þriðjudagur, 31. október 2006

að búa með atvinnutónlistarnörd


hefur sína kosti, maður fær að heyra ógrynni af skemmtilegri tónlist og eyrun eru böðuð í sífelldu tónaflóði. Maður kynnist skemmtilegum bókmenntum eins og Record collector en lesandabréfin í því blaði eru afskaplega fyndin lesning. Stundum fær maður reyndar að heyra oft á plötur sem eru kannski ekki beinlínis manns tebolli. En í það heila þá er ég þokkalega viðræðuhæf í þessum poptónlistargeira þó ég leggi ekki á mig að muna útgáfuár eða nöfn á gítarhetjum. Það sem gerist líka og á öruglega líka við kærustur bílaáhugammanna er að maður lætur kannski mata sig svolítið. Ég varð áþreifanlega vör við það þegar ég kíkti á tónlistarsafnið mitt á tölvunni minni...gott og vel. Í safninu voru langflestar plötur runrig, plata með Helga björns sem kom út í fyrra, fínar plötur en ekkert endilega eitthvað sem mig langar til að hlusta á þessa daganna. Hins vegar er minn heitelskaði duglegur að finna svokallaða móutónlist... sem er einhvers konar hugljúft indie, angurvær melankolía og kvennapönk. Hvar væri ég án Cat power, Red house painters og Le Tigre!
Dóttir okkar er svo auðvitað alls ekki útundan í þessari mötun, fyrir svefninn fær hún að hlusta á alls kyns róandi meistaraverk; Red apple falls með Smog,Bavarian fruit bread með Hope Sandoval, Baby með Röggu Gísla og margar fleiri. Faðirinn er auðvitað líka á því að gera eyru barnsins sem víðsýnust(víðheyrnust) með því að láta hana hlusta á allt frá dauðarokki til nýklassíkur. Það er svo spurning hvað kemur út úr því!

mánudagur, 30. október 2006

fann nokkrar myndir af barninu í leikskólanum

sér ekki fyrir kórónu


ísold á náttfataballi er við vegginn

á kubbasvæði í bláum bol og smekkbuxum

Já það er svolítið undarlegt að barnið sem fylgdi okkur hvert fótmál í 20 mánuði er farin að vera upp undir 7 tíma á dag í leikskólanum. Þar er hún farin að una sér vel með kennurunum og krökkunum. Okkur finnst hún hafa fullorðnast heil ósköp við þessi umskipti, talar meira og farin að dunda sér heil ósköp hér heima með dótið sitt. Okkur foreldrunum finnst líka gott að fá okkar tíma til að vinna og læra.

fimmtudagur, 26. október 2006

Tilraunir

í vikunni er ég búin að halda einn fyrirlestur, ÚHA. Já mér finnst það ótrúlegt og magnað því það gekk bara nokkuð vel hjá mér, ég talaði ekkert of hratt og ágætis umræður spunnust eftir á. Eftir þessa velgengni var akademísk orka mín þá vikuna þurrausin og nú ætti ég að vera gera skilaverkefni vikunnar en gengur treglega. Síðasta helgi var óvenju mannblendin og gerði ég meira að segja tilraun til að fara á airwaves, það gekk ekkert svakalega vel en náði þó að sjá þrjár hljómsveitir. Við Arnar gerðum tilraun til að vera hipp og kúl í bransapartýum en greinilega hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan við vorum the mainpeople(humhum) því fáa þekktum við og ekki vorum við í litríkum jogginggöllum! Svo á ég orðið tólf vini á myspace, sem þykir kannski ekki kúl en ekki verri menn en jesú var sáttur með sína tólf þarna í den. see you

föstudagur, 20. október 2006

Helsti stuðningsmaður hvalveiða á heimilinu


er hún Ísold Thoroddsen. Þegar faðir hennar kom frá Færeyjum í vikunni kom hann með grindhvaltuskudýrið Odda sem er víst algengt leikfang hjá litlu frændum okkar. Ísold neitar hins vegar að kalla hann Odda heldur kallar hún hann namminamm, s.s. sannur íslendingur hér á ferð. Paul Watson mun þurfa að vara sig á ungu kynslóðinni þegar hann kemur á gúmmíbátnum næsta sumar.

miðvikudagur, 18. október 2006

ástandið

Allir búnir að vera eitthvað slappir undafarna daga. Þetta þýðir auðvitað að heimilið er ekki komið í neitt almennilegt horf. Lærdómurinn hefur þurft að víkja fyrir slappleikanum og svo í þokkabót er að hellast yfir mig ýmsar áhyggjur um að ekkert sé tilbúið fyrir nýja fjölskyldumeðliminn okkar.
Þrátt fyrir ástandið líður okkur vel í norðurmýrinni og hlakka ég til að koma mér betur fyrir hérna, eiga notalegar stundir.
Að öðru voðalega er ég hneyksluð á sjálfstæðismönnum nánar tiltekið umhverfisráðherra sem segja hvalveiðar skaða ímynd Íslands út á við... Og hvað með kárahnjúka og álverið, kommon, hvernig er hægt að taka mark á svona hentistefnu.

