þriðjudagur, 26. desember 2006

jólabarn


fæddist fimm dögum fyrir jól klukkan níu mínútur yfir fjögur, hún vó fimmtán merkur og mældist fimmtíu og einn sentimeter að lengd. Hún er hreint dásamleg og fékk nafnið Karólína. Stóra systirin Ísold kom og sótti okkur upp á deild og var voða góð við litla barnið eins og hún kallaði hana. Núna kallar hún hana "kalílíní" og er að venjast þessari viðbót í fjölskylduna. Ísold mín er hins vegar með eyrnarbólgu og er búin að vera með háan hita og pirruð undafarna viku samt naut hún nú ágætlega aðfangadagsins og var voðalega glöð með þessa pakkamergð.
Annars óska ég vinum og vandamönnum gleðilegra jóla, þakka þrautseigum jólakortasendurum fyrir kannski ég standi mig betur að ári í þeim bransa.
Ps ef einhver finnur heima hjá sér jólakort stílað á mig sem hefði átt að fara í umslag með hundrað krónu frímerki 22. nóv síðastliðinn þá endilega láttu vita. Hið dularfyllsta mál!! það eru líka komnar fáeinar myndir á myndasíðuna.

sunnudagur, 17. desember 2006

aðventan

er ágætis kennslustund í þolinmæði, verst að ég er alltaf sami slúbertinn í lærdóminum. Það er einhvern veginn þannig að þegar maður byrjar að bíða getur maður ekkert hætt því. Ekki er svo langt síðan ég starði á pakkana undir trénu eins fast og ég mögulega gat til að reyna geta mér til um innihald þeirra. Nú finnst mér eins og ég sé risajólapakki sem sé í þann veginn að springa undan óþolinmæðisstari og spurningin sem ég velti fyrir mér -- ætti ég að seinka jólunum samkvæmt rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni og taka senbúddismann á þessa blessuðu hátíð næstu helgi?
Annars vorum við fyrirmyndarfjölskylda í dag; keyptum jólatré, mandarínur og suðusúkkulaði í Bónus og komum okkur á hlýtt heimilið. Þar tók við tiltekt, jólaplötuhlustun, piparkökubakstur og auðvitað jólatréð skreytt...það er orðið afskaplega jólalegt hérna með greni og piparkökuilmi, umh.

mánudagur, 11. desember 2006

gott að vita svona í morgunsárið

You Belong in Amsterdam

A little old fashioned, a little modern - you're the best of both worlds. And so is Amsterdam.
Whether you want to be a squatter graffiti artist or a great novelist, Amsterdam has all that you want in Europe (in one small city).

You Are 25% Left Brained, 75% Right Brained

The left side of your brain controls verbal ability, attention to detail, and reasoning.
Left brained people are good at communication and persuading others.
If you're left brained, you are likely good at math and logic.
Your left brain prefers dogs, reading, and quiet.

The right side of your brain is all about creativity and flexibility.
Daring and intuitive, right brained people see the world in their unique way.
If you're right brained, you likely have a talent for creative writing and art.
Your right brain prefers day dreaming, philosophy, and sports.

Never Date a Cancer

Clingy, emotional, and very private - it's hard to escape a Cancer's clutches.
And while Cancer will want to know everything about you, they're anything but open in return.

Instead try dating: Leo, Sagittarius, Gemini, or Aquarius

You Are a Mermaid

You are a total daydreamer, and people tend to think you're flakier than you actually are.
While your head is often in the clouds, you'll always come back to earth to help someone in need.
Beyond being a caring person, you are also very intelligent and rational.
You understand the connections of the universe better than almost anyone else.

sunnudagur, 10. desember 2006

fullt tungl og stormur helgarinnar stóðust ekki alveg væntingar hinna hjátrúarfullu. Í dag vaggaði ég eins og risastór önd af veisluborði ríkisbubbans í gegnum allan bæinn, allt saman til að flýta fyrir--en nei, óþolinmæði engar þrautir vinnur.
Ísold hins vegar sallaróleg og kát fékk að kúra hjá ömmu sinni á Sólvöllum um helgina og í dag fékk hún að baka piparkökur hjá Tinnu, Eiríki og Vöku.

þriðjudagur, 5. desember 2006

fimmtudagur, 30. nóvember 2006

heilasull

Síðasta kennslustund þessarar annar var í dag, reyndar hef ég lítið getað mætt undanfarið vegna mikillrar ófrísku. En í dag mætti ég þar sem ég átti að taka þátt í fyrirlestri, svona ykkur að segja var framlag mitt ekki beysið. Ég sat á hliðarvængnum með bumbu út í loftið að upphugsa aðferðir til þess að lauma inn aulabröndurunum sem er það eina vitsmunalega sem heilinn minn gat kokkað upp í dag!!
En tími dagsins var sögulegur fyrir það að vera einn sá leiðinlegasti sem ég hef upplifað síðan ég hóf skólagöngu. Staðreyndin er sú að það er hreinlega ekki hægt að kenna á tölvur eða forrit í fyrirlestraformi, að þurfa að hlusta á- og svo ýtir maður á shift og enter er tilgangslaust. Ekki gerir það ástandið betra þegar manni líður eins og heilinn á sér sé kominn í vetrardvala og ég farin að hreyfa mig eins og smávaxinn flóðhestur. Eftir tímann sem drógst á langinn fékk ég minn ektamann til að skutlast eftir mér og sagði honum skýrt og skilmerkilega að ég væri í Odda, síðan lét hann mig vita hvenær ég gæti ruggað mér af stað út að hitta hann sem ég og gerði en sá engan Arnar. Hann spurði aftur hvar ég væri og ég sagði NÚ Í ODDA (með skemmtilegu hormónapirrröddinni) og stóð þá fyrir utan Lögberg....sem sagt heilinn minn virkar engan veginn sem skyldi. Nú þarf ég að klára ritgerðir og verkefni, spurning hvort ég geti fengið aðgang að utanáliggjandi heila:)

sunnudagur, 26. nóvember 2006

laugardagur, 25. nóvember 2006

pönkfamilí

You Are "Tearful"

Já við erum soldið lúin fjölskyldan þessa daganna, ég orðin kas, Arnar á pensilíni og Ísold leiddist þessir aumu foreldrar sínir. Reyndar byrjaði helgin bara vel, við kíktum á tónleika Benna hemm hemm í tólf tónum í gær því ungviðið þarf að venjast lífstílnum. Nú svo í morgun var skemmtilegt morgunkaffi hér í mýrinni með mágkonu minni og familí. Það ótrúlega gerðist að mér tókst að versla nokkrar jólagjafir(vonandi næ ég fleirum fyrir útgáfudag) en takmarkið í ár er að taka sem minnst þátt í eyðslukapplaupinu.

fimmtudagur, 23. nóvember 2006

próf

maður er endalaust að taka próf í skólum, vinnum, þolraunum og síðast en ekki síst samskiptum við fólk. Þá hjálpar að geta hlegið að la bourgoisie og horft framhjá smánunasemi og leiðindum annara.
Annars er minnisleysi mitt komið á mjög hátt stig og gruna ég blessuð hormónin, í dag leitaði ég að kennslustofunni minni í nokkrar mín á 3 hæð í árnagarði en hún er á fjórðu, síðan varði ég öllum tímanum að reyna muna föðurnafn fyrrum kennara míns sem er mjög þekkt persóna.
hér kemur prófið mitt í dag:
You Have A Type B Personality

You're as laid back as they come...
Your baseline mood is calm and level headed
Creativity and philosophy tend to be your forte

Like a natural sedative, you have a soothing effect on people
Friends and family often turn to you first with their problems
You have the personality to be a spiritual or psychological guru

þriðjudagur, 21. nóvember 2006

setti inn fáeinar myndir af gullmolanum á Flickrið , Ísold hefur það bara gott hérna á nýja heimilinu okkar í norðurmýrinni. Hér á hún stórt herbergi og sefur í stórubarnarúmi. Hún hefur lært heilmikið undafarna mánuði síðan hún byrjaði á leikskólanum, mest áberandi er kannski orðaforðinn en hún er líka orðin ansi dugleg að leika sér við dótið sitt og farin að dunda sér mikið. Þessa daganna er hún mikil pabbastelpa og finnst mjög gaman að láta lesa fyrir sig. Henni finnst Depill, Emmubækurnar og Einar Áskell sérstaklega skemmtilegar, þær má lesa aftur og aftur. Einnig lesum við oft um litla fílsungan hana Bellu sem eignast litla systur... við erum ekki alveg með á hreinu hvort hún geri sér grein fyrir að hún sé sjálf að verða stóra systir þó hún viti að það sé barn í maganum mínum.

sunnudagur, 19. nóvember 2006

það er eitthvað mjög dásamlegt við þennan brjálaða snjó sem kyngdi niður í nótt. Familían kíkti aðeins út í snjóinn í dag og fannst mér ómótstæðilegt að sjá litla skinnið okkar í risarauða gallanum sínum klofa snjóinn(smelli inn myndum á næstunni).
Á föstudaginn fórum við á crazy tónleika sem ég hefði ekki viljað missa af fyrir heiminn. Meðferðis var ég með púða til að hvíla lúin bein á en þegar molarnir byrjuðu gat ég sko ekki setið kjurr, þau voru bara svo skemmtileg.
Annars er spennan á heimilinu farin að magnast því nú er þetta spurning um nokkrar vikur, og ég er ekki að tala um jólin.

fimmtudagur, 16. nóvember 2006

Á íslensku

deginum gerðist svo sem ekkert markvert. Talaði íslensku og komst að því að sjálft afmælisbarnið hann Jónas var alveg ruglaður í því hvar ætti að setja ufsilon og hvar ekki, Konráð Gíslason átti víst þátt í þessari meinloku hans.
Á íslensku sagði nýji veðurfræðingur sjónvarpsins okkur í gær að framundan væri norðanátt og frosthörkur. Hann verður að endurhugsa þessa innkomu sína á ljósvakann því hann getur ekki aflað sér vinsælda með svona spám, sérstaklega þegar þær rætast. Já hvernig væri að fá hressan veðurfræðing, ég er á því að maður þurfi ekki að vera langt kominn í veðurfræði til þess að geta sagt þjóðinni veðurspár þannig að einhver skemmtun sé að (því ekki er mikil skemmtun í sjálfu veðrinu). Á íslensku segi ég það er andskoti kalt, afsakið orðbragðið.

þriðjudagur, 14. nóvember 2006

tæknileg mistök

Ekki finnst mér mikil réttlæting í því að nefna glæpi TÆKNILEG MISTÖK hvort sem það er fjöldamorð á saklausu fólki og litlum börnum eða stuldur úr sjóðum almennings til að innrétta húsið sitt. En af síðasta fréttatíma má sjá að Árni Johnsen og Ísraelsk yfirvöld eiga margt sameiginlegt. Mér varð reyndar enn meira óglatt við að sjá sendiherra Ísraels sem bað fólk um að fordæma þá sem þeir eru að murka lífið úr...


