þriðjudagur, 17. maí 2011

furðulegt ferðalag

Ísold fór í sína fyrstu útskriftarferð í dag og þegar ég sótti hana var hún einni tönn fátækari! þessi ferð til fullorðinsára er ein furðulegasta ferð sem maður fer og samt svo eðlileg. Ég man vel eftir því hvernig mér leið þar sem ég sat í eldhúsinu hjá mamie Rose(franskri ömmu minni),  beit í baguette-samloku og skyndilega var ég einni tönn fátækari. Ég man eftir gleðisvip mamie Rose þegar hún leit í holuna sem var ekki svo ósvipaður gleðisvipnum mínum þegar ég sá holuna í munni dóttur minnar. Hvað er svona gleðilegt við það að missa tönn...hver er þessi ótútskýranlega gleði við að fylgjast með barni dafna og þroskast,  ég veit það ekki. Allt saman er þetta auðvitað partur af programmet, jafn eðlilegt og sólarupprásin á morgni hverjum. Litla barnið verður að stórri manneskju smátt og smátt sem þarf að takast á við lífið svo upp á eigin spýtur... svo merkilegt  en já sandt er livet! Krílína karólína barbafín prinsibessa fór svo í guided tour um Grænuborg í dag, þar ætlar hún að nema næsta vetur við Sólskinsdeild...mamman missti næstum út úr sér að sér þætti það ekki óeðlilegt nafn á deild sem fengi slíkan sólargeisla til sín sem hún Karó mín er. Hún er afar opin fyrir þessum fyrirhuguðu breytingum og leist vel á húsakynnin:)
Arnar kom líka úr ferðalagi í dag með allar sínar tennur til baka sem betur fer en kannski aðeins meira skegg. Það er merkilegt hvað lítið ferðalag hvort sem það er til Akranes, grænuborgar eða New york gerir heimilislífið ríkara af alls kyns sögum, brosum og ....svo ekki sé minnst á ilmvötnum, converse og barbapapafígúrum;)

mánudagur, 16. maí 2011

mmammmammammamamamamaamamamamamamamamamammmma

Já ég er búin að skila ma-verkefni...það tók þó svo mikið á taugar og bakvöðva að ég er enn að jafna mig!
Síðan ég skilaði hef ég verið að þvo þvott, laga til og sortera... af því það er svo gaman.
Búin að rekast á furðulegustu hluti, gamlar ritgerðir úr menntó, hárflétta af mér síðan ég var fjórtán ára og undarlegar ljósmyndir.

miðvikudagur, 4. maí 2011

sófaskipti

Já ég veit þetta tekur enda! Sófaskiptiprógrammið okkar heldur áfram...eigum aðeins eftir að skrá okkur í AFS. Því við vorum að fá okkur nýja sófa! og athugið í fleirtölu! Að meðal tali skiptum við um sófa einu sinni á ári. Og nú var bara komið að því, Sherlock eins og hann var kallaður-fenginn í upp í skammadal var eiginlega ónýtur... og það áður en hann kom hingað. Það tók því ekki einu sinni að banna stelpunnum að hoppa í honum því  hann var gagnlegastur sem trampolín. Svo það var eiginlega bara spurning hvenær við myndum gefast upp á þeim garmi og ganga í sófamálinn eins og fullorðið fólk. Klein var líka orðinn hálf óásjálegur, eftir mikið klifur og apakattanna minna á honum. Já, svo undirrituð og ritstjóri þessarar fréttasíðu, tók sig til og kíktu á auglýsingasíðu sem kennir sig við börn! Þar fann ég auglýsingu á tveimur sófum, einum tveggja sæta og öðrum þriggja, já það er völlur á okkur! Sófarnir eru ljósir tausófar og eru eins og klipptir út úr íbúð í úthverfunum en eru engu að síður úr vesturbænum, takk fyrir. Og við erum komin í fullorðinsdeildina, garmarnir eru liðin tíð. Nýju glæsilegu sófarnir okkar hafa auðvitað fengið nöfn (eins og allir okkar sófar hingað til innan geira leynilögreglusagna eða höfunda sem hentar þeirra útliti eða stíl!) og þeir heita daradadadadadadadadadadadad papabíng:  ARNALDUR og YRSA!
ps. raunverulegar myndir af þeim skötuhjúum koma svo síðar ;)