laugardagur, 23. febrúar 2013

barnaafmælisþunglyndi


Við fórum með yngra barnið í barnaafmæli í dag, hjóluðum á björtum en köldum degi. Ferðinni var heitið í ævintýraland sem er hér í hverfinu í sama húsi og smárabíó hverfisins. Og já ég verð að viðurkenna að allt þetta umstang og kostnaður sem fólk fer í fyrir afmæli barnanna sinna hryggir mig. Karólína varð strax frekar feimin þegar inn var komið og eftir tilgangslausar umsemjanir stakk indæla gestgjafamamman upp á að Ísold yrði með í afmælinu sem hún samþykkti ekki nema að við foreldrarnir myndum bíða á staðnum. Svo að þarna sátum við í skærlituðum sal ásamt fullum sal af þreytulegum foreldrum sem voru í mörgum tilfellum að gæða sér á skyndibita og drekka úr undarlega lituðum brúsum. Við fengum okkur engiferte á meðan stelpurnar hoppuðu og léku sér í þessari risavöxnu mjúku klifurgrind með öllum þeim fítusum sem hægt er að hugsa sér. Og við vorum að ærast allan tímann, þetta er nokkuð góð pyntingaraðferð. Stelpurnar skemmtu sér vel þrátt fyrir að vera rennsveittar og frekar skapvondar eftir afmælið.

Eftir þónokkur bekkjarafmæli hér á landi höfum við komist að því að Skotar eru komnir aðeins "lengra" í barnaafmælum en við á íslandi, ég er samt ekki viss um að lengra sé rétta orðið en þessi þróun er byrjuð á íslandi en er ekki komin jafn langt--sem betur fer.

Í fyrsta lagi þá fá krakkarnir boðskort mörgum vikum fyrir afmælið.

Það er engin regla á því hverjum er boðið í bekknum, þannig varð ég oft vör við fyrstu vikurnar að krakkarnir voru að skiptast á boðskortum en alls ekki allar stelpur fengu eða strákar.

Afmælin eru haldin í einhvers konar ævintýralöndum, keiluhöllum eða sölum. Meira að segja safnaðarheimili kirkjunnar hérna er mikið notað í þessum tilgangi. Það er alltaf eitthvað þema/activity/trúður þ.e. eitthvað sem kostar peninga.
(stelpurnar eru búnar að fara í keiluhallarafmæli, ævintýralands, klappstýrudansæfingarafmæli, sleðaafmæli á gervisnjóbrekku) Reyndar var eitt heimaafmæli þar sem þemaið var að lita á eigin stuttermabol sem dóttir mín fílaði í botn. Okkar barnaafmæli voru hins vegar í heimahúsi, annað með íslenskujólasveinaþema-sem þýddi að Arnar kom í norskupeysunni sinni og bauð krökkunum harðfisk og hitt var haldið með bekkjarfélaga og var með moshimonsterþema sem þýddi að það voru moshimonster á afmæliskökunni.

Börnin fá goodiebag með sér heim og í honum er kakan (sem er iðulega hræðilega vond). Þessi poki er fylltur af alls kyns litlum leikföngum og sælgæti...helmingurinn fer í ruslið eða dettur í sundur strax.

Það er ekkert verðtakmark á gjafir eins og er fyrir bekkjarafmæli heima og flestir virðast gefa frekar dýrar gjafir, sem mér finnst út í hött af því dýr leikföng er langt frá því að vera ávísun á gæði eða sniðuglegheit og þetta espir upp materialismann í börnum sem er nú nægilega espaður fyrir.

Og eftir afmæli fá börnin þakkarkort frá afmælisbarninu en pakkarnir eru ekki opnaðir í afmælinu sjálfu.

Æskuafmæli mín voru þannig að mamma bakaði Balthasar, bekkurinn var boðin heim stundum bara stelpum, Við lékum okkur fullkomlega óskipulagt, borðuðum kökuna (sem var alltaf himnesk), ég opnaði pakkana og þakkaði krökkunum fyrir og búið.
Fyrir stelpurnar höfum við oftast haldið fjölskylduafmæli en leikskóla/skólaafmælin hafa verið í þessum stíl- Súkkulaðikakan í forgrunni og skreytingin...mesta skipulagið hefur verið kannski pakkaleikur og stoppdans... allir sáttir og voða gaman.
En þessi krafa um þema, drasl í poka, almennt vesen, borga einhverju fyrirtæki einhverja formúgu til þess að gera þetta fyrir mann og vondar afmæliskökur gera mig þunglynda. Ég held að börnin myndu alveg sætta sig við einfaldara snið á afmælunum ef allir væru ekki í þessum pakka...og ég þekki ekkert barn sem myndi kvarta yfir því að hafa ekki fengið þakkarkort frá afmælisbarninu.

fimmtudagur, 14. febrúar 2013

Bara ef tortillaflagan hefði verið hjartalaga já eða mjúk!