Annars hef ég ákveðið að setja 25 ára samband mitt við sjónvarpið á smá hold(ætla samt að horfa á fréttir og þáttinn hans Jónasar Sen, og nei ég er ekki orðin áttræð;). Mér finnst ég ekki lengur vera fá neitt mjög mikið út úr þessu glápi. Eftir að ákvörðunin var tekin finnst mér eins og ég hafi losað mig við einhvern lúsablesa og ég sé frjálsari en ella. Þetta þýðir auðvitað að ég mun (hum hum vonandi) klára öll verkefnin í skólanum, klára jólaundirbúning og ýmislegt annað áður en barnið kemur í heiminn (svo næ ég að blogga um mínar óviðjafnanlegu skoðanir ykkur til skemmtunar í enn meiri mæli!). Kvöldstund við að hlusta á útvarpið, lesa góða bók og fara snemma í háttinn hljómar ekki svo ílla? ekki satt.

mánudagur, 13. nóvember 2006

undarlegt

fréttablaðið birtir nafnlausa bókagagnrýni, er það ekki bara ruddaskapur eða er það gunguháttur?

sunnudagur, 12. nóvember 2006

í kvöld var okkur boðið af tengdamóður minni í perlulaga restaurant til að borða villibráð....ummmm. Ég hef sannfærst endanlega um það að hamingjuna er að finna í fjallakofa upp á hálendi, Arnar myndi veiða okkur til matar sem ég myndi krydda með blóðbergi. Eftir matinn myndi maður svo dýfa sér í einhverja heita laug í næsta nágrenni. Desertinn þyrftum við að láta senda eftir á þennan fyrrnefnda restaurant en þar er besta jarðaberjaís í heimi að finna, vill svo til að afi hennar Ísoldar býr hann til.
Nú er Moya Brennan/Clannad komin á fóninn og mér finnst eins og við séum að keyra um Donegal á Írlandi, ekki amalegt það.

laugardagur, 11. nóvember 2006


Dóttirin er í pössun, kærastinn í útvarpinu og ég er búin að einbeita mér að námi í kannski fulla þrjá tíma. Hef lesið nokkra kafla samsvarandi ritgerðarefninu mínu og skrifa ein 700 orð nema nú virðist einbeitingin gengin til þurðar. Estrógenið farið að segja til sín, hugur minn leitar til þvotts sem er óþveginn, gólfs sem er ósópað og barnaherbergi sem þarfnast smá tiltektar. Hvar er hægt að fá lyf við þessum estrógenósóma!!!

fimmtudagur, 9. nóvember 2006

framtíðarveðurspár

í dag var ég einstaklega óhress svona líkamlega fannst bara að ef ég hreyfði mig um millimeter myndi barnið sleppa út ekki nóg með það þá virðist andleg heilsa mín ekkert þola svona álag neitt sérstaklega vel. Hins vegar virðist ég oft vera óhressari þegar lægð er aðvívandi hvað þá stormlægð...skyldi ég vera með lítinn veðurfræðing í maganum.
Það er öruglega mjög hentugt að eiga slíkan að, maður skipuleggur fríin sín betur eftir veðrinu og lendir ekkert upp á heiði í aftakaveðri. Nú svo ef Ísold gerist endurskoðandi verður efri árunum okkar borgið.

þriðjudagur, 7. nóvember 2006

Ólafsfjörðurinn

Nú er svolítið farið að draga af mér í þessu ástandi mínu, ég finn að ég er að dragast aftur úr í skólanum og mér óar við öllu því sem ég á eftir að gera í familíulífinu. Hvort ég sé búin að taka mér of mikið fyrir hendur svona á þessum síðustu mánuðum held ég nú ekki en ef krafturinn væri aðeins meiri þá væri þetta líklega auðveldara.
Hins vegar fórum við í dásamlegt ferðalag um helgina enda síðasti sjens á að flytja mig milli landshluta (ef hvalur 9 á ekki að koma við sögu það er).Við fórum til Ólafsfjarðar, dvöldum þar í húsi með þeim Tinnu, Eiríki og Vöku. Við komum þar að kvöldi til í gegnum ógnarlöng göng sem minntu á risaeðluháls. það var því ekki fyrr en daginn eftir sem við uppgötvuðum dásamlegan fjallahringinn sem umkringir þennan litla notalega og rótgrónna bæ. Þarna létum við dekra við okkur, fórum í fjallasund og höfðum það bara gott á afskaplega jólalegu heimili. Ísold naut sín vel þó henni væri ekkert vel við að heimiliskötturinn væri ekki uppstoppaður. Þessa daganna eru flest orðin hennar með ákveðnum greini og stundum líka í fleirtölu. Talar til dæmis um Pabbani, kakkani og fleira í þessum dúr.
Nú svo lærðist henni að frændi hennar hagaði sér stundum undarlega en við vorum viðstödd opnun á sýningu hans Curvers á Akureyri. lýsing Ísoldar á sýningunni var á þessa leið "bibbi lúlla góllinu".
Að komast heim frá Ólafsfirði reyndist svo þrautinni þyngri, í fyrsta lagi vorum við veðurteppt í heilan dag en síðan þegar við lögðum að stað fyrir sólarupprás í gærmorgun hafði vetrarkonungur lagt hvíta ábreiðu á bæinn og fjöllin sem gerði það að verkum að mann langaði ekkert til að fara. Við keyrðum því tregafull í gegnum ævintýralegt norðurlandið undir fullu tungli.

þriðjudagur, 31. október 2006

að búa með atvinnutónlistarnörd


hefur sína kosti, maður fær að heyra ógrynni af skemmtilegri tónlist og eyrun eru böðuð í sífelldu tónaflóði. Maður kynnist skemmtilegum bókmenntum eins og Record collector en lesandabréfin í því blaði eru afskaplega fyndin lesning. Stundum fær maður reyndar að heyra oft á plötur sem eru kannski ekki beinlínis manns tebolli. En í það heila þá er ég þokkalega viðræðuhæf í þessum poptónlistargeira þó ég leggi ekki á mig að muna útgáfuár eða nöfn á gítarhetjum. Það sem gerist líka og á öruglega líka við kærustur bílaáhugammanna er að maður lætur kannski mata sig svolítið. Ég varð áþreifanlega vör við það þegar ég kíkti á tónlistarsafnið mitt á tölvunni minni...gott og vel. Í safninu voru langflestar plötur runrig, plata með Helga björns sem kom út í fyrra, fínar plötur en ekkert endilega eitthvað sem mig langar til að hlusta á þessa daganna. Hins vegar er minn heitelskaði duglegur að finna svokallaða móutónlist... sem er einhvers konar hugljúft indie, angurvær melankolía og kvennapönk. Hvar væri ég án Cat power, Red house painters og Le Tigre!
Dóttir okkar er svo auðvitað alls ekki útundan í þessari mötun, fyrir svefninn fær hún að hlusta á alls kyns róandi meistaraverk; Red apple falls með Smog,Bavarian fruit bread með Hope Sandoval, Baby með Röggu Gísla og margar fleiri. Faðirinn er auðvitað líka á því að gera eyru barnsins sem víðsýnust(víðheyrnust) með því að láta hana hlusta á allt frá dauðarokki til nýklassíkur. Það er svo spurning hvað kemur út úr því!

mánudagur, 30. október 2006

fann nokkrar myndir af barninu í leikskólanum

sér ekki fyrir kórónu


ísold á náttfataballi er við vegginn

á kubbasvæði í bláum bol og smekkbuxum

Já það er svolítið undarlegt að barnið sem fylgdi okkur hvert fótmál í 20 mánuði er farin að vera upp undir 7 tíma á dag í leikskólanum. Þar er hún farin að una sér vel með kennurunum og krökkunum. Okkur finnst hún hafa fullorðnast heil ósköp við þessi umskipti, talar meira og farin að dunda sér heil ósköp hér heima með dótið sitt. Okkur foreldrunum finnst líka gott að fá okkar tíma til að vinna og læra.

fimmtudagur, 26. október 2006

Tilraunir

í vikunni er ég búin að halda einn fyrirlestur, ÚHA. Já mér finnst það ótrúlegt og magnað því það gekk bara nokkuð vel hjá mér, ég talaði ekkert of hratt og ágætis umræður spunnust eftir á. Eftir þessa velgengni var akademísk orka mín þá vikuna þurrausin og nú ætti ég að vera gera skilaverkefni vikunnar en gengur treglega. Síðasta helgi var óvenju mannblendin og gerði ég meira að segja tilraun til að fara á airwaves, það gekk ekkert svakalega vel en náði þó að sjá þrjár hljómsveitir. Við Arnar gerðum tilraun til að vera hipp og kúl í bransapartýum en greinilega hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan við vorum the mainpeople(humhum) því fáa þekktum við og ekki vorum við í litríkum jogginggöllum! Svo á ég orðið tólf vini á myspace, sem þykir kannski ekki kúl en ekki verri menn en jesú var sáttur með sína tólf þarna í den. see you

föstudagur, 20. október 2006

Helsti stuðningsmaður hvalveiða á heimilinu


er hún Ísold Thoroddsen. Þegar faðir hennar kom frá Færeyjum í vikunni kom hann með grindhvaltuskudýrið Odda sem er víst algengt leikfang hjá litlu frændum okkar. Ísold neitar hins vegar að kalla hann Odda heldur kallar hún hann namminamm, s.s. sannur íslendingur hér á ferð. Paul Watson mun þurfa að vara sig á ungu kynslóðinni þegar hann kemur á gúmmíbátnum næsta sumar.

miðvikudagur, 18. október 2006

ástandið

Allir búnir að vera eitthvað slappir undafarna daga. Þetta þýðir auðvitað að heimilið er ekki komið í neitt almennilegt horf. Lærdómurinn hefur þurft að víkja fyrir slappleikanum og svo í þokkabót er að hellast yfir mig ýmsar áhyggjur um að ekkert sé tilbúið fyrir nýja fjölskyldumeðliminn okkar.
Þrátt fyrir ástandið líður okkur vel í norðurmýrinni og hlakka ég til að koma mér betur fyrir hérna, eiga notalegar stundir.
Að öðru voðalega er ég hneyksluð á sjálfstæðismönnum nánar tiltekið umhverfisráðherra sem segja hvalveiðar skaða ímynd Íslands út á við... Og hvað með kárahnjúka og álverið, kommon, hvernig er hægt að taka mark á svona hentistefnu.

föstudagur, 13. október 2006

hjúkett, tókst að klára heimaverkefni vikunnar á meðan Ísold horfði á "sampi samp"(þýðir Svampur sveinsson en er notað sem samheiti yfir teiknimyndir). Sjónvarpið getur verið algjör bjargvættur sem sagt. Þetta þýðir að ég geti farið þokkalega samviskubitslaust í helgarfrí og undirbúið mig andlega fyrir æfingavikunna miklu sem byrjar á mánudag. Planið er að auðvitað eitthvað notalegt og jafnvel sund. Nú verð ég að sinna skinninu. Góða helgi.

