miðvikudagur, 27. febrúar 2008Eftir miklar og háværar yfirlýsingar af minni hálfu að ég elski snjóinn þá verð ég að segja að mig langar nú til að eygja vorið. Ég er búin að fá nóg af því að horfa á snjóinn út um gluggann með veikt barn inni. Hins vegar geri ég mér fullkomlega grein fyrir því í hvaða landi ég bý og vona bara að vorið verði komið fyrir brúðkaupið okkar. Amma Rós gaf stelpunum lítið mannvirki sem ég fótbraut mig næstum við að hengja upp í tré, það var fyllt af dýrindis fuglakorni úr blómavali og á að fæða svanga fugla úr grenndinni eða hvaðanæva, við gerum engan fuglamun. Ég hef ekki séð neinn fugl gæða sér á þessu enn, kannski er fuglafóðrunarstöðin ekki nægilega hátt uppi en maður hefði nú haldið að allt væri hey í harðindum, það er að koma kreppa for crying outloud! Með þessu vonumst við sem erum í sóttkvíinu til að hafa eitthvað skemmtilegt að horfa á út um gluggann.
Gleymdi að láta flakka eitthvað af þessum gullkornum stelpanna. Ísold og ég höfum mjög svo notið þjónustu bókasafnsins í þessum veikindum öllum, síðast þegar við vorum þar sagði hún mér þegar hún var sem fyrr að dást að fiskunum í fiskabúrinu. "mamma, ég elska fiska" síðan gengum við framhjá fugl sem hangir í loftinu, "mamma ég elska fugla" og síðan á leið út af safninu segir hún "ég elska bók"...dásamlegt!
Svo höfum við fjölskyldan líka notið kjarvalstaða til þess að skipta um umhverfi þegar við erum búin að húka inni aðeins of mikið. Þar erum við í góðum fílíng, gott kaffi, gott pláss fyrir börnin og leikföng (líklega eina barnakaffihúsið á íslandi). Síðustu helgi erum við eitthvað að tsilla þar þegar Sammi jagúar gengur inn, þá tekur Ísold sig til bendir á hann og æpir "Pabbi, þetta ert þú!" Jahá skemmmtilegt það.
Karólínu gullkorn þessa daganna er að hún segir mjög oft Nei, ekki að hún sé eitthvað neikvæð, nei nei, hún bara veit upp á hár hvað hún vill ekki. Inn á milli segir hún svo váááááááá.

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Frjálsar Færeyjar og Grænland!

Frábært vídeó, góður málstaður og er ég eiginlega ótrúlega hissa á að það hafi ekki fengið meiri umfjöllun þessi ótrúla harða pólítiska afstaða Bjarkar. Miðað við hversu stolt við erum af því að hafa viðurkennt sjálfstæði eystrasaltslandanna þá ættum við að standa betur með frændum vorum og grönnum. Högni Heydal og þjóðernisflokkurinn í Færeyjum unnu kosningasigur nú síðast og vona ég því að eitthvað fari að gerast í þessum sjálfstæðismálum þeirra.

mánudagur, 18. febrúar 2008

Arnar og englakórinn

Arnar á afmæli í dag því var haldið smá afmæli í gær, kaka, pakki og kerti. Ísold virðist jafn mikil áhugamanneskja um afmæli og mamma sín því hún hafði ofsa gaman að syngja fyrir pabba sinn í gær og öllum þessum afmælishefðum. Í dag fékk afmælisbarnið svo pönnukökur sem féll vel í kramið hjá hlaupabólu-Ísold . Hins vegar má segja að ég hafi fengið gjöf í tilefni af afmæli Arnars, því mér var boðið surprise út að borða og á tónleika í gærkveldi. Líklega eina dásamlegustu tónleika sem ég hef farið á, með kór frá Eistlandi. Söngurinn svo fagur að það er eins og hann hljómi enn inn í mér og verkin sjálf sem þau fluttu undurfalleg. Rétt eins og þau væru beintengd við almættið. Þau fluttu meira að segja þrjú íslensk lög og aldrei hef ég fengið jafn mikla gæsahúð við það að hlusta á Krummi svaf í klettagjá.

