra í útvarpinu, sú hafði fengið slíkt skrapatól í jólagjöf og var hæstánægð. Ég varð hálf sorgmædd og hugsaði ósjálfrátt er bókin virkilega orðin elliær og úrelt! Munu bókasöfnin, fornbókabúðir, bókabúðir, kál og kenning líklega uppáhaldsíverustaðir mínir í allri veröldinni einhvern tíman hverfa og Amazóna(og slíkar sniftir) taka við. Svo stalst ég til þess að kíkja á auglýsingu af þessu undratæki hjá Amazónu, já og skömm frá því að segja að ég virðist hafa íslenskanýtæknielskandigenið því ég hreifst af kyndlinum kostum hans, 16 litbrigðum af gráum. En samt ekki alveg því þegar ég lagðist upp í rúm í gær og las mína bók fór ég að hugsa, hvernig er að lesa af skjá, hvernig er að halda á skjá, hvernig er að finna ekki fyrir pappírnum, finna hversu margar blaðsíður eru eftir á þykktinni. Er hægt að lesa af skjá í rökkri(sem ástmaðurinn skammar mig alltaf fyrir). Bókin hefur líka sína eigin lykt, nýbókarlykt, gömlubókarlykt, pabbabækur lykta t.d. á alveg sérstakan hátt, reykingarpabbalykt með dassi af öryggiskennd.
Kalliði mig nostalgíurómantíker en ég veit það ekki ég elska bókarformið og er ekki viss um að kyndillinn lýsi upp framtíðina. krumminn á skjánum!

föstudagur, 8. janúar 2010

mánudagur, 4. janúar 2010

áramótaheit!

nei haltu nú! Móheiður ætlar að taka MMX með trukki, ekki færri en tíu áramótaheit upp í erminni, öll fjalla þau um mig og mína vellíðan. Já það á að taka klassíska vestræna eigingirni á þetta. Börnin orðin hálffullorðin og ég engin smábarnamamma lengur! Já já já...sandt er livet. Ísold vaknaði að morgni annars janúar tvöþúsund og tíu fimm ára. Hún byrjaði á því að taka í tennurnar og var frekar vonsvikin að engin væri dottin!
Svo var skellt í eina veislu og systurnar alveg farnar að kunna á rútínuna.
Þessi fimm síðustu ár þessa áratugs hafa verið fljót að líða og margt borið upp á þeim. Ísold sem kom í heimin lítil byssukúla sem ljósmóðirin rétt náði að grípa er orðin svo stór, veit svo mikið um þennan heim og afskaplega gaman að fylgjast með henni. Á þessu ári hefur hún lært margt nýtt s.s. stafina, dansað á sviði borgarleikhússins, farið upp á hálendið þ.e. í Landmannalaugar og um vestfirði. Þær systur finnst mér vera á mjög svo skemmtilegum aldri,gaman að vera með þeim og þær eru góðar vinkonur. Það er greinilega þroskandi að eiga systkini þó þessi mörgu raddbönd samankomin geti líka ært mann.
En um síðasta ár nenni ég svo sem ekki mikið að fara yfir, margt skemmtilegt gerðist en samt finnst mér síðasta ár ekki hafa verið gott ár í það heila. Ég er þakklát fyrir að við familían höfum verið sæmilega heilsuhraust og stelpurnar hafa dafnað vel og það er fyrir mestu eins og amma myndi segja:)