þetta er ekki umrædda tortillaflaga...myndin er stolin!

Fórum í dag í glaðasólskini niður í bæ á háaloftsstrætónum okkar. Stúlkurnar þutu um á hlaupahjólunum sínum sem hafa bætt geðheilsu foreldra töluvert á löngum göngum. Við fórum beint á Elephants House þar sem þeir segja að Harry Potter á að hafa verið skapaður, aðallega vegna þess að höfundur hafði ekki efni á því að kynda eigin íbúð og skrifaði því mest megnis á kaffihúsi. Ég get hér með staðfest að kynding kostar an arm and a leg.
Nú nema hvað þarna sátum við vísitölufjölskyldan, stúlkurnar með súkkulaðiköku, Arnar með kaffi og köku og ég með chili con carne...sem væri ekki frásögur færandi nema hvað að þar sem við hjónin töluðum og töluðum þá skyndilega hætti ég og Arnar starir óþreyjufullur á mig. Hann vill nefnilega fá fulla athygli og við erum að sjálfsögðu að ræða gríðarlega mikilvæg og gáfuleg mál. Nema hvað í mér stóð tortillaflaga, þarna í miðjum hálsinum, ég gat hvorki kyngt henni né hóstað henni upp...Skyndilega fannst mér vera líða yfir mig, ég sá ekki líf mitt fyrir hugskotsjónum en svona nálægt því. Og í þann mund sem Arnar var að gefast upp á því að reyna muna hvað hann ætlaði að segja og stelpurnar voru að hávaðarífast yfir svarta litnum....á þessu sekúndubroti hélt ég að mitt síðasta yrði á þessu sólríka, sögufræga kaffihúsi með útsýni yfir kastalann og með tortillaflögu í hálsinum. En eftir þónokkra vatnssopa og cappúcínó sopa fann ég hana þröngva sér niður greinilega gjörsamlega ótuggin. Tortillaflögur eru notabene þríhyrndar og þetta var ógeðslega vont, kaldur sviti rann niður ennið mitt...
Þannig á þessum valentínusardegi er ég þakklát fyrir lífið og ég ætla að reyna muna að tyggja betur matinn minn þrátt fyrir að þurfa að tala svona óskaplega mikið.
ÉG ELSKA YKKUR örfáu hræður sem ratið hingað inn, Já líka þig þarna sem komst óvart og ég þekki ekki rassgat í bala!

föstudagur, 1. febrúar 2013

glaðværasta og jákvæðasta blogg allra tíma!


ég get svo svarið það, janúar er að klárast og það eftir fáeinar mínútur...ég sem hélt að þessi mánuður ætlaði að vera fullkomlega endalaus. Síðasta vika meira að segja endalausari en þær á undan. Þá er febrúar á næsta leiti og það er ekkert nema jákvætt. Pipiogpupu elskar febrúar, elskar fólk sem á afmæli í febrúar, elskar það hvað febrúar er stuttur, að í honum byrji fiskamerkið og að í sumum heimshlutum telst hann til vormánuða. Ég á erfitt með að ímynda mér að vorið byrji í febrúar hér í Skotlandi en hvað um það hann færir okkur nær mars og þá hlýtur nú einhver blómknappi að fara gefa sig.  Nú svo er Valentínusardagurinn...besti dagur í alheimi og Skotar strax farnir að selja hjartalaga súkkulaði...það verður ekki af þeim skafið blessuðum Skotunum þeir kunna að halda upp á hátíðir...
Ég þjáist sum sé af skammdegisþunglyndi og þó skammdegið sé ekki jafn ferlegt og heima á Íslandinu fagra þá hefur það látið á sér kræla og svo sakna ég Íslands pínkuponsu aðallega vesturbæjarlaugar. Þó hefur söknuðurinn verið á hröðu undanhaldi eftir að umræður á facebook fóru að snúast um kaffibollan marglita, eurovision og hverfisráðsfund í grafarvogi. Vill ég þakka sjálfstæðismönnum í grafarvogi sérstaklega fyrir þeirra framlag til þess að gera fjöllin grárri þarna norður í hafi.
Að lokum vil ég mælast til þess að sumarið komi sem fyrst...