miðvikudagur, 3. febrúar 2016

ég er að verða 40 ára GÖMUL!

aaaaaaaaaaaaaaaaaaaaAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAHHHHHHHHHHHHHHHHHHHH
fylgist með niðurtalningunni á pipiogpupu.

p.s. pipiogpupu mun jafnvel fá nýtt nafn eins og égergömul.blogspot.com eða thisisover.blogspot.com eða middleaged.blogspot.com

endilega komið með tillögur...

miðvikudagur, 3. júní 2015

litla stjörnustríð hugans

Hér eru feðginin öll að horfa á Stjörnustríð (ekki mitt samt)
Enn er ég að flytja...sögðu afi og amma og vitnuðu í Hjalta litla við mig í gríni þegar þau voru að hjálpa til við einn af tugum ef ekki hundruðum flutninga sem ég hef staðið í um ævina. Nei ég er löngu hætt að telja og ég get ómögulega munað í hvaða bók hann Hjalti litli var alltaf að flytja.
Fyrir ári síðan í gær fluttum við hingað í turníbúðina, sem var í alla staði dásamlegt. Heilt lið af fólki úr hverfinu og úr háskólanum hjálpaði til og við vorum að flytja úr sardínudós yfir í turníbúðina undursamlegu. Stelpurnar bókstaflega elskuðu nýja herbergið sitt og gátu nú gert fimmleikaæfingar um alla íbúð. Okkur leið öllum strax svo mikið betur í nýju íbúðinni sem var ekki bara með heilu turnherbergi heldur líka með glugga á eldhúsinu. Gluggalaust eldhús er ekki vel þekkt pyntingaraðferð en hún er sannarlega árángursrík í að draga úr manni lífsviljann. Sardínudósaríbúðin var líka í eilífum skugga sem þýddi að sólin skein aldrei beint inn. Jú ég gæti skrifað mílulanga pistla um tengsl breskrar byggingalistar við pyntingar...
En nú erum við að flytja heim til Ítalíu norðursins, spilltasta smáríki heims ef Vatíkanið er ekki tekið með. Og ég virðist vera illa haldin af flutningskvíða...hann birtist þannig að í stað þess að vera byrjuð að undirbúa, pakka í kassa, þá hægist á öllu og ég kem mér hreinlega ekki að verki. Hausinn hins vegar bólgnar upp af áhyggjum af hinum og þessum hlutum og þar ríkir lítið stjörnustríð. Á yfirborðinu virðist ég hins vegar mjög róleg og sef á við björn í hýði.

sunnudagur, 17. maí 2015

femínistauppeldið

"mum? when we had a car in Iceland, who drove it?"
uhh bara við... sögðum við foreldrarnir  (e. just both of us we answered a bit bewildered)
"Oh wow! I didn't know you could drive a car, mum!"
What!
Í huganum fór ég að reyna muna hver keyrði oftast bílinn (sem við áttum fyrir aðeins þremur árum)..og yfirleitt var það ég sem gerði það. Ég keyrði þær á leikskólann daglega og reyndar sá um að þrífa hann, koma honum í viðgerð og í gegnum skoðun. Hvaðan kom þetta hugsaði ég! OH god, ég sem hélt að mér væri að takast að ala upp sæmilega góðan og meðvitaðan femínista.

En svo fór ég að hugsa um umhverfið sem við búum í akkurat núna og er ekki sagt að það taki heilt þorp til að ala upp barn. Þorpið okkar nú um stundir er í Skotlandi gæti það verið að það sé hryllilega gamaldags OG karlrembulegt. (bara af því að allir virðast tjá sig á listum á öldum alnetsins)

1. Hér taka konur í miklum meirihluta nafn mannsins síns þegar þær giftast og því kenndar við þá sem eftir er. Það er kannski ekkert mikið skárra á Íslandi þ.e. flestar eru við kenndar við feður okkar en reyndar hefur fólk val og getur auðveldlega kennt barnið við móðurina og það sem meira er við höldum í okkar eigin ídentítet þegar við giftumst! Það er sama hversu oft ég leiðrétti konuna á skrifstofu grunnskóla stelpnanna-alltaf er ég kölluð Mrs. Thoroddsen.

