mánudagur, 26. mars 2012

til minningar um páfagaukinn Stínu.


Elskulega Stína páfagaukurinn okkar lést síðastliðinn föstudag.
Það verður að segjast eins og er að okkur var mjög brugðið þegar við fórum með hana til dýralæknisins þar sem síðustu hjartslögin slógu í páfagaukshjartanu hennar.
Stína hefur verið hluti af fjölskylduni í rúm tvö ár, hún var fyrst ákaflega taugaveikluð og næstum árásargjörn. Hún gekk undir nafninu Stína Salander. Ilmur og fjölskylda gáfu okkur hana en þar flaug hún undir nafninu Ása, Edda lánaði okkur búrið hans Pésa sem hafði nýlega fallið frá. Húsmóðirin og ritstjóri pipiogpupu varði löngum stundum í að horfa á jútjúb vídeó til þess að reyna að gera hana gæfari, lítið gekk. Hins vegar fann ég það út að henni fannst skemmtilegast að hlusta á gufuna. Eftir smá tíma fórum við að leyfa henni að vera frekar frjálsa og fljúga inn og út úr búrinu að vild og þá má segja að smátt og smátt hafi hún orðið gæfari. Það byrjaði með því að hún var alltaf inní herbergi hjá stelpunum þegar við lásum fyrir þær. Nokkrum sinnum gerðist það að Stína flaug út úr íbúðinni, í fyrsta sinn fékk ég smá áfall og var að búa mig undir að segja stelpunum en hún kom aftur eins og ekkert hefði í skorist...þetta gerðist nokkrum sinnum eftir það. Síðasta sumar flaug hún út í útskriftarveislunni minni og kom heim örugglega ekki fyrr en klukkutíma seinna öll úfin og þvæld, eftir það fór hún ekki aftur út þó allt væri opið hér upp á gátt.
Ég gat verið svolítið óvægin við hana blessaða, fannst hún svolítið pirrandi stundum en hafði líkast til mesta kompaníið af henni af öllum fjölskyldumeðlimunum. Í fyrra fór hún að taka upp á því að setjast á hausana okkar og vera bara frekar mikið með okkur. Síðan um áramótin ágerðist það allsvakalega, hún fór meira að segja að kroppa í fæturnar okkar og hendur. Hún lét sig aldrei vanta í kvöldlesturinn og var barasta orðin hið skemmtilegasta gæludýr. Síðustu vikurnar var hún farin að haga sér svolítið undarlega sem var líkast til ástæða fráfallsins. Hún var t.d. oftar en ekki að reyna kúra sig undir sæng, rúmteppi, á heitri tölvunni, við ofninn og ofaná heitri uppþvottavélinni. Dýralæknirinn sagði að hún hefði greinilega verið hætt að næra sig nóg og þess vegna farið að sækja á hlýja staði. Okkur brá mikið við að heyra það því hún hafði haft hrausta matarlyst fram að þessu og látið okkur vita þegar hana vanhagaði um mat, og var orðin bara nokkuð pattaraleg og sæt. Það er með harmi sem við fjölskyldan jörðuðum Stínu út í garðinum undir einu reynitréinu.
Ísold skrifaði smá sögu um þetta fyrir skólann sinn í dag:

miðvikudagur, 7. mars 2012

eitt grátt hár í vanga

Ég get svo svarið það ég held ég hafi fundið fyrst gráa hárið í dag...(á innsoginu)
ég sem hélt að ég væri með þennan fína háralit frá pabba og ömmu í skjólinu...sem gránar afar seint.
en annars hef ég kosið að trúa því ekki eða hvað getur þetta verið...vika í 36 ára er alltof snemmt fyrir alhvítt dúnmjúkt (ákaflega stutt) eitt stykki hár. Úff já þarf líkast til nokkrar vikur til að jafna mig á þessu spurning um að seinka afmælinu vegna taugaáfalls, já eða segja afmælinu upp! Ég treysti mér ekki til að plokka það af hræðslu við að það eitt gæti hrundið af stað fæðingu margra annara hvítra hára.

Ástæður fyrir skyndihvítnun eins hárs sem er hægt að greina með mannsaugum en þarf samt að leita að:
-Hægri vangi gæti verið vísbending um að Gay hardon og félagar á hægri vængnum séu að hafa þessi áhrif á fagurgylltamakkann minn
-Hárið hvíta er hugsanlega af albínóa ætt og tengist engan veginn öldrun höfundar eða hrörnun.
-Hárið hvíta er tilkomið vegna meðvirkni við erfiðum og snjóþungum vetri.
-Ákvörðun núverandi forseta Íslands um að bjóða sig fram í 5. skipti er náttúrulega næg ástæða til að gera fólk algráhært.
-undantekning, tilviljun og fullkomlega óútskýranlegt en engan veginn vísbending um það sem koma skal!
Hvað sem öðru líður ætla ég að biðja mína örfáu lesendur að tala ekki um þetta utan alnetsins og alls ekki nærri mínum hægri vanga!

þriðjudagur, 6. mars 2012

mars er best og patreksaðventa!

og í honum er 17. langbestur...fullt af rauðhausum og ég höldum heilagann Patrek heilagann!
En hins vegar hefur afmælisspenningurinn ekkert látið í sér kræla ennþá, Jú þetta þykir mér fréttnæmt. Vanalega væri búið að líða yfir mig af spenningi, niðurtalning á fullu og partýplaneringar löngu búnar.
Mögulegar skýringar á þessum litla afmælisspenningi:
-Jafnar tölur finnast mér meira miðaldra en odda, þá fæ ég jafnan fleiri einkenni af svokallaðri aldurskrísu...
-Ég hef þroskast mjög mikið á síðustu tólf mánuði og meira en síðustu 16 ár (líklegasta skýringin að mínu mati)
-ótti við fleiri hrörnunareinkenni og sú staðreynd að ég gleymi alltaf að kaupa þessi hrukkukrem.
-að verða þá nær fertugu en þrítugu...úff minnumst ekki á það ógrátandi (fortís is ðe njú þurtís)!

Hins vegar er hálft ár síðan ég ákvað þema ef ég skyldi halda búningapartý, ég á enn eftir að búa til kransaköku alveg sjálf og aldrei að vita nema spenningurinn komi þegar ég verð búin að skreyta allt fagurgrænt!