Himinninn var afskaplega bleikur og fallegur yfir norðurmýrinni í kvöld.

netið er komið í hús en ekki síminn...undarleg þessi símatækni, finnst þetta hálföfugsnúið. Pipiogpupu eru komin á myspace aðallega fyrir tilstilli Arnars sem fyrir nokkrum mánuðum fannst þetta kjánalegt eins og mér en skipti um skoðun þegar hann bjó með Ívari Páli. Jæja, hann beitti mig einhverjum þrýstingi en það þarf svo sem ekki mikið til. Áhugi minn hefur ekkert aukist neitt gífurlega á þessu samfélagi vegna þess að ég kann ekki að gera síðuna mína bleika og mér finnst hún þar af leiðandi ljót. Nú svo fyrir þá sem hafa ótrúlega mikinn áhuga á mínu lífi var ég hálf slöpp í dag og gerði lítið akademískt. Hins tókst mér að taka upp úr fáeinum kössum eða þar til ég örmagnaðist og losaði mig við allt það sem ég hafði borðað í dag. En engar áhyggjur því nú í kvöld tókst mér að halda myndarlegt Herðubreiðarboð með köku(sem mamma bakaði) og aðkeyptum ostum. Góða nótt.

mánudagur, 9. október 2006

All we are saying is give peace a chance

Áttum ljómandi góða helgi í nýja húsinu, á föstudaginn kom dótið allt saman heilt á höldnu. Á laugardaginn fór Ísold til ömmu Bryndísar á meðan ég og mamma reyndum að grinka á kassahrúgunni. Ísoldarherbergi er komið í stand og eldhúsið, hin herbergin ennþá full af kössum og hrúgum. Afi kom og reddaði sjónvarpstengingunni, það er munur að eiga svona góða að hérna á íslandinu. Gærdagurinn var öllu rólegri kaffiheimsóknir og fjölskyldumatur. Um 8 var ég svo mætt í háskólabíó þar sem mamma beið eftir mér með bíómiða á John lennon myndina. Kom í ljós að þetta var einhver svaka sýning og sjálf Yoko var á staðnum innan um fínt fólk og nippa(nýhippar). Voðalega er undarlegt að stundum að fara í bíó á íslandi það er alltaf eins og maður lifi og hrærist í einhverri minihollywood, kvikmyndavélar út um allt og bransalið. Hvað um það myndin var athyglisverð sérstaklega fyrir þær sakir hvað bandarísk yfirvöld eru alltaf hysterísk og geta ekki látið einn lítinn rokksöngvara í friði. Svo á boðskapurinn auðvitað ennþá við þó það sé ekkert voðalega hipp og kúl að vera með hippaboðskap. Eins og John sagði "hvað með það þó flower power hafi ekki virkað", hvernig væri þá að fá smá frið og hætta að pína fólk út um allan heim.

föstudagur, 6. október 2006

gámur, glámur, skrámur

Við erum að bíða eftir gámnum, já loksins fáum við dótið okkar. Undafarnar vikur hef ég fundið mikið fyrir því að dótið okkar sé hist og hér. Mér finnst ég alltaf vera að týna einhverju og nokkrir ómissandi hlutir fallið í geiminn þarna einhvers staðar á milli heimila. Þar má fyrst nefna Ernie nokkurn bangsann hennar Ísoldar og inniskóna hennar. Svo er það dótið í gámnum, ég er alveg hætt að gera mér grein fyrir hvað við eigum og hvað þá hver hefur verið að vasast í því þessa þrjá mánuði. Hlutir eru alltaf hlutir en engu að síður veitir það svolítið öryggi þegar maður er búin að koma sér fyrir í dótahafinu sínu. Annars erum við Ísold búin að endurheimta Arnar, sem er búin að vera aðalsöguhetja á söguvefnum edloader.com í fimm vikur. Familían er farin að gista á nýja heimilinu og líkar það bara vel, svefnherbergisgluggarnir okkar vísa út í friðsælan garð. Ísold er komin með sérherbergi, með listaverk eftir frægan listamann á veggnum og lítið hvítt stelpurúm þar sem hún sefur voða vel. Fagurgrænmálaða baðherbergið er yndislegt og vel hægt að liggja þar í bleyti tímunum saman.

mánudagur, 25. september 2006

undarlegir hlutir gerast hratt

stundum er himinninn búinn að vera öskugrár heillengi en allt í einu er hann orðinn blár og heiðskír, gerist öruglega oftast á Íslandi af öllum stöðum. Tíminn líður stundum undarlega hratt en um leið ótrúlega hægt. Litla barnið okkar er orðin leikskólakrakki, bumban það stór að jafnvægisskynið má fara vara sig. Arnar flutti í dag heila búslóð í gám (með góða hjálp) og nú er dótið okkar einhvers staðar á leiðinni. "Enn er ég að flytja" eru upphafsorðin í einhverri bók og líklega líka í tilvonandi ævisögu minni. Eftir viku verður svo heitmaðurinn á leið til mín, hvernig skyldu árin ellefu hafa liðið sem heitmey Jóns Sigurðssonar beið eftir honum...í festum eins og það var kallað þá. Skrítið að geta aldrei skyggnst fyrir næsta horn, skrítið að gleyma því alltaf að njóta augnabliksins. Jamm segið svo að ekkert gagn sé af heimspeki eða eins og ég fékk að heyra allt of oft " er það ekki gaman"(að nema heimspeki). Hvað getur maður sagt. Það nýtist hins vegar ágætlega eilífðarstúdent að eiga/og hafa átt foreldra með óbilandi trú á manni og ennþá meiri trú á fræðum sem fjalla ekki um hagvöxt eða slagæðar.

sunnudagur, 17. september 2006

busy bees og pakkar


Mæðgurnar allar höfum verið nokkuð uppteknar síðastliðna viku. Námið mitt byrjar strax með trukki, vikuleg skil, próf og meira að segja workshop allan laugardaginn. Ísold byrjaði á leikskólanum og stóð sig bara vel þessa fyrstu daga í aðlögun. Amma Rós (kölluð amma dós af barnabarninu) hefur hugsað um Ísold á meðan ég hef verið í skólanum og mála í íbúðinni. Í gær vorum við svo vonum lúnar eftir vikuna, Ísold var sett í bað og allir háttuðu snemma. Óvænt hringdi svo dyrabjallan og ókunnur maður við dyrnar. Hávaxinn ungur maður sem kynnir sig sem Ludwig segist vinur Arnars og hér á Íslandi í nokkra daga, rétti hann okkur tvo pakka frá Arnari okkar. Hlýnaði okkur heldur betur um hjartarætur okkar við þessa óvæntu heimsókn. Einn pakkinn stílaður á tvær prinsessur var fljótt rifinn upp og skríkti pabbastelpan af gleði þegar gamall félagi frá Berlínarárunum birtist enginn nema Spongebob Schwampkopf íklæddur bleikum Peaches nærum pour moi!!!! Hinn pakkinn var svo frá verndarenglinum okkar og nágranna henni Diönu.
Einhvern veginn styttist biðin ógurlega eftir prinsinum okkar um helming við þennan óvænta glaðning en litla stelpan okkar skilur ekki alveg hvað pabbi þarf að vera lengi þarna hinu meginn við símann.

sunnudagur, 10. september 2006

Þær gráu

eru erfiðar í gang, minna á gamlan landrover sem hefur fengið að sitja í skúrnum aðeins of lengi. En ég er sem sagt byrjuð í mastersnáminu, reyndar brá mér nokkuð við tilvonandi álagi sem verður að taka aðeins fastari tökum en Ba-námið var tekið forðum...Ísold byrjar ekki í leikskólanum fyrr en á miðvikudag þannig að erfiðlega hefur verið að finna tíma til að lesa. Nú loks þegar ég ætla hella mér útí lesturinn er ég eiginlega bara dauðuppgefin eftir málningavinnu og ýmislegt stúss. Ekki svo langt síðan það eina sem truflaði mig frá lestri var djamm, vinna og síðast en ekki síst horfaútíloftið á kaffihúsi! Jamm breyttar áherslur kannski ekki að furða að það sé sífellt verið að bjóða mér í þrítugsafmæli;
Svo er ég enn einu sinni búin að mála mig út í horn vegna þess ég get hreinlega ekki sýnt Magna nokkrum neinn áhuga. Í fyrsta lagi er hann alltaf frekar seint á dagskrá það á líka við um endursýninguna(eða þegar ég er löngu farin að fá mér minn tilskylda bjútíslíp), nota bene virðist vera klukkutíma seinkun á skjás eins dagskránni hér í Norðurmýrinni. Duló. Nú hlakka ég bara til þegar þessi umræða hættir og vonandi mun ég hafa vott af áhuga á næsta æði.

fimmtudagur, 7. september 2006

þriðjudagur, 5. september 2006

Sumarið á enda

og komið haust að minnsta kosti í hugum skólafólks. Ég fer í minn fyrsta tíma eftir hádegi í dag. Þar mun ég stíga mín fyrstu skref hinum megin við Ba-línuna. Hins vegar mun Ísold stíga sín fyrstu skref inn í menntakerfið á morgun-þá förum við í viðtal...úúú. Afskaplega spennandi allt saman, þó ég hlakki til að sjá hana þroskast og læra af kennurum og öðrum krökkum verður undarlegt að hafa ekki litla skinnið mitt syngjandi fyrir mig allan daginn. Reyndar er annað lítið skinn orðið ansi fjörugt, sparkar mikið og lætur vita af sér.
Síðasta verk sumarsins var að búa til dásamlega sólberjasultu úr berjum frá ömmu í holtinu. Tók líka við lyklum af nýju vistarverum okkar sem eru yndislegar. Besti fítusinn við þessi húsakynni eru dimmararnir sem eru á langflestum ljósunum, þetta þykir mér afskaplega fullorðins og sæma fólki sem er orðið þrítugt. Það verður sem sagt rómantísk stemning á nýja heimilinu, jíhaaaa.

mánudagur, 28. ágúst 2006

Ísold í kápu af mömmu sinni

Nú erum við Ísold í óða önn í haustverkum, tíndum rifsber ásamt Þorgerði og gerðum síðan rifsberjahlaup. Nú svo erum við að bíða eftir nýju húsnæði þannig að við erum að fara í gegnum alls kyns dót, fundum kápuna mína síðan í Róm þarna um árið. Í dag var svo Ísold í umsjá Langaafa og langaömmu á meðan ég fór í læknisskoðun. Langaafi gekk með dömuna um alla Norðurmýrina.

þriðjudagur, 22. ágúst 2006

í fréttum er þetta helst

Við fórum norður í blíðuna síðustu helgi. Ísold gekk upp á fjall(litla fjallið á Sauðárkróki) , svaf í tjaldi og alles bara. Sveitasælan var dásamleg, bláberjaskyr undir sterkri Mývatnssólinni ummmm.
Annars er Arnar að fara ná í hafurtask okkar austur til Berlínar, ég er að fara taka við lyklum á nýjum húsakynnum okkar við Auðarstræti, byrja í Hí aftur og Ísold að byrja á leikskóla vonandi fyrr en síðar (ætli gamli góði Villi láti leikskólamál sig eitthvað varða eða voru þetta bara kosningabrellur...).

miðvikudagur, 16. ágúst 2006

100% árangur og fyrsta kúlan

Ísold fór í læknisskoðun í dag og fékk toppeinkunn, orðin 78.5 cm og 11.6 kg og á eðlilegu róli bara. Ég beið reyndar eftir því að læknir og hjúkrunarkona myndu lýsa dömunni sem fullkomnasta barni í heimi en sjálfhverfa er víst eitt einkenni foreldra, hum. Jæja síðan áttum við nokkuð eðlilegan dag; heimsóttum ömmu á sólvöllum; fengum okkur miðdegislúr; og fórum á 10 dropa( greinilega orðinn fastur punktur í tilverunni). Þar hittum við hússtýrurnar og fegurðardísirnar Tinnu og Þuru með Heklu Sólveigu(þjónað af fjórða megabeibinu henni Þorgerði). Á leiðinni að bílnum okkar í kerrunni fór Ísold að reyna standa upp og við eina slíka tilraun steypist hún fram á við og með ennið beint á gangstéttina og í kollhnís. Barnið grét hástöfum og ég skalf, kom henni heim í snatri þar sem amma Rós beið með silfurskeið. Kúlan er fremur stór og blá á enninu en stúlkan fór fljótt að syngja og blaðra eins og hún á vanda til...verð að viðurkenna þó að ég er enn í sjokki og því að úthella hjarta mínu hér. Jamm þetta var tilfinningaskylda dagsins í dag ég lofa mjög hæðnum og þjóðfélagsgagnrýnum færslum í nánustu framtíð, ekki gefast upp.