2. Við höfum orðið þess áskynja að það þyki ennþá mjög mikilvægt að giftast áður en tekið er til við að eignast börn. (Stelpurnar komu eitt sinn úr skólanum ægilega hneykslaðar að við hefðum gifst eftir að þær hefðu fæðst! Við minntum þær á að það hefði verið mun skemmtilegra að hafa þær á staðnum og fyrir þær að vera viðstaddar) Ekki það Íslensk pör virðast gera allt í vitlausri röð ef miðað er við hefðirnar (þessar vestrænu)

3. Leikskólar og barnapössun eru það dýr að foreldrar verða í flestum tilfellum að gera ráðstafanir til að vera heima með börnum fyrstu 5 ár barnsins. Þetta þýðir í velflestum tilfellum að sá sem lægst launaði aðilinn á heimilinu þ.e. móðirin þarf að gera hlé á sínum ferli, minnka verulega við sig vinnu eða hreinlega hætta í vinnunni. Einnig er almennt litið niður á að setja börn í pössun 5 daga vikunar í 8 tíma...það geti ekki haft góð áhrif á tilfinningalíf barna. Frekar jafnréttislega þenkjandi vinkonur mínar hér ná ekki hausnum utan um það að stelpurnar hafi verið í leikskóla alla vikuna á fróni. Þó þær segi það ekki berum orðum finnst þeim það jaðra við vanrækt. Frönsk vinkona mín hér lögfræðingur er hins vegar á nákvæmlega á sama báti og ég. Hefði ekki getað stundað vinnu sína öðruvísi, rekið heimili öðruvísi en með école maternel. Hér eru leikskólar aðeins lausn, nokkra daga á viku oft aðeins hálfan daginn. Þeir hafa ekki sömu stöðu og bæði á Íslandi og Frakklandi sem skólar eða hluti af menntagöngunni.

4. Eftir að hafa verið nokkur ár heima festast síðan þessa sömu mæður og ná ekki að komast á vinnumarkaðinn, tækifærin farin, sjálfsálit og þor oft á tíðum minna. Skólarnir (þá er ég að tala um ríkisskólana, ég hef ekki grænan grun um hvernig þessu er háttað í einkaskólasýsteminu) treysta mikið hér á sjálfboðastarf foreldra til þess að koma með krökkunum í ferðir, til þess að sjá um eitt og annað í skólastarfinu m.a. er bókasafn skólans rekið af sjálfboðaliðum úr foreldrahópnum. Yfirleitt eru það mæður sem taka þetta að sér. Skilaboðin eru þessi, þið sitjið hvort eð er heima og gerið ekkert-viljiði ekki að börnin ykkar séu í skóla sem sé samkeppnishæfur.

4. Viðhorf til heimavinnandi mæðra: Ég las grein í Times um daginn þar sem var viðtal við nokkra feður sem höfðu tekið það hlutskipti að sér að vera heima með börnin. Þeir nefndu allir að það myndi reynast þeim ómögulegt eða mjög erfitt að komast aftur á atvinnumarkaðinn, þeir yrðu ekki samkeppnishæfir, þeir væru litnir hornauga bæði af öðrum feðrum og heimavinnandi mæðrum. Þeir væru oft ekki velkomnir á playdate eða playgroupe. Allir nefndu þeir að þetta verkefni að hugsa um börnin sín, ala upp og sjá um heimilið væri það erfiðasta sem þeir hefðu nokkurn tímann tekist á við. Einn þeirra sagði að hann kviði því í hvert skipti þegar hann þyrfti að segja öðrum karlmönnum  "When I need to tell them that I do nothing" og flestir viðmælendur hans hyrfu eftir að við þær fréttir og hann sjálfur þætti óáhugaverður, jafnvel lúser. Really? hvað segir þetta um álit fólks á lífsævistarfi margra kvenna hér í Bretlandi og víðar. Á Íslandi er það jafnvel verra þar sem heimavinnandi mæður eru varla til því það hefur enginn efni á því. En þessum upplýsingum miðlum við til barna okkar. Það er einskis virði að koma börnum á legg með sómasamlegum hætti. Hitt er mun meira virði að vinna í "fierce" samkeppnismiðuðu umhverfi þar sem peningar flæða inn og út. Kennarar og leikskólakennarar, störf sem miða að því að koma börnum sæmilega á legg eru stórlega vanmetin og þetta eru láglaunastéttir og já að sjálfsögðu kvennastéttir.


