sunnudagur, 26. maí 2013

djíses píses


Í sjónvarpinu er enn einn húsaþátturinn á dagskrá...ég og yngri dóttir mín höfum sérlegt dálæti á þeim. Annað sem má treysta á að sé á dagskrá á einhverjum af bbc stöðvunum er heimildaþáttur um lestar eða lestakerfin hér í Bretlandi...þeir virðast vera með þrennt gersamlega á heilanum, lestar, konungsfjölskyldan og fasteignaþættir hvers konar.

Bretarnir virðast elska að endurgera gömul hús með frekar misjöfnum árángri. Stundum eru þeir svo stórhuga að það er alveg út í hött, ég hef til dæmis komist að því að sum fínu hverfin í London eru mörg hver niðurgrafin því ríka fólkið kemur ekki fyrir sundlaugum og tennisvöllum í gömlu georgísku eða viktoríönsku húsunum sínum og hefur því brugðið á það ráð að byggja risavaxna og lúxusvædda kjallara.

 Í kvöld lenti ég í miðjum húsaþætti þar sem var verið að heimsækja húðflúrara sem höfðu endurgert litla kirkju/kapellu á frekar smekklegan hátt. Kapellan virtist vera mjög gömul líkast til 100+ og hafði þurft að búa til nýja hæð, þar var aðalmálið að baðherbergið væri stórt en börnin fengu pínulítil herbergi undir súð...jæja hvað um það mér þótti þetta allt saman frekar snoturt og krúttlegt þar til ég sá garðinn sem var þakinn risavöxnum LEGSTEINUM. Það fyrsta sem kom mér í hug var svipurinn á Marillu (fósturmóður Önnu í Grænuhlíð) sem ég er að lesa fyrir stelpurnar, jú hún er líkast til guðhræddasta manneskja sem ég veit um og Guð Minn Góður (ég leyfi mér hégóma enda opinberlega atheisti) Marilla hefði líkast til verið orðlaus af hneykslan en Anna hefði líkast til verið langt frá því að vera orðlaus...En er það ekki soldið #ekkiílagioggjörsamlegaútíhött að búa í miðjum kirkjugarði?  Og það jafnvel þó maður sé frjálslyndur húðflúrari úr stórborginni sem hefur mestan áhuga á því að hafa stórt baðker heima hjá sér. Eða er ég svona hrikalega gamaldags, draugahrædd og já jafnvel líkari Marillu en ég hefði nokkru sinni getað ímyndað mér. Í lokin mátti sjá fjölskylduna grilla út í garði og krakkana leika sér á milli legsteinana...djíses píses.

mánudagur, 20. maí 2013

veðurþvaður

já, ég veit ég er enn og aftur að stela mynd frá einhverjum  aumum listamanninum...en ég meina common þessi átti það skilið.
Í dag var svona útlandaheitt, rakt og útlandalykt í loftinu og svo var einhver undarleg spenna í loftinu. Fremur þungskýjað og eins og skýin væru í þann veginn að springa en samt ekki. Síðan fór að rigna, mér létti og hjólaði heim í þægilegri volgri rigningu. En síðan um leið og ég var búin að ganga frá hjólinu hófst alvöru hellidemba sem entist í einhverja tíma. Svona demba þar sem hver dropi virðist vera lítri og heyrist svakalega hátt í þegar þeir skella á glugga eða gluggasyllur.
Þetta er auðvitað alls ekki frásögurfærandi. En hins vegar eftir þessa mögnuðu spennu í himinhvolfinu í dag þá erum við A. búin vera örmagna í kvöld, mér líður nánar tiltekið eins og það hafi verið keyrt yfir mig af franskri hraðlest. Stelpurnar voru frekar önugar, Karó tók a.m.k tíu skyndifýlur, Ísold sem lætur stundum eins og hún sé María Callas endurfædd tók nokkur dramaköst fyrst yfir því að það væru aðeins fjórar möffinskökur í boði í 98 ára afmælisveislu ömmu í skjólinu síðan yfir því að fá ekki ís í desert. Síðan reyndar stalst hún í ís þegar hún átti að vera löngu sofnuð og ég hafði ekki orku til að fjargviðrast yfir því...
Svo vill fólk halda því fram að sjávarföll og loftþrýstingur hafi ekki nein áhrif á okkur aumu mannskepnurnar...jeremíasminn.