fimmtudagur, 27. apríl 2006

sæt coccinella


sæt coccinella
Originally uploaded by pipiogpupu.
Yndislegt veður í Berlín undafarna daga. Í dag var pínu vott en við létum það ekkert á okkur fá enda haldin miklu voreirðarleysi. ísold fékk þá loks tækifæri á að nota fína pollagallann frá ömmu og afa á Sólvöllum. Ég tók svo nokkrar myndir af herleg-
heitunum sem eru á myndasíðunni.

mánudagur, 24. apríl 2006

Um pest og ömurleikann

Það er ekki tekið út með sældinni að vera Ísold Thoroddsen þessa daganna. Á fimmtudaginn var hún orðin nokkuð hress stúlkan og útskrifuð frá lækninum en aðfararnótt föstudags byrjaði hún svo að kasta upp. Þá hafði hún náð sér í ælupest á biðstofunni hjá lækninum, við skelltum henni til læknis daginn eftir enn eina ferðina og sjónin ekki fögur. Litla stúlkan orðin svo mögur og aum. Öll helgin fór í að ná sér en loks í dag fór að glitta í skríkjandi barnið á ný, þetta er sem sagt allt að koma. En af okkur í fréttum er að við fengum óvænta heimsókn frá frændum Arnars af Akranesi sem komu færandi hendi með Lax ummmmmmmmhhhh. Með þeim gengum við um hverfið og skoðuðum alls konar bíla, sérlegt áhugamál þeirra feðga og alltaf gaman að sjá hverfið í nýju ljósi. Um kvöldið kom Alex og leit eftir Ísold á meðan við skelltum okkur á Sisters of Mercy, en sei sei ó nei.... hrikaleg lífsreynsla verður að segjast.
í fyrsta lagi, krádið var rosalega krípí; burstaklippt vöðvabúnt með íllileg augnaráð, gamlir sjúskaðir pönkarar, gothkonur að deyja úr hor og glæpamenn. Við vorum stödd í helvíti.
Ég var þarna mætt í grænum kjól, gulum skóm, með bleikan varalit og með hvítu gleraugun sem var algerlega fjórum litum ofaukið og fannst mér allir horfa á mig með morðingjaaugum. Ég ætlaði nú að láta mig hafa það og hélt bara fastar í Arnar. En svo byrjuðu sjálfir tónleikarnir eða hvað sem þetta var. Reykvélin látin á fullt blast líklegast svo að Andrew Eldritch gæti falið sig sem best. Maðurinn ekki svipur hjá sjón, dökku liðuðu lokkarnir(er s.s. veik fyrir þeim) horfnir aðeins snoðaður kollur og allt of skorinn ofþjálfaður líkami ughhh. Hljóðið var hörmung heyrðist betur í bakröddum en sjálfum Andrew, enginn gítar. Þetta var hrein afskræming á tónlistinni. Skemmst frá því að segja að við forðuðum okkur hálf svekkt yfir aurnum sem fór í miðana.

fimmtudagur, 20. apríl 2006

Dýrðin dýrðin


Gleðilegt sumar, fólk.
Yndislegt veður og Ísold útskrifuð með fín lungu. Pensilínið kicks ass!
Læknirinn gaf sér meira að segja tíma til að útskýra allt sem á undan hafði gengið á engilsaxnesku. Nú öndum við öll léttar.