5. Konungsfjölskyldan...ó hvar ætti ég að byrja: Prinsessan af Cambridge og þau hjón endurspegla ALLT sem er að bresku samfélagi. Prinsessan virðist ekki vera neitt annað en ákaflega fín og smekkleg útúngunarvél og sem með tilveru sinni gerir ekkert annað en einmitt að slá gylltum ljóma á stöðu konunar í Bretlandi. Það að hér sé menntuð sjálfstæð kona úr í einum fínasta háskóla landsins (Skotlands) virðist ekki skipta neinu máli heldur hversu oft hún hafi látið sjá sig í þessum eða hinum kjólnum. Einnig virðist sem allir hafi skotleyfi á útlit hennar, hvort hún líti of vel strax eftir fæðingu eða ílla út á meðgöngu. Hversu mikið hún megi þyngjast eða léttast og hversu hratt. Á meðan útlit Prinsins skiptir fólk miklu minna máli eða engu. Hann gegnir mun mikilvægari hlutverki, það sem hann gerir  (hvað gerir hann?) er vinna, svo eru hann og bróðir hans hetjur fyrir það eitt að láta sjá sig í herbúningi. Ég velti því fyrir mér hvernig þau muni svara Karlottu Elísabetu Díönu litlu þegar hún spyr þau hvort Kate geti yfir höfuð keyrt bíl?
fimmtudagur, 30. apríl 2015

miðvikudagur, 29. apríl 2015

Ég fór með Arnari til rakarans í dagHann vildi láta snyrta skeggið sitt sem væri ekki frásögur færandi nema klipparinn snéri sér alltaf við til að spyrja mig álits og hvort þetta væri mér að skapi! Haha eins og ég væri mamma hans já eða his master. Þessi færsla er ekki styrkt af Links Barbers, en snyrtingin kostaði aðeins 3 pund!

Eiga mýs möguleika á eftirlífi?

Ég er oft að hugsa um bæklinginn sem foreldrar ættu að fá áður en þeir eignast börn. Þessi sem ég fékk ekki. Þessi sem segir manni hvernig maður tekst á við þessar sjöþúsund milljónir óleystu krísur, spurningar og efasemdir sem mæta manni í uppeldinu.
Einn kaflinn myndi fjalla um heimspekilegar spurningar, spurningarnar um dauðann. Já og þar væri að finna viðbragðsáætlun þegar barnið sér dauðar mýs og er óhuggandi af sorg. Nei hún átti ekki skilið að deyja þessi litla mús, því hún var bara músabarn...segir barnið
Já og hvernig útskýri ég fyrir grátandi barninu að við búum með harðsvíruðum músamorðingja þ.e. kettinum sem var einmitt fenginn til þess eins að eyða músastofninum í tenement íbúðinni okkar.
Af hverju þurfti þessi mús að deyja og hvers vegna er fólk alltaf að drepa kóngulær? segir barnið enn fremur við móður sína sem hefur gert einstaka flugu já og kónguló mein í gegnum tíðina. Er hægt að hafa of mikla samúð með öllum heimsins skepnum eins og það virðist auðvelt að hafa of litla samúð?
Og þá kemur enn stærri spurning hvernig á ég að útskýra fyrir börnum mínum hörmungar og heimsendaósómann sem fylla fjölmiðla og fréttatíma daglega. Þegar hátt í 1000 manns sökkva á botni miðjarðarhafs og ríkisstjórnir sem ákveða að bjarga ekki þessum mannlífum, viljandi. Hvernig útskýri ég fyrir börnunum hvernig sum mannlíf virðast miklu meira virði en annara samkvæmt fréttatímanum bara eftir því hvar á heimskringlunni þau fæðast. Hvernig útskýrir maður allt óréttlæti heimsins já eða býr til heilbrigða siðferðiskennd hjá ungum börnum af vestrænu forréttindakyni.
 Ég hefði haldið að Ba-nám mitt í heimspeki gæti hjálpað mér eitthvað við að svara þessum STÓRU spurningum en NEI, það hjálpar ekki djakksjitt. 

