mánudagur, 25. september 2006

undarlegir hlutir gerast hratt

stundum er himinninn búinn að vera öskugrár heillengi en allt í einu er hann orðinn blár og heiðskír, gerist öruglega oftast á Íslandi af öllum stöðum. Tíminn líður stundum undarlega hratt en um leið ótrúlega hægt. Litla barnið okkar er orðin leikskólakrakki, bumban það stór að jafnvægisskynið má fara vara sig. Arnar flutti í dag heila búslóð í gám (með góða hjálp) og nú er dótið okkar einhvers staðar á leiðinni. "Enn er ég að flytja" eru upphafsorðin í einhverri bók og líklega líka í tilvonandi ævisögu minni. Eftir viku verður svo heitmaðurinn á leið til mín, hvernig skyldu árin ellefu hafa liðið sem heitmey Jóns Sigurðssonar beið eftir honum...í festum eins og það var kallað þá. Skrítið að geta aldrei skyggnst fyrir næsta horn, skrítið að gleyma því alltaf að njóta augnabliksins. Jamm segið svo að ekkert gagn sé af heimspeki eða eins og ég fékk að heyra allt of oft " er það ekki gaman"(að nema heimspeki). Hvað getur maður sagt. Það nýtist hins vegar ágætlega eilífðarstúdent að eiga/og hafa átt foreldra með óbilandi trú á manni og ennþá meiri trú á fræðum sem fjalla ekki um hagvöxt eða slagæðar.

sunnudagur, 17. september 2006

busy bees og pakkar


Mæðgurnar allar höfum verið nokkuð uppteknar síðastliðna viku. Námið mitt byrjar strax með trukki, vikuleg skil, próf og meira að segja workshop allan laugardaginn. Ísold byrjaði á leikskólanum og stóð sig bara vel þessa fyrstu daga í aðlögun. Amma Rós (kölluð amma dós af barnabarninu) hefur hugsað um Ísold á meðan ég hef verið í skólanum og mála í íbúðinni. Í gær vorum við svo vonum lúnar eftir vikuna, Ísold var sett í bað og allir háttuðu snemma. Óvænt hringdi svo dyrabjallan og ókunnur maður við dyrnar. Hávaxinn ungur maður sem kynnir sig sem Ludwig segist vinur Arnars og hér á Íslandi í nokkra daga, rétti hann okkur tvo pakka frá Arnari okkar. Hlýnaði okkur heldur betur um hjartarætur okkar við þessa óvæntu heimsókn. Einn pakkinn stílaður á tvær prinsessur var fljótt rifinn upp og skríkti pabbastelpan af gleði þegar gamall félagi frá Berlínarárunum birtist enginn nema Spongebob Schwampkopf íklæddur bleikum Peaches nærum pour moi!!!! Hinn pakkinn var svo frá verndarenglinum okkar og nágranna henni Diönu.
Einhvern veginn styttist biðin ógurlega eftir prinsinum okkar um helming við þennan óvænta glaðning en litla stelpan okkar skilur ekki alveg hvað pabbi þarf að vera lengi þarna hinu meginn við símann.

sunnudagur, 10. september 2006

Þær gráu

eru erfiðar í gang, minna á gamlan landrover sem hefur fengið að sitja í skúrnum aðeins of lengi. En ég er sem sagt byrjuð í mastersnáminu, reyndar brá mér nokkuð við tilvonandi álagi sem verður að taka aðeins fastari tökum en Ba-námið var tekið forðum...Ísold byrjar ekki í leikskólanum fyrr en á miðvikudag þannig að erfiðlega hefur verið að finna tíma til að lesa. Nú loks þegar ég ætla hella mér útí lesturinn er ég eiginlega bara dauðuppgefin eftir málningavinnu og ýmislegt stúss. Ekki svo langt síðan það eina sem truflaði mig frá lestri var djamm, vinna og síðast en ekki síst horfaútíloftið á kaffihúsi! Jamm breyttar áherslur kannski ekki að furða að það sé sífellt verið að bjóða mér í þrítugsafmæli;
Svo er ég enn einu sinni búin að mála mig út í horn vegna þess ég get hreinlega ekki sýnt Magna nokkrum neinn áhuga. Í fyrsta lagi er hann alltaf frekar seint á dagskrá það á líka við um endursýninguna(eða þegar ég er löngu farin að fá mér minn tilskylda bjútíslíp), nota bene virðist vera klukkutíma seinkun á skjás eins dagskránni hér í Norðurmýrinni. Duló. Nú hlakka ég bara til þegar þessi umræða hættir og vonandi mun ég hafa vott af áhuga á næsta æði.

fimmtudagur, 7. september 2006

þriðjudagur, 5. september 2006

Sumarið á enda

og komið haust að minnsta kosti í hugum skólafólks. Ég fer í minn fyrsta tíma eftir hádegi í dag. Þar mun ég stíga mín fyrstu skref hinum megin við Ba-línuna. Hins vegar mun Ísold stíga sín fyrstu skref inn í menntakerfið á morgun-þá förum við í viðtal...úúú. Afskaplega spennandi allt saman, þó ég hlakki til að sjá hana þroskast og læra af kennurum og öðrum krökkum verður undarlegt að hafa ekki litla skinnið mitt syngjandi fyrir mig allan daginn. Reyndar er annað lítið skinn orðið ansi fjörugt, sparkar mikið og lætur vita af sér.
Síðasta verk sumarsins var að búa til dásamlega sólberjasultu úr berjum frá ömmu í holtinu. Tók líka við lyklum af nýju vistarverum okkar sem eru yndislegar. Besti fítusinn við þessi húsakynni eru dimmararnir sem eru á langflestum ljósunum, þetta þykir mér afskaplega fullorðins og sæma fólki sem er orðið þrítugt. Það verður sem sagt rómantísk stemning á nýja heimilinu, jíhaaaa.