fimmtudagur, 3. ágúst 2006

rennvot eða regnvot

rennvotar mæðgur komu heim í dag um fimmleytið eftir langan regnvotan göngutúr. Við reyndum að bíða af okkur rigninguna í ráðhúsinu en ekki stytti upp, mér datt í hug að spyrja um regnhlíf í verslun í miðbænum en vildi ekki eyða 1900 krónum í slíkan grip. En nú er ég með hausinn í skýjunum og andinn er ekkert að koma yfir mig í þessu bloggeríi so later aligator.

mánudagur, 31. júlí 2006

júlíjúlíjúlí

júlí er búin að vera ósköp notalegur hér á Íslandinu og ég voða lítið flakkað um á netheimum. Dóttirin virðist njóta sín mjög vel hér umkringd fjölskyldunni, frænku sinni Sunnu og vinkonum Vöku og Sögu Maríu. Hún hefur þroskast heil mikið og bætt inn í orðaforðann nokkrum orðum þ.á.m Júja sem er fyrsta nafnið sem hún kann (þýðir Júlían) og svo Íló sem þýðir Ísold. Í dag fórum við mæðgur að gefa bra bra eftir nauðsynlegt kaffistopp á besta kaffihúsi bæjarins, Tíu dropa. Síðan hlaðin gömlu brauði fórum við áleiðis að tjörninni, bærinn var aðeins mannaður fólki í rándýrum útivistarfötum og einstaka barnavagnabílstjórum. Á tjörninni sáum við ekki mikið af bra bra en við urðum skjótt umkringdar gæsum. Í flýti bútaði ég brauðið og dreifði á meðan Ísold smeik við starandi gæsirnar ríghélt í pils mitt og nagaði brauðbita. Í lokinn vorum við svo kominn í hann krappann þegar mávarnir komu með skrækjum og tilheyrandi árásum þannig að við flúðum yfir Þingholtin niður í fyrirheitna norðurmýrina. Nú svo hefur sundþjálfun Ísoldar gengið vel og hún hætt að ríghalda í okkur eins og lítill trjáfroskur.
Annars verður erfitt að setja inn í nýjar myndir þar sem við erum í smá myndavélahallæri.... en nú erum við ekkert svo langt í burtu ;)

fimmtudagur, 27. júlí 2006

Frjálsar Færeyjar

Jamm og jú við erum komin heim á okkar eigin eyju. Sú er ekki alveg jafn þokukennd og eyjan mýstíska sem við dvöldum síðustu helgi og í fegursta þorpi heims AKA Syðri Göta. Þokan sem ég var svo dugleg að dásama gerði heimamönnum reyndar svolítið erfitt því tónlistarmenn og skáld komust erfiðlega að eyjunni sem á það til að hverfa fyrir sjónum flugmannanna og reyndar stjórnmálamanna einnig. En við komumst heim í gegnum skýin og fengum sólskinsbros frá prinsessunni:)

miðvikudagur, 19. júlí 2006

við hjónaleysin

erum í Færeyjum, það er þoka....dásamlega Færeyjarþokan sem gerir allt svo dularfullt. Við erum reyndar án Ísoldar, við sem höfum verið eins og franskur rennilás síðustu mánuði. Viðurkenni að það var undarlegt að leggja sig í rauða sófanum hennar Vonbjartar og litla prinsessan langt í burtu. Hún er auðvitað í góðu atlæti hjá ömmu sinni á sólvöllum og líka smá hjá uncle Júlían þannig að hún unir sér vel. Blíðar kveðjur frá Færeyjum

föstudagur, 14. júlí 2006

Kaldidalurinn

er besta lækning fyrir urban chlostróphóbíu og hornréttu óþoli á háu stigi. Ég mæli því með grjóti, auðn, köldum ferskum vindi og útsýni yfir nokkra jökla. Var eiginlega búin að steingleyma því að ég get alveg gædað!!!

miðvikudagur, 12. júlí 2006

Þeir eru að æra mig með Pink floyd í útvarpinu

ég er gersamlega búin að fá ógeð á pink floyd endalaust.Af hverju spila þeir ekki sóló snildina hans Syd. Það væri allt annar handleggur, hann vill öruglega sjálfur láta minnast sín frekar fyrir Baby lemonade og fleiri slagara.

sunnudagur, 9. júlí 2006

Íslensk helgi

Við erum s.s. komin heim og aðlögun gengur vel. Ágætt að geta tjáð sig á fullorðinsmáli, fara í sund og borða flatkökur. Hreina og svala loftið var auðvitað mesti munurinn og finnst mér eins og ég sé að anda í fyrsta sinn í mánuð. Annars er familían að fara flytja sig um set hingað um einhverja hríð en familíulífið var ekki alveg að virka utan kerfis í þýskalandi! ÚHA! Í dag er líklega sund, afmæli og leikurinn. Áfram Frakkland

þriðjudagur, 4. júlí 2006

Ég viðurkenni

svona síðustu daga mína og kvöldstundir í þessari menningar eða ætti ég frekar að segja fótboltaborg....að ég hef horft á nokkra leiki. Enda erfitt að komast hjá því. Mér leist nú ekkert á Frakkana til að byrja með en núna er ég auðvitað orðinn harðasti(eða einn af þeim) stuðningsmaður þeirra. í kvöld(púff þvílíkar játningar) er heimilisfólk mitt úti að horfa á boltann í massa stemningu og ég sit hér í rólegheitunum með Þýskaland-ítalíu leikinn í sjónvarpinu!!! lágt stillt reyndar. Eftir kvöldmáltíðina sem var á besta pizzastað borgarinnar sem er pönkpizzan. Hún er rekin af ítölum og er dásamlegur staður með leikgarði fyrir börn, ljúfengum mat og götuðum þjónum. En þó ítölsku pönkararnir(stressaðir fyrir leikinn)hafi gleymt að servera mér mína Créme caramel, þá held ég með þeim. Eitt er mér þó mikið í mun og það er að !#"#$(/%$ Portúgalarnir (sem eru engir fagurgalar þegar kemur að fótbolta, híhí) falli úr keppni eða hreinlega verði gerðir brottrækir, mér finnst þeir bara frekar ruddalegir. Ég hef nú bara aldrei séð annað eins en leikinn þeirra og Hollendinga!!
Allez allez allez allez la France og Henry sérstaklega;).

fimmtudagur, 29. júní 2006

eftir 6 daga

fljúgum við enn á ný og í þetta skiptið á frón. Þetta verður 17. flugferð Ísoldar sem hún fer og það ókeypis þar sem hún er ekki orðin tveggja. Auk hennar verður enn minni laumufarþegi sem fær ókeypis.... sá/sú er líka ástæðan fyrir því að ég kem heim með fremur framstæðann maga. Segið svo að við kunnum ekki að spara! Annars fer hver að vera síðastur að kommenta um hversu mikið mín er saknað og hve frónið sé ekki samt án mín!!!!
Kannski skelli ég inn nokkrum myndum frá velheppnaðri Póllandsferð annars sjáumst við bara.

fimmtudagur, 22. júní 2006

konunglegir dagar.

Arnari og fylgdarmey(mér) var boðið til prinsessu á dögunum. Sú er með nokkur eftirnöfn eins og þeim ber og eitt þeirra er meira að segja Wittgenstein. Eftir langa S-bahn ferð suður til ég veit ekki hvað komum við í ekkert svo fansí hverfi, ekkert sextánda hverfi í gangi. En í einu fínu húsi þó án turna á annari hæðinni tók á móti okkur brosmild prinsessan í buxum. Nei nei ó sei sei, engar krínolínur þar á ferð. Þar vorum við kynnt endalaust fyrir körlum í blaser jökkum og konum í léttum sumarklæðnaði. Flestir gestanna þó eitthvað eldri en við en einhvern veginn tókst okkur að vera ekki alger krækiber í helvíti, ég fann mér franska konu og ræddi við hana um dásamlega brie ostinn(á stærð við sextán tommu pizzu frá franz) sem var á boðstólum og svo auðvitað fótbolta...það var ekki bjart upplitið á konunni. Franska liðið væri hrein hneisa fyrir þjóðina tjáði hún mér, maðurinn hennar reyndi nú að finna jákvæða punkta á þeirra síðasta leik en konan dró hann niður á jörðina og sagði þá hafa "sökkað feitt". Við komumst heil í gegnum þessa berlínsku efristéttar skemmtun. Eitt lærði ég þó þetta kvöld að maður á að bjóða upp á einfaldar en góðar veitingar(þegar ég fer að halda konunglegu veislurnar mínar)- s.s ekki sjö tegundir af kökum, köldum eða heitum réttum. Prinsessan bauð upp á ljúffenga tómatsúpu sem var fullkomin að mati Arnars svo var fyrrnefndi brie osturinn og kirsuber. Einfalt og gott.
í gær ásamt annari prinsessu í minni kantinum en í buxum líka fórum við til Potsdam, röltum áhyggjulaus um Sanssouci(tíhíhíh) garðinn og kíktum á alla rococcogeðveikina. Áttum indælisdag undir funheitri berlínarsólinni.
Hér blaktir þýski fáninn sem aldrei fyrr, þeir eru að koma út úr skápnum með þjóðernisstoltið mætti halda. Flestir segja þó að þessi gul-rauð-svarta manía muni enda eftir leikanna, því hér er þjóðernisstolt yfirleitt tabú(skiljanlega, humhum). Fyrir minn smekk gæti ég ekki verið stolt af svona ljótum fána, litasamsetningin er fatal.
Tvær vikur í íslenska grámann, vindinn, vatnið, sundið og plokkfiskinn-og ég hlakka brjálað til....undarlegt nokk!!!

mánudagur, 19. júní 2006

dúbídú

áttum fína þjóðhátíðarhelgi, borðuðum íslenskar pulsur hjá sendiherranum í hinu fínasta veðri. Veðurguðirnir greinilega hlustað aðeins á mig og tónað niður í hitanum. Í gær fórum við svo að weisensee vatni í fjölskylduferð ásamt öllum sítt að aftan austur-þjóðverjunum og konum í níðþröngum leopard kjólum með aflitað hár. Það er ágætt að fá frí frá hipp og kúlinu sérstaklega áður en maður kemur á svölu eyjuna. dúbídúdúbídúbídúbídúdúdúdúbídúdúbídúdúdúdúbíbíbídúdúbíbídúbídúbídú.

miðvikudagur, 14. júní 2006

Þjóðverjar gera sér glaðan dag.

Já já það er erfitt að láta fótboltann fara framhjá sér akkurat núna. En í kvöld finnst mér hann bara allt í lagi fyrirbæri. Strákarnir fóru út að horfa á leik og ég fæ vistarverurnar fyrir mig, ótrúlegt en satt þá er ég bara mjög skemmtilegt kompaní. Inn um galopna gluggana berst skvaldur, barnaskrækir,grillilmur og svona áhagendahróp. Ég er að spá í smá spa og tedrykkju. Megi þeir bestu vinna.

