laugardagur, 28. júlí 2012

Flutningar....meira!

Þessi mynd er ekki tekin á stað tengdum ritstjóra eða höfundum á pipiogpupu, hún tengist efni greinarinnar aðeins lítillega. Og ritstjóri p og p neitar öllum ásökunum um að hann eigi neitt af þessu drasli. Hann bendir jafnframt á þessa grein fyrir þá sem finna fyrir einhverjum einkennum sem lýst er hér á eftir.

Augljóslega skemmtilegasta umræðuefni allra tíma...Ég er nú orðin svo fluttnuð að eitt það fyrsta sem mér datt í hug í morgun er að fólk ætti að flytja reglulega til þess eins að flytja og hreinsa íbúðirnar og sjálfa sig í leiðinni. Ég fór að ímynda mér fólk flytja dótið út á stétt til þess eins að sortera og raða aftur inn...soldið kex ég veit. Hins vegar gæti ég vel unað án þess að horfa á pappakassa nokkurn tíman aftur á ævinni. Eitt get ég staðfest það hér og nú að við munum aldrei þurfa versla okkur neitt í eldhúsið (það má minna mig á það hvenær sem og helst þegar ég er stödd í Íkea), við kæmumst vel af án þess að fara í ÍKEA nokkurn tíman aftur og nei við þurfum aldrei að versla okkur kertastjaka. Hreinsunin er góð endurnýjun fyrir sálina sem áður en hún veit af er rígföst við skran. 
En þessi dótasöfnun er auðvitað ekkert annað en sjúkdómseinkenni...á einhverju heilkenninu. Heilkennið er ákveðin birtingarmynd öryggisleysis í fólki og til þess að öðlast öryggi þá sankar það að sér hlutum. Vel þekkt er "hoarder-inn" sá sem sankar að sér dóti sem hann þarfnast engan veginn og getur alls ekki hent neinu og þá meina ég engu! Aðrir angar af þessum hluttengdu heilkennum eru minna þekktir s.s. habitatheilkennið, það lýsir sér þannig að fólk safnar dýrum húsgögnum helst úr habitat/epal til þess að líða eins og það skipti máli í öldu aldanna. Design-heilkennið getur verið ansi dýrkeypt fyrir fjölskyldur þess sýkta, oft er velferð fjölskyldumeðlima stefnt í voða til þess eins að útvega sér einhvern egg-lagaðan stól frá einhverjum borubröttum skandínava.

föstudagur, 20. júlí 2012

óguð hvað það getur verið erfitt að flytja

og hvað maður sankar að sér mikið af dóti og hvað við eigum eftir að pakka miklu og hvað það getur verið erfitt að vera skipulagður þegar maður er ekkert sérstaklega skipulagður...og hvað er vonlaust að finna nákvæmlega það sem þarf að finna. Sitthvor sokkurinn er ekki lengur lífstíll heldur nauðsyn og það er fullkomlega vonlaust að laga til og búið að vera vonlaust undafarna tvo mánuði og var ég búin að segja að ég hata drasl...

miðvikudagur, 11. júlí 2012

Dót vík burt

enn er ég að flytja: Stundum finnst mér lífið vera flutningur. Einhvern veginn er það ósköp náttúruleg-kannski af því ég hef flutt svo oft. En það er ákveðið ferli sem er bæði frábært, jákvætt og gott en líka hrikalega erfitt, óþægilegt og jafnvel óþarfi. En fyrstu jákvæðu áhrifin eru hreinsunin...heimilinn eru eins kóralrif sem hlaða á sig þörungum sem vaxa út um allt...heimilin eru troðfull ef ekki yfirfull af dóti sem vex eins og þessir fyrrnefndu þörungar. Dóti sem við notum ekki, dóti sem við þurfum ekki, dóti. Allar hirslur eru fullar og svo ekki sé minnst á geymslur. Nú erum við búin að taka úr geymslu um 10.000 vínylplötur og geisladiska í öðrum geymslum eru svo bækur...þetta líf. Það er eins og maðurinn sé hver og einn að reyna komast yfir heiminn í einhverjum skömmtum, einn með því að eiga allar plöturnar, annar vill eiga allar bækurnar, frímerkin, dúkkur, dagblöð...nefndu það fólk safnar því. En það sem gerist við flutninga er endurskoðun. Vill ég eiga þetta eða hitt, þarf ég þess. Svarið við fyrrnefndum spurningum er yfirleitt, Nei! Auðvitað vildi maður geta minnkað dótið sitt þannig það væri ekki alltaf svona gífurlegt mál að flytja. Því Dótið gengur á plássið manns og fær á endanum meira rými en maður sjálfur.