þriðjudagur, 18. apríl 2006

mánudagur, 17. apríl 2006

Gangandi íkorni

Við erum nú búin að fá krasskúrs í hvað á að gera með veikt barn í Berlín á frídögum. Ísold mín var búin að vera mjög slöpp og á laugardagsnóttina fékk hún 40 stiga hita okkur auðvitað til mikillrar skelfingar. Vinafólk Alexar sem eiga barn gaf okkur góð ráð, fyrst til að lækka hitann og einnig hvert við ættum að fara. Hitinn sem betur fer lækkaði niður í 39 um nóttina og var 38,5 um morguninn. Þá var förinni heitið í sömu barnabráðamóttöku og við höfðum farið á á fimmtudaginn. Í þetta skiptið tók yndislega ljúf stúlka á móti okkur og átti ekki í neinum vandræðum með að skrá okkur inn. Lækninum leist ekkert á ástandið á barninu, hún fékk voða sterkan stíl til að létta á öndun og svo var það INHALIEREN, Ísold látin anda að sér einhverju til að hreinsa öndunarveginn. Bronkítisið var s.s. af verra taginu og við höfum nú farið 4 sinnum á deildina á tveimur dögum til að INHALIEREN, að auki fékk hún einhver fleiri lyf og pensilín þ.á.m.. Eftir hverja slíka innöndunarmeðferð var okkur skipað í 30 mínútna göngutúr og eftir hann hlustaði læknirinn barnið sem endaði alltaf með að hún sagði " Besser aber nicht gut!" Göngutúrarnir snérust nú mest um það að finna íkornan sem við sáum rétt glitta í á fimmtudeginum, mikil leit og vangaveltur áttu sér stað um þennan litla íkorna. Ísold er nefnilega komin með orð yfir dýr af mörgu tagi og þegar hún sá íkornan benti hún og sagði BABA.(sama segir hún um fugla og hunda sem verða á vegi okkar). Þessar ferðir okkar á spítalann í volkspark Friedrichshain hafa gert okkur nokkuð lúin og páskamaturinn bíður enn í ískápnum. Í eftirmiðdaginn gerðum við svo okkur ferðbúin til að fara í fjórða skiptið og tókum tramminn, sá fer beint frá okkur að spítalanum. Sólin skein, loftið var ferskt eftir smá rigningardembu og það fyrsta sem við sjáum þegar við komum að innganginum að barnaspítalanum er íkorninn. Sá var sko enginn mannafæla lék og sýndi listir sínar fyrir Ísold. Þetta hlaut að vera gott merki hugsaði ég... Þegar inn var komið var biðstofan tóm og því engin bið, Læknirinn hlustaði Ísold og sagði GUT í fyrsta sinn síðan var hún látin í innöndunartækið og svo máttum við fara heim. Á morgun ætlum við svo til okkar eigins barnalæknis. Ísold er búin að vera hitalaus í allan dag og þó hún sitji enn hjá mér lítil og máttlaus eins og litlu simpansarnir hjá mömmum sínum(sem maður sér í dýragarðinum) finnst mér eins og hún sé á batavegi.

föstudagur, 14. apríl 2006

páskaveikin

Ísold enn frekar lasin, við lentum í erfiðleikum með að fá læknishjálp í gær. Læknirinn okkar var í fríi þannig að við pöntum leigubíl á spítala sem var mælt með fyrir Ísold af bandarískri móður, þegar þangað er komið og við loksins búin að finna Erste hilfe- er okkur sagt að fara yfir götuna í annað hús þar sem barnalæknir gæti tekið á móti okkur....skrýtin bráðamóttaka þar. Jæja þar taka á móti okkur tvær konur, önnur með útlit bolabíts og hin með fýlusvip aldarinnar. Þær kannast engan veginn við þessi evrópukort og eru mjög stífar og leiðinlegar. Þref og nöldur hélt áfram með þessu þjóðlega þýska fúllyndi og ómannlegheitum. Ísold var með háan hita og máttfarin, ég var komin með tárin í augun og Arnar bálreiður. Þegar við vorum orðin vonarlítil um að fá læknishjálp sagði Arnar að við ættum bara að flytja til Danmerkur sem ég játti strax. Jú á endanum komumst við svo inn á eftir öllum þarna inni auðvitað og læknirinn var kvenkyns dr Gunni, rauðhærð og indæl. Hún greindi Ísold með Bronkítis og gaf henni einhverja mixtúru, síðan hefur hitinn verið nokkuð hár og hóstinn slæmur.
Teiknimyndirnar s.s í algleymingi um páskanna setti inn nokrar myndir af dömunni í apríl og einhverjar írlandsmyndir að auki, skoðið myndir.

miðvikudagur, 12. apríl 2006

skýrslan

í dag var hráslagalegur dagur í P.Berg a.m.k sýndist mér svo út um gluggann. Ísold mín varð lasin í nótt hiti og hósti þannig að við dvöldum heimavið. Litla skinnið hefur ekki oft orðið lasin þannig okkur öllum er alltaf jafn mikið brugðið. En við horfðum saman á teiknimyndir bernt og ernie einnig bara þýska teiknimyndasjónvarpið sem er í gangi allan daginn- þar er Spongebob Shwampkopf í uppáhaldi.
Arnar fór að tala við merka hljómsveit frá Finnlandi(spurning hvort ég megi ljóstra því upp en þeir eru síðhærðir og spila metallica á strengjahljóðfæri...) Á meðan fengum við góðan gest frá Kreuzberg/Neuköln kenndur við japanskan slopp sem hitaði þetta yndislega kaffi. Annað af hversdagslífinu er það að frétta að póstþjónustan virðist eiga fullt í fangi með að koma til okkar pökkum frá fróni. Ísold fékk t.d yndislegan maríubjölluregngalla(maður næstum því óskar eftir rigningu) frá afa sínum og ömmu á Sólvöllum, svo fékk hún í dag ekta lopapeysu frá föðursystur minni í Vestmannaeyjum. Stúlkan er sem sagt allra veðra búin.
Þar til næst.