þriðjudagur, 13. júní 2006

gleymspeki og of mikil sól

Líklegast hefur einhver heimspekingurinn sagt að menn væru alltaf óánægðir, en ég hef ekkert haft fyrir því að muna eitthvað af þessum fræðum sem ég hef lagt stund á. Nú er í Berlín brjáluð sól og blíða sem er mér algerlega um megn...svo mikið að ég reyni að forðast að fara út úr húsi. Ég veit að þetta er guðlast í eyrum Íslendinga með D-vítamín vöntun á háu stigi, en mér er alveg sama. Hér er ein mesta molla sem ég hef kynnst þó allir gluggar séu hér upp á gátt má enga golu finna. Ég er með innilokunar og köfnunartilfinningu og þrái vesturbæjarlaugina heitar en nokkru sinni.

sunnudagur, 11. júní 2006

föstudagur, 9. júní 2006

sumarið er tíminn

Þegar enginn nennir að blogga...eða hvað? Ég er afskaplega eirðarlaus, hitinn er kominn aftur og framtíðin óljós. Fréttir frá Íslandi eru ákaflega stopular og stundum finnst mér erfitt að geta ekki bara stokkið heim þegar eitthvað liggur á. Nýbúinn í mér er leiður á nýbúalifnaðinum, langar að þekkja og skilja umhverfi sitt. Heyra og sjá vini( og nýjar vinaviðbætur). Þar til næst.

þriðjudagur, 6. júní 2006

international Slayer dagurinn

Í dag kom litli bróðir minn til borgarinnar, orðinn höfðinu hærri en ég(heldur samt titlinum litli bróðir). Mér finnst hann ósköp duglegur að fljúga svona einn stórborganna á milli svo ekki sé minnst á hve mikil hjálp hann er hér á heimilinu. Ísold var nú ekki lengi að taka hann í sátt og þau orðin mestu mátar eftir hálftíma.
En að heimóttarstjórnmálum, ekki vissi ég að Halldór Á. væri Slayer aðdáandi eða djöfladýrkandi en hann kann sannarlega að velja daginn.

sunnudagur, 4. júní 2006

tv5....MONDE

Hef horft svolítið mikið á franska sjónvarpið undanfarið, sambýlismanni mínum varð næstum því nóg um þegar ég horfði á enn einn fréttatímann sem innihélt aðeins fréttir af mótmælum. Mótmælt var í Toulouse að björnum væri sleppt í Pýreneafjöllin til að lifa þar sínu náttúrulega lífi. Næsta frétt var svo auðvitað frétt af mótmælum á svipuðum slóðum frá náttúruverndarsinnum sem styðja þessa bjarnaráætlun. Í öllum þessum mótmælafréttum er svo talað við einn mann eða eina konu(oftar en ekki með stór nef) í hópnum sem er alveg brjálaður, baðar út öngum og er þetta virkilega mikið hjartans mál.Það er sem sagt líf og fjör í frans, svei mér þá ef dvöl mín hér í þýskalandi er ekki bara að lækna antipatíu mína á fóstrum mínum frökkum;)

mánudagur, 29. maí 2006

ein í kotinu

Ísold er búin að njóta síðustu daga með afa og ömmu til fullnustu, hún hefur verið á fullu með sýningu og fengið næga athygli. Í gær héldum við svo upp á afmæli Bryndísar með íslensku lambakjöti eldað af kokkinum fræga, ummmm! Ísold lærði heilmikið á dvöl þeirra og er farin að segja nokkur orð inn á milli söngsins endalausa. Við foreldrarnir fengum líka smá hvíld og dekur sem var mjög vel þegið. Í dag var kotið okkar ansi tómlegt og Ísold saknaði ömmunnar og afans strax. Nú svo er vika í að við fáum aupair til okkar( hinn unga Júlían), já þetta er orðið frekar fullorðins hjá manni.
Mér fannst ég líka vera orðin ansi fullorðins þegar ég sá hinn unga jacques Lang orðinn gráhærður og krumpaður... Ég mundi eftir honum sem unga sniðuga stjórnmálamanninum. Well horfði svo á heilan umræðuþátt um það að hann ætlaði að fara í prófkjör í flokknum sínum( fyrir socialistana auðvitað). En þetta væri nú svo sem ekki frásögufærandi nema vegna þess hve ótrúlega stjórnmálaumræða getur verið skemmtileg!! Jacques í fyrsta lagi játaði ást sína á hinum og þessum og þá aðallega Mitterand síðan kom félagi hans fyrrverandi hægri(eða ætti ég að segja vinstri) hönd Mitterand. Félaginn var spurður hvernig hann héldi að Jacques myndi ganga og þá sagði hann(nb. hann átti greinilega koma til að styðja hans hlið). "Alls ekki vel" sagði félaginn, "socialistaflokkurinn í frakklandi er að skíta í buxurnar þessa daganna og þó ég elski þig jacques og styðji þig veit ég að þeir munu velja XXX í staðinn því þeir eru fífl". Já þetta kallar maður yfirlýsingu í lagi, ekki sé ég fyrir mér Geir H. Haarde játa Davíð ást sína eða segja að flokkurinn sinn sé að skíta í buxurnar.

mánudagur, 22. maí 2006

Belle et sebastien,


JÁJAÁJA´JA´JAhá ég sá Belle í gær JÍHAAAAA! Við Þorgerður fórum á tónleikana og hittum þar massa mikið af finnum þ.á.m Jússa og Maju. Við dönsuðum, ég gólaði og Þorgerður sá um að hemja mig..... Þetta var dásamleg upplifun. Kannski er skömm að segja frá því að í gær hafi verið mín fyrsta upplifun af þeim á tónleikum. Já ég er gjörsamlega búin að ofhlusta á þessa hljómsveit og sambýlingur minn til 5 ára og kærasti til átta(einn og sami maðurinn, geri aðrir betur) hefur þurft að þola ýmislegt í þessum Belle málum. Og því er ekkert að fara linna, nei nei ó sei sei. Þeir voru brjálaðir, skemmtu manni með gömlum og nýjum slögurum. Stuart var mjög fyndinn sérstaklega þegar hann gerði grín að þjóðverjunum..hum hum í Berlín og sá svo strax eftir því. Steve átti algerlega kvöldið með flottum dansi og Sara I. var líka flott á því. Engin tilgerð þarna eða "hey ég er fimm ára látalæti" bara góð tónlist og frábært grúv.
Nokkrar staðreyndir um samband mitt við þessa hljómsveit; held ég hafi fyrst heyrt í þeim hjá mínum góðu vinkonum Önnu Katrínu og Valdísi líklega rétt eftir París 96-97....er ekki alveg viss samt.
Ég man vel eftir teiknimyndinni úr franska sjónvarpinu og þá sérstaklega þemalaginu, held einmitt að þau hafi einhvern tíman tekið það.
Arnar hefur staðið sig með prýði í að útvega mér skemmtilegar upptökur með sveitinni og þá er eftirminnilegust jólaútvarpsþáttur með þeim...(Þetta hefur hann Arnar lagt á sig þó hann viti að diskarnir fari yfirleitt ekkert af fóninum þegar þeir eru einu sinni komnir í hús.)
Annars erum við bara í góðum gír ég er búin að vera hálf lasin sem hefur bitnað örlítið á gestinum og veðrið reyndar verið hálf undarlegt með heimsendadembum, molluhita og þrumuveðri. En tónlistin læknar allt.

mánudagur, 15. maí 2006

vorfuglarnir

Maimánuður er svolítill gestamánuður hér á Danziger. Við fengum hérna einn gest fyrir helgi í nokkrar nætur sem vill kannski ekki láta nafns síns getið á veraldarvefnum, en hvað um það við og gesturinn áttum góða daga og mikið var rætt um þann tíma sem ég og Arnar vorum að kynnast í Mývatnssveit. Ó hin fagra Mývatnssveit, hennar var s.s. saknað sárt og er því ekki seinna vænna að sjálf prinsessa þeirra Mývetninga hún Þorgerður komi og vermi hjörtu okkar. Prinsessan kemur á morgun og ég get ekki beðið.
Seinna í mánuðinum koma svo Afi og Amma Ísoldar sem litla fjölskyldan bíður í ofvæni eftir að hitta og ég þykist vita að þau hlakki líka mikið til að hitta litla ungan sinn eftir alla þessa mánuði. Er farin í bað.

sunnudagur, 14. maí 2006

þriðjudagur, 9. maí 2006

mánudagur, 8. maí 2006

er að verða húkt á þessum prófum!

You scored as French. French!

French

90%

Aussie

75%

British

65%

Japanese

65%

Taiwanese

60%

German

55%

American

45%

Chinese

45%

HongKonger

40%

Singaporean

10%

What will you be after reborn? (translation)
created with QuizFarm.com

Merkilegt þar sem ég fæddist nú í frakklandi til að byrja með og ég sem hélt ég væri alveg komin með of stóran skammt af frökkunum, well. Annars er ég að hlusta á nýja tökulagaplötu 22 pistepirkko sem er dásamleg og ekki nóg með það heldur gerði vinur okkur umslagið.

sunnudagur, 7. maí 2006

fimmtudagur, 4. maí 2006

blómasnjór

Það er undursamlegt veður í berlín og til marks um það er nágrannakona mín næstum nakin hérna á nærliggjandi þaki allan liðlangan daginn. Við mæðgur erum hins vegar búin að finna hinn fullkomna garð sem er aðeins í tveggjamínútna fjarlægð. Þetta er einhvers konar kirkjugarður sem liggur á milli tveggja gatna. En á vegum einhvers konar trúfrelsis samtaka, grafirnar eru reyndar örfáar og liggja á víð og dreif á stórri grasflötinni með þónokkrum trjám. Þetta er eilítið skuggsæll garður og friðsæll og í einu horninu er afskaplega menntaður leikvöllur. Þar er t.d. róla sem er eins og karfa í laginu og margir krakkar geta verið í í einu. Þarna verjum við þessum sólríku dögum okkar og á okkur snjóar hvítum og gulum blómum úr trjánum, alveg yndislegt.

mánudagur, 1. maí 2006

erste mai

Í fyrra fór litla familían mín í hina hefðbundnu 1. mai göngu í Reykjavík en í ár forðuðumst við slíka viðburði. Okkur var nefnilega tjáð að hér væru oft óeirðir, bensínsprengjur og þjóðernissinnar nokkuð aktífir. Ekki er hægt að fara með litlar dömur á svoleiðis flakk þannig að við fórum í lautarferð í Volkspark Friedrichshain með finnunum. Í Volksparkinum var mikið af fólki sumir á línuskautum, sumir í strandbolta og enn aðrir í fótbolta. Reyndar tókst mér að sýna berlínska mannasiði(þ.e. enga) við strákapjakka sem voru alltaf að sparka í okkur bolta(er ekki mjög stolt af sjálfri mér).
Annað er það að frétta að ég er farin að lesa á ný... Anna Katrín var svo góð að lána mér Draumalandið eftir Andra Snæ. Hins vegar er ég alls ekki að fíla þessa bók, þennan predíkunartón og finnst hún ekkert sérstaklega vel skrifuð. Er líklega að mála mig út í horn miðað við þau viðbrögð sem bókin hefur annars fengið. But well, þessar michael moore bókmenntir eru bara ekkert fyrir mig, þegar orð eins og "hagvöxtur" er búið að koma upp oftar en tvisvar á sömu blaðsíðu þá nenni ég ekki að lesa, hvað þá "vísitala". Mér gæti ekki verið meira sama þó ég viti ekki hvað er að tegra hamingjuna, sérstaklega ef ég skyldi finna hana. Svo þarf ekkert að segja mér að þessi blessaða virkjun andskotans séu mistök frá helvíti(finnst ágætt að þessar skoðanir hans sannfæri einhverja). Jæja þetta á nú ekki að vera neinn reiðilestur yfir þeim annars mjög svo viðkunnanlega Andra Snæ en ég fíla bara fantasíuna hans betur. Þetta hefði ég þurft að ræða við pabba en þó við værum furðanlega oft mjög sammála var það ekki gefið, sakna hans.