sunnudagur, 17. febrúar 2008

lögmálið um þvottahrúguna

Ég get sagt með fullvissu að ég hef oft á tíðum vanmetið húsmóðurstarfið. Annað er víst að ég tel mig ekki vera neitt efni í fullkomna húsmóður. Svo er auðvitað sú breyta komin inn í myndina að við lifum á tuttugustu og fyrstu öldinni og okkur kvennfólkinu ekki einum ætlað að skúra, skrúbba og vaska. Hins vegar er það víst að á okkar heimili hefur þvotturinn verið mínar ær og kýr(hingað til a.m.k). Ekki get ég sagt að ég skari fram úr á því sviði. Ég flokka jú en aðeins lauslega dökkt frá ljósu. Rúmföt, handklæði á sextíu, flest á fjörtíu nema ull og sérviskufatnað. Ég strauja aldrei nema í ítrustu neyð og stend ekki í miklu þvottapjatti yfirleitt.
Hins vegar hef ég ekki enn náð að komast út úr þvottahrúgunni. Nú t.d. er ástandið þannig, hreina hrúgan (ekki brotin saman) mannhæðarhá en óhreinahrúgan 2 til 3 þvottavélar. Það er alveg sama hversu einbeitt ég er öðru hvoru megin myndast hrúga og þegar sú er loks er uppurin hefur hún vaxið hinum megin. Ekki svo ólíkt því að ýta á undan sér stein upp brekku sem rúllar aftur niður áður en maður nær toppnum og þá er farið aftur af stað. Hver þremillinn!

fimmtudagur, 14. febrúar 2008

ég á þessa bleiku skó


ég á þessa bleiku skó, originally uploaded by pipiogpupu.

sjóræningjamyndir frá afmæli, öskudagssjóræningjamyndir enn ekki komnar!

"hvar er Karólína api?"

Segir hér lítill bólóttur apaköttur við mig með söknuðartón á valentínusardeginum og leikur sér með tuskudýrsapa. Hlaupabólan komin í hús já ekki seinna vænna, væna. Ísold saknar litlu systur sinnar sem er á leikskólanum, mér þykir þessi systraást falleg. Annars er ótrúlegt hvað er hægt að vera ótrúlega sætur þakinn bólum, þetta tekst dóttur minni...Snillingur! eins og hún kallar sjálfa sig stundum.

mánudagur, 11. febrúar 2008

alaskaöspin

Í íbúð móður minnar sem býr hinum megin við götuna bjó eitt sinn skógræktarstjóri, sá flutti inn tré eða græðlinga og eitt þeirra var alaskaösp. Í sumar voru nokkur hæðstu trén úr garðinum hennar mömmu tekin en öspin fékk að vera hins vegar rifnaði hún upp með rótum í óveðrinu á föstudagskvöldið. Ég hreinlega skil ekki hvernig þetta gat gerst. En það sem meira er að litlu munaði að hún félli inn um stofuglugga mömmu og undir honum sátu í sófa mamma og Ísold. Já það gæti virst eins og ég væri að melódramatísera atburði helgarinnar en ekki í þetta skiptið, hurð skall nærri. Ég og bróðir minn vorum að leggja lokahönd á eldhúsið mitt þegar þetta gerðist, löbbuðum fljótt til mömmu og sáum strax í rótina á trénu og risaöspina liggjandi ská yfir garðinn þannig toppgreinarnar strjúka stofuglugga mömmu. Ég verð að viðurkenna að það fór um mig, ég bið að minnsta kosti ekki um fleiri ævintýri í bili þetta var tréð sem fyllti mælinn. Skógræktarstjórinn gaf öllum íbúum götunnar tré og græðlinga á sínum tíma svo að alaskaaspir má finna í fleiri görðum. Eitt tré rétt fyrir utan gluggann minn þykir mér hafa vaggað helst til of mikið í undanförnum óveðrum það er ekki nærri eins stöndugt og stóra öspin sem féll. Ógnvænleg fyrirbæri þessi óveður og tré.
Annað er það að frétta að við erum komin heim úr fríinu, eldhúsið er fagurhvítt með snotrum höldum(í stað stálgrárra klunnalegra) og darraddada ég stóðst ekki mátið og málaði einn vegg í undursamlegum lit, kallaður rose bonbon af málaranum(mér), svo bætti ég við nokkrum gylltum englum.