mánudagur, 10. apríl 2006

farwell my concubine

áttum yndislega daga með Tinnu, Eiríki og Vöku sem mér fannst auðvitað allt of fáir. Við kvöddum þau með trega. Berlín á sólskindegi með Tinnu minni er nú bara fullkomin. Dýragarður, risaeðlusafn mínus risaeðlur(hum hum), múr, brandenborgarhlið, góður matur , cosmopolitan(auðvitað) og svo tsill í Prenzlauer Berg með tilheyrandi máltíð á dásamlegu pönkpizzunni. Ekki var það verra að þau komu færandi hendi íslenskt sælgæti frá mömmu og rúsínan í pylsuendanum yndislega rausnarleg afmælisgjöf frá mínum heitelskuðu Brynju, Tinnu, Þorgerði og Þuru(og þeirra fylgdarliði). Hvað skal segja þessi gjöf var ótrúlega vel úthugsuð(aðeins of vel kannski;)) og ég varð eiginlega orðlaus. Mér finnst auðvitað mest um vert hvað ég á góðar vinkonur og hvað þær hugsa vel um mig. Sakna ykkar stelpur(og fylgdarlið) takk kærlega fyrir mig.

sunnudagur, 2. apríl 2006

Adam Green, me likey!

mmm
Fór í mínu eigin kompaníi á Adam Green tónleika á föstudagskvöldið. Á meðan sá húsbóndinn um að taka á móti gestinum okkar frá íslandinu.
Tónleikarnir voru æði; vera ein með sjálfri mér, kíkja í bók í lestinni, handsome newyork kúl adam, röddin hans dýpri en ég veit ekki hvað og hljómaði allt saman mjög vel með strengjum í undarlega löguðu tempodróm. Þjóðverjarnir virtust voða hneikslaðir á drykkjulátum og dónabrandaratali Greens. Við Íslendingar auðvitað öllu vön og ég grunaði hann reyndar um smá ýkjulæti til að falla sem best í newyork kúl stereótýpuna.
Helgin var svo tileinkuð gestinum okkar og vorinu. Það merkilega við borgina er að hún er gígantísk, fórum í nokkuð langa göngutúra og erum enn að sjá nýja staði bæði yndislega fallega, rómantíska en líka þunglyndislega og hráslagalega. Sólin hefur svo algerlega skinið, allt virðist einhvern veginn skýrara, borð eru komin á gangstéttar og meira segja brum á trén...Þetta er allt að koma. Dagurinn toppaður með hörputónleikum í heimahúsi þar sem söngfuglinn okkar stóð sig með ágætum....þó hún þegði nú ekki á meðan á spileríi stóð voru það aðeins lágvær tíst og hljóð sem hljómuðu í takt við tónlistina.
Gærkveldið var reyndar sögulegt að mörgu leyti fengum yndislegu barnapíuna okkar til að líta eftir söngfuglinum á meðan við sýndum Ívari Berlin by night og mamma mía, by night var það. Ætla ekki að fara mjög nákvæmlega út í þetta allt saman en Cosmopolitan, Zebra-strúta-krókódílakjöt, Mick Rock sjálfur mættur með ljósmyndaopnun með Bowiemyndir í aðalhlutverki....og hvað svo þetta hefði nægt en nei. Kareoki á Centrale randlage við þrú ásamt 7 austurþjóðverjum tókum ýmis lög og upplifðum súrealismar ddrstundir. Arnar auðvitað fljótur að tryggja sér lady in red og bætti um betur með phil collins og eric clapton lögum. Ívar var duglegur í Bítlunum en ég sló líklega öllum út í fallega lagleysinu mínu. Eftir nokkra tíma þarna flúðum við út þá vorum við kærustuparið nýbúin að syngja WIND OF CHANGE með Scorpions
....já þetta kunnu austur þjóðverjarnir upp á hár að minnsta kosti. Ekki var hægt að sleppa 8millímetrum en hann hefur gjörsamlega verið hertekinn af ungum reykvíkingum undafarna mánuði. Ævintýrin gerast í henni Berlín.