þriðjudagur, 28. apríl 2015

Pipiogpupu í nýjum búning.

Eins og þið vitið hefur pipiogpupu verið í tilvistarkreppu, gráa fiðringinn og hvað eina. Mér til mikillrar furðu þá er hellingur af fjölskyldum og svona fjölskyldubloggum að græða á tá og fingri. Eitt af þessum bloggum sem ég hef lesið að undanförnu hefur inspírerað mig til þess að reyna færa pipiogpupu í framtíðina og fjáröflunarvænna.

Hver vill ekki lesa um ævintýri fjölskyldunar og sjá myndir af þeim í nýjum 66 gráður norður úlpum.
Já eða á hátíðarstundum þegar fjölskyldan situr að snæðingi að borða McSween Haggis, neeps and tatties já eða þegar móðirin braut óvart Ittalaglas í bræðiskasti! 
Eins og ég segi við erum tilbúin að selja sálu okkar egypska verslunarguðinum Mammon!

Þessari nýju kynslóð pipiogpupu fagna ég með því að birta mynd af yngri dótturinni á Írskum kobba en það var einmitt þýsk vinkona okkar hér sem kom þessu til leiðar.
Karólína á Írskum kobba/Irish cob
Karó var ekkert að veigra því fyrir sér að fara á bak á þessum risavaxna en afar vinalega frænda okkar af keltneskum ættum. Í þessari sömu ferð fékk hún að gefa lambi vinkonur sinnar úr pela og strjúka. Karó var hin ánægðasta með heimsóknina en hún er mikill dýravinur.

HIPHIPHÚRRA MEÐ NÝJA PIPIOGPUPU!!!!!!!

laugardagur, 25. apríl 2015

pipiogpupu er tíu ára! TÍU ÁRA og eiginlega orðið úrelt!

Dóttir mín var að ráðleggja mér hvernig ég ætti að gerast youtubari. Það er fólk sem gerir alls konar vitleysu, tekur vídeó og póstar á Youtube...ég sver þau eru að græða trilljónir á þessu. Til dæmis er einn gaur sem dóttir mín fylgist með bókstaflega að spila tölvuleik og leyfa öðrum að fylgjast með, hann vinnur fyrir sér þannig núna.
Vinkona mín er nýlega búin að dusta rykið af vídeó vélinni sinni og er byrjuð að taka myndir af blómum í parkinum, hún ætlar líka að deila alls kyns spiritual hugðarefnum sínum og jafnvel einhverjum klassískum tónverkum. Hún vill meina að hún eigi eftir að græða trilljónir á þessu.
Í fyrsta tímanum lærði ég að það mikilvægasta sem ég þyrfti að læra í þessum fræðum er hvernig ætti að heilsa og kveðja...það þyrfti helst alltaf að vera eins og eitthvað svona sem gæti einkennt mína youtuberás!
Ég hef líka töluvert verið að spá í að breyta pipiogpupu annað hvort í förðunarblogg, tískublogg eða lífstílsblogg.