föstudagur, 13. október 2006

hjúkett, tókst að klára heimaverkefni vikunnar á meðan Ísold horfði á "sampi samp"(þýðir Svampur sveinsson en er notað sem samheiti yfir teiknimyndir). Sjónvarpið getur verið algjör bjargvættur sem sagt. Þetta þýðir að ég geti farið þokkalega samviskubitslaust í helgarfrí og undirbúið mig andlega fyrir æfingavikunna miklu sem byrjar á mánudag. Planið er að auðvitað eitthvað notalegt og jafnvel sund. Nú verð ég að sinna skinninu. Góða helgi.

Himinninn var afskaplega bleikur og fallegur yfir norðurmýrinni í kvöld.

netið er komið í hús en ekki síminn...undarleg þessi símatækni, finnst þetta hálföfugsnúið. Pipiogpupu eru komin á myspace aðallega fyrir tilstilli Arnars sem fyrir nokkrum mánuðum fannst þetta kjánalegt eins og mér en skipti um skoðun þegar hann bjó með Ívari Páli. Jæja, hann beitti mig einhverjum þrýstingi en það þarf svo sem ekki mikið til. Áhugi minn hefur ekkert aukist neitt gífurlega á þessu samfélagi vegna þess að ég kann ekki að gera síðuna mína bleika og mér finnst hún þar af leiðandi ljót. Nú svo fyrir þá sem hafa ótrúlega mikinn áhuga á mínu lífi var ég hálf slöpp í dag og gerði lítið akademískt. Hins tókst mér að taka upp úr fáeinum kössum eða þar til ég örmagnaðist og losaði mig við allt það sem ég hafði borðað í dag. En engar áhyggjur því nú í kvöld tókst mér að halda myndarlegt Herðubreiðarboð með köku(sem mamma bakaði) og aðkeyptum ostum. Góða nótt.

mánudagur, 9. október 2006

All we are saying is give peace a chance

Áttum ljómandi góða helgi í nýja húsinu, á föstudaginn kom dótið allt saman heilt á höldnu. Á laugardaginn fór Ísold til ömmu Bryndísar á meðan ég og mamma reyndum að grinka á kassahrúgunni. Ísoldarherbergi er komið í stand og eldhúsið, hin herbergin ennþá full af kössum og hrúgum. Afi kom og reddaði sjónvarpstengingunni, það er munur að eiga svona góða að hérna á íslandinu. Gærdagurinn var öllu rólegri kaffiheimsóknir og fjölskyldumatur. Um 8 var ég svo mætt í háskólabíó þar sem mamma beið eftir mér með bíómiða á John lennon myndina. Kom í ljós að þetta var einhver svaka sýning og sjálf Yoko var á staðnum innan um fínt fólk og nippa(nýhippar). Voðalega er undarlegt að stundum að fara í bíó á íslandi það er alltaf eins og maður lifi og hrærist í einhverri minihollywood, kvikmyndavélar út um allt og bransalið. Hvað um það myndin var athyglisverð sérstaklega fyrir þær sakir hvað bandarísk yfirvöld eru alltaf hysterísk og geta ekki látið einn lítinn rokksöngvara í friði. Svo á boðskapurinn auðvitað ennþá við þó það sé ekkert voðalega hipp og kúl að vera með hippaboðskap. Eins og John sagði "hvað með það þó flower power hafi ekki virkað", hvernig væri þá að fá smá frið og hætta að pína fólk út um allan heim.

föstudagur, 6. október 2006

gámur, glámur, skrámur

Við erum að bíða eftir gámnum, já loksins fáum við dótið okkar. Undafarnar vikur hef ég fundið mikið fyrir því að dótið okkar sé hist og hér. Mér finnst ég alltaf vera að týna einhverju og nokkrir ómissandi hlutir fallið í geiminn þarna einhvers staðar á milli heimila. Þar má fyrst nefna Ernie nokkurn bangsann hennar Ísoldar og inniskóna hennar. Svo er það dótið í gámnum, ég er alveg hætt að gera mér grein fyrir hvað við eigum og hvað þá hver hefur verið að vasast í því þessa þrjá mánuði. Hlutir eru alltaf hlutir en engu að síður veitir það svolítið öryggi þegar maður er búin að koma sér fyrir í dótahafinu sínu. Annars erum við Ísold búin að endurheimta Arnar, sem er búin að vera aðalsöguhetja á söguvefnum edloader.com í fimm vikur. Familían er farin að gista á nýja heimilinu og líkar það bara vel, svefnherbergisgluggarnir okkar vísa út í friðsælan garð. Ísold er komin með sérherbergi, með listaverk eftir frægan listamann á veggnum og lítið hvítt stelpurúm þar sem hún sefur voða vel. Fagurgrænmálaða baðherbergið er yndislegt og vel hægt að liggja þar í bleyti tímunum saman.