mánudagur, 26. nóvember 2012

vitleysingar


Ég man þegar ég var lítil, á mínu reglubundna labbi á laugaveginum með pabba. Annað hvort á leið í kál og kenningu þar sem ég naut nú oft bókakaupaæðis pabba, af mokka eftir kakódrykkju já eða á leið í skákhúsið...ó guð hvað ég hataði skákhúsið...pabbi þurfti að skoða fáránlega mörg skákblöð sem hann endaði auðvitað á því að kaupa svo ég skyldi ekki hvers vegna hann var að hanga þarna, og ekki þoldi ég Grammið betur...þar þurfti pabbi að skoða endalausar blúsplötur, spjalla við hinn og þennan...En hvað um það alltaf þegar pabbi hitti einhvern, kíkti fullorðna manneskjan niður til mín og sagði..."Rosalega hefur þú stækkað" eða "Mikið hefur hún Móheiður stækkað" Eða "Svakalega ertu orðin stór" ...Og skemmst frá því að segja velti ég því fyrir mér hvers vegna fullorðið fólk hefði ekkert fjölbreyttara að segja við ágætlega klára aðeins minni manneskju. Yfirleitt þekkti ég fólkið lítið eða mundi ekki hver var en oftast bætti fullorðna fólkið við "síðast varstu bara svona lítil (viðeigandi handapat-misraunsætt hjá hverjum á einum)",
Þvílíkur vitleysingur hugsaði ég stundum...
Jæja svo varð ég að fullorðnum einstaklingi...og ég eignaðist minni einstaklinga. Og ég stend sjálfa mig að því síknt og heilagt að vera segja við börn út um allt já eða á feisbúkk..."vá hvað hún/hann X hefur stækkað" "Jemundur minn borðar þú ekkert annað en lýsi, þvílík lengja sem X er orðin(n)" Og "Mamma mía, ég ætlaði ekki að þekkja þig þú ert orðin(n) svo stór!" ....og klykkt út með "Þú varst nú bara svona stór síðast þegar ég sá þig : mjög óraunsætt handapat sem er nær grænni baun en ungabarni".
Af hverju verður maður vitlausari með tímanum. Ég segi nú bara eins og litlu gáfumennin sem búa með mér "þetta er algjört svindl"!

fimmtudagur, 22. nóvember 2012

ófyrirséður fylgifiskur þess að börnin mín eru farin að lesa á ensku...


Hugleikur ef þú fyrir einhverja fáránlega tilviljun ratar inn á þetta afskekkta blogg, þá bið ég hér með um leyfi fyrir myndbirtingu þessari og plís ekki láta handtaka mig...


þær geta lesið frábærlega fyndna dagatalið okkar frá honum Hugleiki sem jú
er mjög fyndið en já kannski ekki fyrir börn eða hvað?
Áhugi á þessu ákveðnu dagatali hefur aukist jafnt og þétt bæði til að lesa og skoða. Og myndirnar já segja meira en þúsund orð...
Heyrst við matarborðið nýlega "typpi, ahahaha" ... "Oj þeir eru með typpi í munninum, Ojjjjjjjjjjj"
"Já ok elskan, hættu að skoða þetta og borðaðu matinn þinn"  "Oj hann er að kúka á tannburstann..oooojjjjjj" "Viltu gjörusvovel (foreldri um það bil að missa sjálfstjórn) og setjast og hætta að tala um þetta við matarborðið"
Ég ætla að kaupa Charlie and Lola dagatal fyrir næsta ár...

mánudagur, 19. nóvember 2012

himneskur

Var boðin út í karrý í gær með innfæddri. Það þýðir ekki fiskur í karrýgulri sósu, nei. Heldur indverskur  eða ætti ég að segja himneskur. Það var nú ansi huggulegt fannst mér af einni mömmuni í skólanum að bjóða mér ásamt vinkonu sinni með sér út að borða og ég er ekki frá því að skotar séu hinir skemmtilegustu í viðkynningu.

föstudagur, 9. nóvember 2012

heimsendapest

Fór með Karó í bólusetningu í gær, það voru national geographic blöð á biðstofunni...
Komst að því að jarðarbúar verða bráðum 7 billjónir og að mannfjöldi hefur tvöfaldast frá 1960. Svo var auðvitað talað um hvað þriðji heimurinn ætti mikið af börnum en við eyðum þrefalt til ferfalt meiri orku en þau...við hérna í fyrsta heiminum.
Hvað segiði annars gott?

miðvikudagur, 7. nóvember 2012

óákveðið veður

Ég er enn að með klukkuna á heilanum... er alltaf að reyna telja mér trú um að ég sé búin að græða þennan blessaða klukkutíma.(ég veit, obsessing). En að öðru merkilegra...þá finnst mér enn bara frekar milt veður hérna. Ég er mikið að spá eða kvíða þessum ægilega kulda sem var að búið að segja mér frá, gef hlýjum ullarpeysum pervertískt auga, skammta hitanum heima...alveg mishörð í þeim efnum samt. En samt er eins og veðrið geti ekki ákveðið sig. Í gær þóttist ég sjá að það væri skítkalt úti, vindurinn gnauðaði um arinn og glugga en svo þegar ég kom út fann ég að vindurinn var hlýr! Hlýr vindur er nánast ómöguleg hugsun fyrir íslendinginn mig, ég og tvær ömmur ræddum þetta í löngu máli á meðan við biðum eftir börnunum.
Svo ræddum við um jólamatinn, ég sagði þeim að við myndum alveg örugglega ekki svelta með allan íslenska matinn sem við hefðum fengið frá mömmum okkar Arnars. Þær fengu áfall þegar þær fréttu að við ætluðum að leggja okkur Rúdolf til munns...og sögðu mér að segja ekki börnunum frá því.
"i'm hungry, mum" sagði barnið mitt þegar það kom úr skólanum, um helgina byrjaði hún að setja saman hljóð og lesa orð á minnismerkjum um látna hermenn við kastalann. Litla fimm ára skottið sum sé farin að lesa og ég nýbúin að lýsa yfir áhyggjum við kennarann um að hún væri ekki farin að lesa sem róaði mig strax og sagði að það væri nú eðlilegt þegar hún væri líka að læra nýtt tungumál...en þá bara gerist það allt í einu! Ég held nú að amma í Skjólinu verði glöð að fá þær fréttir.