föstudagur, 8. febrúar 2008

málað, squattað og bloggað

Í fyrri nótt vöktum við Ísold frá fjögur til sex og horfðum út um gluggann þar sem snjóinn kyngdi, birtan og friðsældin, allt var fullkomið og við svo grunlausar um óveðrið sem átti eftir að skella á. Hins vegar er ég farin að mála eldhúsinnréttinguna, já enn á ný. Reyna að bæta fyrir mitt eigið klúður. Í þetta skiptið mála ég í stíl við fagra snjóbreiðuna, í hvítum. Í gær málaði ég eina umferð af grunni og aðra af lakki. Ég er með konstant höfuðverk af lyktini svo það var ákveðið að fjölskyldan skyldi squatta aðra íbúð í norðurmýrinni, hjá móður minni að sjálfsögðu. En það var eitthvað óendanlega rómantískt við óveðrið, ófærðina, vesenið sem myndaðist í veðrinu í gær og svo var notalegt að fara í frí eitthvert annað þó það væri ekki nema rétt yfir götuna. Nú þarf ég að mála enn aðra af lakki áður en hausinn minn springur.

mánudagur, 4. febrúar 2008

Karólína hlær í sekknum


Karólína hlær í sekknum, originally uploaded by pipiogpupu.

Já það tók heillangan tíma að prjóna þennan yndislega sekk en svona er það nú bara, kannski næ ég einhvern tíma hraða afmælisbarns dagsins í dag eða föðursystra minna. Sekkurinn passar vel utan um Karólínu litlu og er guðdómlega hlýr í vagninn eða þegar við hlaupum upp götuna til ömmu Rósar. En litla skottið er hins vegar öll að braggast segir mín móðurlega tilfinning mér, kinnar og læri sællegri og hún stöðugri í lappirnar. Svo er hún að uppgötva í sér skapið og er alveg farin að láta Ísold vita ef hún gengur of langt í að stjórnast með raddböndunum. orðaforðinn er meira að segja farinn að glæðast hún segir, hæhæ í símann, datt og dettur, "detta"(þetta) og bendir á allt mér finnst alltaf eins og ég verði þá að útskýra hvað hún sé að benda á mjög ítarlega. Nú hún byrjaði að segja takk fyrir löngu, kurteisa daman og auðvitað mamma og pabbi. Þær systur eru farnar að tjá sig saman af miklum móð, við matarborðið kenndi Ísold litlu systur að kinka kolli til að segja já og hrista höfuðið neitandi. (metbloggdagur hjá mér;)...

ég er orðin leið á

a) að ein vika geti ekki hafist eða endað án þess að önnur stelpan sé veik hvað þá báðar.
b) að maður þurfi að grátbiðja um sýklalyf fyrir barn sem er búið að hósta eins og stórreykingarmanneskja í nokkrar vikur.
c) skammdeginu í mér og öðrum.
d) andvökunóttum

I have to get off this train

Helgin; mæli með: Mikines á kjarvalstöðum. Var að spá út frá því hvort staðarnafnið Mykines væri það sama eða svipað og Saurbær. Auðvelt að týnast í myrkri Mikines og blóðgast í grindhvalaveiðum hans. Allra síðustu tónleikar með i adapt voru inspirerandi eins og þeir fyrstu kannski, spurning hvort allir aðlagist. Darjeeling limited er yndisleg mynd--mig langar í ferðalag um Indland og sömuleiðis að líf mitt daglega sé fullt af ævintýrum í túrkís, appelsínugulum og bleikum. Dætur okkar léku í sinni eigin stórmynd hjá ömmu Rós-The great escape. Eldri klifraði úr rimlarúmi sínu renndi fyrir op á ferðarúmi litlu síðan trítluðu þær skríkjandi inn í stofu (reyndu tvívegis, gefast ekki upp stúlkurnar litlu.)