fimmtudagur, 27. apríl 2006

sæt coccinella


sæt coccinella
Originally uploaded by pipiogpupu.
Yndislegt veður í Berlín undafarna daga. Í dag var pínu vott en við létum það ekkert á okkur fá enda haldin miklu voreirðarleysi. ísold fékk þá loks tækifæri á að nota fína pollagallann frá ömmu og afa á Sólvöllum. Ég tók svo nokkrar myndir af herleg-
heitunum sem eru á myndasíðunni.

mánudagur, 24. apríl 2006

Um pest og ömurleikann

Það er ekki tekið út með sældinni að vera Ísold Thoroddsen þessa daganna. Á fimmtudaginn var hún orðin nokkuð hress stúlkan og útskrifuð frá lækninum en aðfararnótt föstudags byrjaði hún svo að kasta upp. Þá hafði hún náð sér í ælupest á biðstofunni hjá lækninum, við skelltum henni til læknis daginn eftir enn eina ferðina og sjónin ekki fögur. Litla stúlkan orðin svo mögur og aum. Öll helgin fór í að ná sér en loks í dag fór að glitta í skríkjandi barnið á ný, þetta er sem sagt allt að koma. En af okkur í fréttum er að við fengum óvænta heimsókn frá frændum Arnars af Akranesi sem komu færandi hendi með Lax ummmmmmmmhhhh. Með þeim gengum við um hverfið og skoðuðum alls konar bíla, sérlegt áhugamál þeirra feðga og alltaf gaman að sjá hverfið í nýju ljósi. Um kvöldið kom Alex og leit eftir Ísold á meðan við skelltum okkur á Sisters of Mercy, en sei sei ó nei.... hrikaleg lífsreynsla verður að segjast.
í fyrsta lagi, krádið var rosalega krípí; burstaklippt vöðvabúnt með íllileg augnaráð, gamlir sjúskaðir pönkarar, gothkonur að deyja úr hor og glæpamenn. Við vorum stödd í helvíti.
Ég var þarna mætt í grænum kjól, gulum skóm, með bleikan varalit og með hvítu gleraugun sem var algerlega fjórum litum ofaukið og fannst mér allir horfa á mig með morðingjaaugum. Ég ætlaði nú að láta mig hafa það og hélt bara fastar í Arnar. En svo byrjuðu sjálfir tónleikarnir eða hvað sem þetta var. Reykvélin látin á fullt blast líklegast svo að Andrew Eldritch gæti falið sig sem best. Maðurinn ekki svipur hjá sjón, dökku liðuðu lokkarnir(er s.s. veik fyrir þeim) horfnir aðeins snoðaður kollur og allt of skorinn ofþjálfaður líkami ughhh. Hljóðið var hörmung heyrðist betur í bakröddum en sjálfum Andrew, enginn gítar. Þetta var hrein afskræming á tónlistinni. Skemmst frá því að segja að við forðuðum okkur hálf svekkt yfir aurnum sem fór í miðana.

fimmtudagur, 20. apríl 2006

Dýrðin dýrðin


Gleðilegt sumar, fólk.
Yndislegt veður og Ísold útskrifuð með fín lungu. Pensilínið kicks ass!
Læknirinn gaf sér meira að segja tíma til að útskýra allt sem á undan hafði gengið á engilsaxnesku. Nú öndum við öll léttar.

þriðjudagur, 18. apríl 2006

mánudagur, 17. apríl 2006

Gangandi íkorni

Við erum nú búin að fá krasskúrs í hvað á að gera með veikt barn í Berlín á frídögum. Ísold mín var búin að vera mjög slöpp og á laugardagsnóttina fékk hún 40 stiga hita okkur auðvitað til mikillrar skelfingar. Vinafólk Alexar sem eiga barn gaf okkur góð ráð, fyrst til að lækka hitann og einnig hvert við ættum að fara. Hitinn sem betur fer lækkaði niður í 39 um nóttina og var 38,5 um morguninn. Þá var förinni heitið í sömu barnabráðamóttöku og við höfðum farið á á fimmtudaginn. Í þetta skiptið tók yndislega ljúf stúlka á móti okkur og átti ekki í neinum vandræðum með að skrá okkur inn. Lækninum leist ekkert á ástandið á barninu, hún fékk voða sterkan stíl til að létta á öndun og svo var það INHALIEREN, Ísold látin anda að sér einhverju til að hreinsa öndunarveginn. Bronkítisið var s.s. af verra taginu og við höfum nú farið 4 sinnum á deildina á tveimur dögum til að INHALIEREN, að auki fékk hún einhver fleiri lyf og pensilín þ.á.m.. Eftir hverja slíka innöndunarmeðferð var okkur skipað í 30 mínútna göngutúr og eftir hann hlustaði læknirinn barnið sem endaði alltaf með að hún sagði " Besser aber nicht gut!" Göngutúrarnir snérust nú mest um það að finna íkornan sem við sáum rétt glitta í á fimmtudeginum, mikil leit og vangaveltur áttu sér stað um þennan litla íkorna. Ísold er nefnilega komin með orð yfir dýr af mörgu tagi og þegar hún sá íkornan benti hún og sagði BABA.(sama segir hún um fugla og hunda sem verða á vegi okkar). Þessar ferðir okkar á spítalann í volkspark Friedrichshain hafa gert okkur nokkuð lúin og páskamaturinn bíður enn í ískápnum. Í eftirmiðdaginn gerðum við svo okkur ferðbúin til að fara í fjórða skiptið og tókum tramminn, sá fer beint frá okkur að spítalanum. Sólin skein, loftið var ferskt eftir smá rigningardembu og það fyrsta sem við sjáum þegar við komum að innganginum að barnaspítalanum er íkorninn. Sá var sko enginn mannafæla lék og sýndi listir sínar fyrir Ísold. Þetta hlaut að vera gott merki hugsaði ég... Þegar inn var komið var biðstofan tóm og því engin bið, Læknirinn hlustaði Ísold og sagði GUT í fyrsta sinn síðan var hún látin í innöndunartækið og svo máttum við fara heim. Á morgun ætlum við svo til okkar eigins barnalæknis. Ísold er búin að vera hitalaus í allan dag og þó hún sitji enn hjá mér lítil og máttlaus eins og litlu simpansarnir hjá mömmum sínum(sem maður sér í dýragarðinum) finnst mér eins og hún sé á batavegi.

föstudagur, 14. apríl 2006

páskaveikin

Ísold enn frekar lasin, við lentum í erfiðleikum með að fá læknishjálp í gær. Læknirinn okkar var í fríi þannig að við pöntum leigubíl á spítala sem var mælt með fyrir Ísold af bandarískri móður, þegar þangað er komið og við loksins búin að finna Erste hilfe- er okkur sagt að fara yfir götuna í annað hús þar sem barnalæknir gæti tekið á móti okkur....skrýtin bráðamóttaka þar. Jæja þar taka á móti okkur tvær konur, önnur með útlit bolabíts og hin með fýlusvip aldarinnar. Þær kannast engan veginn við þessi evrópukort og eru mjög stífar og leiðinlegar. Þref og nöldur hélt áfram með þessu þjóðlega þýska fúllyndi og ómannlegheitum. Ísold var með háan hita og máttfarin, ég var komin með tárin í augun og Arnar bálreiður. Þegar við vorum orðin vonarlítil um að fá læknishjálp sagði Arnar að við ættum bara að flytja til Danmerkur sem ég játti strax. Jú á endanum komumst við svo inn á eftir öllum þarna inni auðvitað og læknirinn var kvenkyns dr Gunni, rauðhærð og indæl. Hún greindi Ísold með Bronkítis og gaf henni einhverja mixtúru, síðan hefur hitinn verið nokkuð hár og hóstinn slæmur.
Teiknimyndirnar s.s í algleymingi um páskanna setti inn nokrar myndir af dömunni í apríl og einhverjar írlandsmyndir að auki, skoðið myndir.

miðvikudagur, 12. apríl 2006

skýrslan

í dag var hráslagalegur dagur í P.Berg a.m.k sýndist mér svo út um gluggann. Ísold mín varð lasin í nótt hiti og hósti þannig að við dvöldum heimavið. Litla skinnið hefur ekki oft orðið lasin þannig okkur öllum er alltaf jafn mikið brugðið. En við horfðum saman á teiknimyndir bernt og ernie einnig bara þýska teiknimyndasjónvarpið sem er í gangi allan daginn- þar er Spongebob Shwampkopf í uppáhaldi.
Arnar fór að tala við merka hljómsveit frá Finnlandi(spurning hvort ég megi ljóstra því upp en þeir eru síðhærðir og spila metallica á strengjahljóðfæri...) Á meðan fengum við góðan gest frá Kreuzberg/Neuköln kenndur við japanskan slopp sem hitaði þetta yndislega kaffi. Annað af hversdagslífinu er það að frétta að póstþjónustan virðist eiga fullt í fangi með að koma til okkar pökkum frá fróni. Ísold fékk t.d yndislegan maríubjölluregngalla(maður næstum því óskar eftir rigningu) frá afa sínum og ömmu á Sólvöllum, svo fékk hún í dag ekta lopapeysu frá föðursystur minni í Vestmannaeyjum. Stúlkan er sem sagt allra veðra búin.
Þar til næst.

mánudagur, 10. apríl 2006

farwell my concubine

áttum yndislega daga með Tinnu, Eiríki og Vöku sem mér fannst auðvitað allt of fáir. Við kvöddum þau með trega. Berlín á sólskindegi með Tinnu minni er nú bara fullkomin. Dýragarður, risaeðlusafn mínus risaeðlur(hum hum), múr, brandenborgarhlið, góður matur , cosmopolitan(auðvitað) og svo tsill í Prenzlauer Berg með tilheyrandi máltíð á dásamlegu pönkpizzunni. Ekki var það verra að þau komu færandi hendi íslenskt sælgæti frá mömmu og rúsínan í pylsuendanum yndislega rausnarleg afmælisgjöf frá mínum heitelskuðu Brynju, Tinnu, Þorgerði og Þuru(og þeirra fylgdarliði). Hvað skal segja þessi gjöf var ótrúlega vel úthugsuð(aðeins of vel kannski;)) og ég varð eiginlega orðlaus. Mér finnst auðvitað mest um vert hvað ég á góðar vinkonur og hvað þær hugsa vel um mig. Sakna ykkar stelpur(og fylgdarlið) takk kærlega fyrir mig.

sunnudagur, 2. apríl 2006

Adam Green, me likey!

mmm
Fór í mínu eigin kompaníi á Adam Green tónleika á föstudagskvöldið. Á meðan sá húsbóndinn um að taka á móti gestinum okkar frá íslandinu.
Tónleikarnir voru æði; vera ein með sjálfri mér, kíkja í bók í lestinni, handsome newyork kúl adam, röddin hans dýpri en ég veit ekki hvað og hljómaði allt saman mjög vel með strengjum í undarlega löguðu tempodróm. Þjóðverjarnir virtust voða hneikslaðir á drykkjulátum og dónabrandaratali Greens. Við Íslendingar auðvitað öllu vön og ég grunaði hann reyndar um smá ýkjulæti til að falla sem best í newyork kúl stereótýpuna.
Helgin var svo tileinkuð gestinum okkar og vorinu. Það merkilega við borgina er að hún er gígantísk, fórum í nokkuð langa göngutúra og erum enn að sjá nýja staði bæði yndislega fallega, rómantíska en líka þunglyndislega og hráslagalega. Sólin hefur svo algerlega skinið, allt virðist einhvern veginn skýrara, borð eru komin á gangstéttar og meira segja brum á trén...Þetta er allt að koma. Dagurinn toppaður með hörputónleikum í heimahúsi þar sem söngfuglinn okkar stóð sig með ágætum....þó hún þegði nú ekki á meðan á spileríi stóð voru það aðeins lágvær tíst og hljóð sem hljómuðu í takt við tónlistina.
Gærkveldið var reyndar sögulegt að mörgu leyti fengum yndislegu barnapíuna okkar til að líta eftir söngfuglinum á meðan við sýndum Ívari Berlin by night og mamma mía, by night var það. Ætla ekki að fara mjög nákvæmlega út í þetta allt saman en Cosmopolitan, Zebra-strúta-krókódílakjöt, Mick Rock sjálfur mættur með ljósmyndaopnun með Bowiemyndir í aðalhlutverki....og hvað svo þetta hefði nægt en nei. Kareoki á Centrale randlage við þrú ásamt 7 austurþjóðverjum tókum ýmis lög og upplifðum súrealismar ddrstundir. Arnar auðvitað fljótur að tryggja sér lady in red og bætti um betur með phil collins og eric clapton lögum. Ívar var duglegur í Bítlunum en ég sló líklega öllum út í fallega lagleysinu mínu. Eftir nokkra tíma þarna flúðum við út þá vorum við kærustuparið nýbúin að syngja WIND OF CHANGE með Scorpions
....já þetta kunnu austur þjóðverjarnir upp á hár að minnsta kosti. Ekki var hægt að sleppa 8millímetrum en hann hefur gjörsamlega verið hertekinn af ungum reykvíkingum undafarna mánuði. Ævintýrin gerast í henni Berlín.

þriðjudagur, 28. mars 2006

komin heim í Berlínarvor.

Við mistum sem sagt ekki af vélinni og komumst heil heim. Þar var hellidemba þegar við lentum en seinna um daginn þegar litum út aftur varð orðið hlýtt, svona útlandahlýtt. Já þá var vorið komið. Heimilið bar greinilega merki einhvers konar vetrarleiða þannig að við einhentum okkur í alls herjar hreingerningu og stúss. Við ísold höfum nú farið í tvo daga í röð út á Helmholtzplatzleikvöllinn þar sem við hittum alla hina hýðisbirnina(Prenzlauer Berg börnin) með foreldrum sínum. Borgin virðist öll vera lifna við og ég hef meira að segja séð þýsk bros hér og þar. Ísold hefur ekki umgengist neitt marga krakka þannig að hún horfir á börnin eins og þau séu geimverur. Planið er að fara á Helmholstz sem oftast svo er auðvitað spurning hvenær rofi til í leikskólamálunum.
Já það er bara ljúft hérna í Berlín og við erum að fá gesti að heiman í fyrsta sinn á þessu ári. Fyrst Ívar Páll og svo Tinna, Eiríkur og Vaka. JEIIIJJJJJ.
Setti inn nokkrar myndir úr ferðinni undir tagið Írland. Sprengdi kvótann auðvitað þannig að þetta er aðeins sýnishorn.

laugardagur, 25. mars 2006

Cliffs of Móheiður


Cliffs of moher!!!(móheiður)
Jæja þá erum við að fara heim. 'Eg á nú eftir að skrifa nokkrar færslur í ferðabloggið en svona yfirhöfuð var þetta mjög góð ferð. Nú sit ég á bogbinu ætti að vera farin upp í rúm því við fljúgum klukkan sjö í fyrramálið en kl eitt í nótt verður tímanum flýtt um eina klukkustund bæði hér og í Berlín. Þetta finnst mér ákaflega ruglandi veit eiginlega ekki hvort ég tapi, græði eða hreinlega missi af vélinni.whatever
Fyrir um ári síðan byrjaði ég á þessu bloggi þá var ég eitthvað að þvaðra um bobby fischer og setti inn nokkrar myndir af dömuni þá tveggja-þriggja mánaða. Sú síðastnefnda hefur tekið heljarstökk í þessari ferð og er orðin að mér finnst ofsalega skemmtileg lítil stelpa. Það nýjasta er að æpa LALALALA þegar hún er að syngja með tónlist, dansar mikið og ruggar sér við tónlist svo er hún ægilega hrifin af þeim dýrum sem við rekumst á og í morgun sagði hún voff við hundinn hér á gistiheimilinu.
En maður er víst búin að missa af heilmiklum fréttum og dóti, herinn búin að gefast upp á íslandi og það að ég gekk einu sinni keflavíkurgönguna með ömmu og ömmubróður hafði víst lítið að segja um þá ákvörðun. læt vita af mér í Berlín.

þriðjudagur, 14. mars 2006

komin til fyrirheitna landsins

loksins loksins, hvers vegna ég hef ekki komið til Írlands fyrr skil ég ekki. En hér er dásamlegt að vera.Við familían ákváðum að halda smá dagbók um ferðina og mun hún vera birt á öðru bloggi. Arnar er með upphafsgreinina sem er auðvitað skrifuð af stakri snilld. Lesið og engan gúnguskap gefið okkur eitt komment við og við þið munuð ekki sjá eftir því.
Hins vegar erum við nú á leið út södd eftir írskan morgunverð því 17. mars hátíðarhöldin eru löngu byrjuð hér í Dyflinni. Jíha ég á afmæli bráðum og hér eftir mun ég alltaf halda upp á paddys vikuna og ekki bara daginn.....lovely.

laugardagur, 11. mars 2006

lederhose


lederhose
Originally uploaded by pipiogpupu.
Nú er undirbúningur fyrir Írlandsferð á fullu en ég gaf mér smá tíma til að mynda barnið(hef verið beðin um myndir tvisvar í draumum. Ég hlýði því þessum draumadísum). Ísold er greinilega orðin fremur þreytt á þessum módelstörfum endalaust og nennti því ekki mikið að sitja fyrir. Með útsmogni náði ég þó nokkrum góðum sem eru á flickr myndasíðunni minni. Ég hvet því alla til að skoða myndirnar, ekki á hverjum degi sem maður ber alvöru lederhosen augum, eða hvað? læt heyra í mér áður en hinn mikli st. patricks day rennur upp!! En hér eru Marsmyndir

miðvikudagur, 8. mars 2006

alles in ordnung

Sagði læknirinn um Ísold, eftir þó nokkra bið og umræður um hvað skyldi gera ef við værum hunsuð í röðinni. En við teljum okkur hafa orðið fyrir mismunun á þessari læknastofu. Þegar röðin var komin að okkur vorum við í startholunum, en nei þá var Ísold kölluð upp.
Jæja síðan var farið að borga reikning og kaupa nýjan Gsm síma því minn hefur sagt sitt síðasta. Ég veit svo sem ekki hvað skal segja en eftir nokkura tíma viðveru í símabúðinni, eins klukkutíma bið á nálægu kaffihúsi gekk ég út með nokía síma. Þetta var ekkert auðvelt og mér tókst að selja T-mobil sál mína og þeim tókst að plata mig herfilega(held ég) og tala við mig eins og ég væri illilega heiladauð. Það virðist vera alveg sama hversu ákveðnar hugmyndir maður fer með í búðina þeir vilja algerlega segja manni hvað maður þarf og það er greinilega aldrei að marka þessar !"$$!#!$ auglýsingar í gluggunum. Prógrammið allt saman tók eiginlega allan daginn, þegar heim var komið hringdi ég í ogvodafone á Íslandi og breytti gamlanúmerinu í frelsi sem tók 1 mínútu. Það er á svona stundum sem maður hugsar til heimahaganna með pínu söknuði. En hvað um það það eru 3 stig í Berlín 4 í Reykjavík og 9 í Dublin....jeij.

þriðjudagur, 7. mars 2006

Leist vel á þetta próf hjá henni Evu. Er ekki orðið tímabært að vita eitthvað hvað maður vill verða þegar maður er orðin stór.

You scored as Art. You should be an Art major! How bohemian!

Dance

92%

Art

92%

Linguistics

75%

English

75%

Journalism

75%

Philosophy

67%

Mathematics

67%

Sociology

50%

Theater

50%

Anthropology

50%

Psychology

50%

Biology

33%

Engineering

33%

Chemistry

0%

What is your Perfect Major? (PLEASE RATE ME!!<3)
created with QuizFarm.com


Dans, já einmitt er það ekki bara málið.
Ég hlakka annars bara til Írlandsferðar.
Ísold er kát og farin að klifra upp um stóla og sófa þetta hefur að sjálfsögðu í för með sér litla marbletti og kúlur.

föstudagur, 3. mars 2006


Snjór snjór snjór undafarna daga sem tókst meira að segja að lenda á jörðinni. Arnar kom heim rokkaður og glaður, við mæðgur afskaplega glaðar en líklega vegna vorleysis urðum við báðar pínulítið slappar. En fréttirnar í dag eru þær að við höfum pantað flug og bíl(fullorðins, ha?) til eyjarinnar grænu??? já Írlands þar sem við munum þvælast um og halda upp á stórafmæli mitt. JIBBÍ og ÚHA ég hlakka ekkert smá til, ótrúlegt en satt þá hefur þetta verið draumur lengi hjá okkur Arnari í sitt hvoru lagi og nú á bara láta verða af því ;) enda verður maður ekki þrítugur á hverjum degi(ráðgátan um aldur mhg hefur verið leyst).

þriðjudagur, 28. febrúar 2006

Púff, það er 5 stiga frost úti og það snjóar, er vorið ekki að koma? Kannski kemur það á morgun með Arnari að minnsta kosti get ég eftir hvorugu beðið. Við mæðgur höfum haft það gott. Ég hef meðal annars komist að því að við mæðgur erum báðar mjög hrifnar af nýju Beth Orton og hún hefur sungið viðstöðulaust fyrir okkur í þennan tíma. Svo finnst okkur voða gott að kúra undir sæng fyrir framan Sesamestrasse að morgni dags. Á hinn bóginn finnst mér pínu mál að burðast bæði með Ísold og búðarpoka upp á fimmtu hæð og það undarlega við þetta er að mér finnst þolið mitt ekkert vera að aukast. Svo sakna ég hlýjunnar í rúminu á nóttinni og að ég þarf ekki að þrílæsa útidyrahurðinni og stara á litla ljósið í eldhúsinu til að sofna með Aet mér við hlið. Hins vegar er ég búin vera gera smá forsmekk að vorhreingerningu(ekki segja honum) þannig að allt verði spick og span þegar hann kemur. En mest langar mig í svona svona til að minnka álagið og gera heimilið bleikara.

sunnudagur, 26. febrúar 2006

morguninn


Vaknaði við að Ísold stóð upp í rúminu sínu og æpti á sinn einstaka hátt. Þá var farið á fætur með en semingi þó. Hafgragrautur látinn malla, lýsisflaskan tekin úr ísskápnum. Eitt stykki kúkur þrifið af rassi barnsins og hún látin í sunnudagsfötin. Sest við eldhúsborðið, ég enn í náttkjól(verð að fá mér fleiri sunnudagsföt til að eiga í við dömuna). Síðan var pínutiltekt og bert og ernie sett í gang. Ísold farin benda endalaust á vídeótækið þegar þeir eru ekki í gangi. Arnar hringdi svo í okkur mæðgur og fengum að heyra frá rokkævintýrum hans í Leipzig, Ísold sagði halló og kyssti símann(hún kann sig).Og hvað á svo að gera á þessum annars snjóhvíta morgni- ja ætli við höldum okkur ekki bara innivið,þrífum og huggumst. Fékk ferskan aspas á markaðinum í gær, og er að spá í metnaðarfulla súpugerð.
Aspasinn fengum við á uppamarkaðinum við Kolwitz. Markaðinn sækja nýorðnir foreldrar á aldrinum 3o og eitthvað til 40 og eitthvað, þeir eru langflestir með buggaboo barnavagna sem er rándýr og er líklega stöðutákn þarna í hverfinu. Ilmur af blómum, kryddum og nýbökuðu brauði umlykur mann þannig að ég stóðst ekki mátið og keypti alls kyns grænmeti, mangóávöxt og finnskan lakkrís þó verðið sé ekki í lægra lagi. Nokkrir cúrríwurstbásar eru þarna inn á milli og á einum þeirra var boðið upp á Kolwitz yuppie menu sem inniheldur auðvitað cúrríwurst með brauði(berlínskur skyndibiti) franskar og Kampavínsglas(kostaði tíu evrur sem er nú ekki gefið), Ég hins vegar lét mér nægja eina kúrríwurst enda búum við nær Helmholtzplatz( sem hefur enn ekki náð þessum standard).

föstudagur, 24. febrúar 2006

groundhog day

Jú við spjörum okkur stúlkurnar hér á Danziger, enda þýðir ekkert að vera með einhverja kvenrembu annars.
Í gær var einn liður í að vera sjálfstæður kvennmaður í stórborg settur í framkvæmd, ég hætti mér út fyrir hverfið og það þýðir að fara upp og niður stiga með barn og kerru. Tilgangurinn var að fara til Saturn og ná í tæki sem var þar í viðgerð. Á leið þangað tók ég eftir að ég var með pöntunarnúmerið en ekki sjálfa kvittunina og hugsaði sem svo að þeir hlytu að gefa mér séns. "kein problem" sagði maðurinn í afgreiðslunni þegar ég sagðist ekki vera með tiltekna kvittun en eftir að hafa fundið gripinn og litið á skilríkin skiptir hann skyndilega um skoðun og biður um pappírinn. Nú hugsa ég og reyni að stauta út úr mér að hann hefði ekki þurft þessa pappírs fyrir mínútu síðan. Auðvitað tekst það engan veginn, maðurinn horfir stífur á mig og bregður ekki svip," kannst du englisch sprachen" segi ég "Nur deutsch" hreytir hann út úr sér. Óþolinmóður kúnni býður fram túlkaþjónustu sem afgreiðslumaður afþakkar því hann þurfi aðeins þennan"#%#$"#$ pappír. Og hvað gerist þá suður frakkinn/íslendingurinn eða hvað það er kom upp í mér og ég þaust út hrópandi I hate you german people YOU ARE SO (smá hik var að hugsa fasisti) en sagði UNPOLITE...hum. Auðvitað rauk ég í ubahnin og tveir velviljaðir þjóðverjar hjálpuðu mér sitthvoran stigann með kerruna, hljóp og náði í pappírinn fór aftur í ubahnin fimmti þjóðverjinn þann daginn hjálpaði mér með kerruna upp stigann og síðan sá sjötti á potsdamer. Enn var ég engu að síður að blóta allri þjóðinni þó þann daginn hefði heill tugur séð af dýrmætum tíma sínum til að bera kerruna fyrir mig upp eða niður stiga á lestarstövðum. En hvað um það tvær ferðir á Potsdamer Platz sama daginn, Ísold sofnaði í fyrstu ferðinni á leið til Potsdamer og vaknaði ekki fyrr en í seinni ferðinni á sömu leið. Já svona líða dagarnir í Berlín þar sem er nota bene alltaf mun kaldara en í Reykjavík.

fimmtudagur, 23. febrúar 2006

roadtripp með Abba

Sitjum hér mæðgur að morgni dags á Danziger, Í gær fór ég til Hamborgar að leysa út þorramat(ekki spyrja, á einum tímapunkti stóðu nokkrir íslendingar yfir einum kassa af þorramat í bílskotti og voru að velta fyrir sér magn hákarls, þetta leit nú mest eins og eiturlyfjaviðskipti.). Þó stoppið í borginni væri stutt var gaman að sjá aðra borg, finna sjávargoluna og ekki amalegt að fara í roadtripp um þýskan autobahn. Við neyddumst til að hlusta á þýska útvarpið allan tímann þar sem engin var geislaspilari. Eftir akstur fram og til baka leið mér eins og ég væri búin að hlusta á ABBA(sem mér finnst reyndar fín hljómsveit en í hófi) í tvo sólarhringa, þessi tónlistarsmekkur þeirra hér getur gert hvern mann vitlausan.
Í dag er Arnar hins vegar á leið til Frankfurt, hann fór löngu fyrir sólarupprás og er að fara í rokkferðalag með kimono. Jæja maður hefði nú haldið að ég myndi sleppa við svona rokkútstáelsi þar sem unnustinn er ekki í hljómsveit en nei nei, svona er rokkið víst. Við mæðgur verðum því einar í næstum viku. Planið er að hafa það mjög huggulegt, leita að uppskriftum sem innihalda hindber, horfa á bert og ernie í sesamestrasse( Ísold dýrkar þá og Arnar líka reyndar) og aldrei að vita nema einhverjir kíki í heimsókn.
frúin í Hamborg

sunnudagur, 19. febrúar 2006

Konudagskaffi og afmæli

Afmæli Arnars míns í gær, sem byrjaði með sólarglætu inn um gluggann og sólskinsbrosi frá tveimur stúlkum. ísold gaf föður sínum fallegan pakka með innrömmuðum myndum af þeim feðginum. Síðan var tekið til við að vaska upp, hlaupa út í bakarí og eiga síðan ljúfa stund við afmælisborði. Við fórum svo í göngu um hverfið og virkileg vorlykt var í lofti að sjálfsögðu næg til að Arnar færi skyndilega úr að ofan og ekki í fyrsta skiptið þann daginn - ótrúlegur maðurinn. Kvöldið var með vinum (og ókunnugum), bjór og pizzu( klassískt) og haldið á krútthátíð glöð í bragði.
En hátíðunum linnir ekki því í dag er konudagur, já og meira að segja þjóðlegur. Hann byrjaði svipað þó fólk hafi verið ryðgað. Ísold var í það minnsta sett í kjól sem tvær konur gáfu henni í afmælisgjöf, þær Brynja og Þorgerður og var hún valkyrja dagsins. Þegar við svo konur heimilisins fengum tíma einar buðum við óvænt tveimur öðrum konum, þeim Eddu og Önnu Líf í konudagskaffi. Vaskað var upp, lagað til eftir litlu valkyrjuna og bakaðar heilsupönnukökur með ólífuolíu og sojamjólk. Konumál rædd í þaula- það er hreinlega ekki tekið út með sældinni að vera kona í dag.
Um huga minn flæddu ýmis konumálefni:
Í fyrsta lagi finnst mér sorglega mikið af ungum konum hreinlega fyrirlíta konur sem skilgreina sig m.a. sem femínista. Hvers vegna er mér stundum óskiljanlegt. Nei maður hendir ekki öllu skarti og hégóma og fer í rauða sokka, maður vill aðeins að konur(dætur) fái tækifærin öll(launin; athyglina; sjálfstæðið) , ekki til að vera karlar í karlaheimi heldur til að fá tækifærin sem kona.
Ég er orðin leið á karlrembubröndurum sem fjalla aðeins um að femínistar séu húmorslausar og bitrar rauðsokkur. Hvað þá þegar einhverjir karlar eða konur segja manni að það sé manns náttúrulega ástand að þrífa og skúra gólf og rökin eru þau að jú stelpur vilja vera í bleiku frá barnsaldri og vilja leika sér að dúkkum og straujárnum - vond rök þar.
Í öðru lagi er húsmóðurstarfið farið að íþyngja sálarlífi mínu finn mig ekki í endalausum þvottinum, ég vil fara gera mína hluti, udvikla mig. Allt í einu finnst mér kaldhæðnislegt að hafa skráð mig sem húsmóður í símaskránna í bríaríi með góðri vinkonu, fannst það gott mótvægi við spjátrunga sem vilja skrá sig sem lífskúnstnera eða snillinga(og hafa enga innistæðu fyrir því). Ég er ekki kona og barn, ég heiti Móheiður og ég á dóttur.

þriðjudagur, 14. febrúar 2006

Heilagur Valentínusí dag keypti ég afskaplega litaglaðan skúffuskáp fyrir stofuna og í gær fjárfesti ég í rósabúnti í plús, hjartalaga osti og tveimur konfektmolum handa manninum sem talaði við Mr Cave í dag. Ég hlusta ekki lengur á þjóðernishyggjuhátíðarhaldara sem vilja aðeins halda upp á eitthvað ef það var gert í den í moldarkofunum. Reyndar langar mig að ganga skrefinu lengra og fara safna hátíðisdögum úr sem flestum menningarheimum. Þessi endalausa lúterska nægjusemi "það eru ekki jól á hverjum degi" er að gera út af við mig. Ég veit að það er haldin kúluskítshátíð í Japan( heil hátíð vegna þörunga þarf betri ástæðu), svo væri hægt að halda upp á rússnesku jólin og kaupa jólagjafir á útsölunum, nú svo er kannski hægt að halda upp á nýárið með kínverjunum(og kínverjum) og gert aðeins auðveldari nýársheit. Svo væri hægt að halda ramadan með múslimum og líta á það sem heilsuátak.En það má alls ekki gleyma aðaldeginum nefnilega Heilögum Patreki;) sem er á næsta leiti.
Ps. ef þið vitið um einhverja góða hátíðisdaga, látið mig vita.
.

mánudagur, 13. febrúar 2006

u-bhf Eberswalder strasse


u-bhf Eberswalder strasse
Originally uploaded by pipiogpupu.
Við tökum ekki bara myndir af barninu þó hún sé endalaus uppspretta myndefnis. Tók nokkrar myndir af hverfinu í gráum litum því þó sé orðið frostlaust þá er enn vetrargrámi yfir öllu saman og jafnvel svolítið ófókuseruð stemning í gangi.

laugardagur, 11. febrúar 2006

föstudagur, 10. febrúar 2006

framtíð óskast

plön mín fuku út um veður og vind, nú vantar mig einhverja framtíð og það pronto. En nú langar mig helst að grúfa mig djúpt undir sæng og þegar ég vakna verð ég í rauðu bárujárnshúsi blár reykur liðast um og ég heyri blaðsíðum flett ótt og títt.

miðvikudagur, 8. febrúar 2006

hiti og klukkan

var sem sagt klukkuð af tveimur Eðalstúlkum, þeim og Eddu og Evu þannig að ég get ekki skorast undan.

Fjórar vinnur sem ég hef unnið við:
Guide/leiðsögumaður um ísland.
Unnið á fjórum leikskólum og nú síðast á Barónsborg sem var einkar ljúft
Menningarritari franska sendiráðsins, mjög súrt.
afgreiddi í hinni goðsagnakenndu plötubúð Japís.

Fjórar bíómyndir sem ég get horft á aftur og aftur.

Fyrst ber að nefna allann katalóginn hjá hjartaknúsaranum Woody Allen.
La boum, frönsk unglingamynd í hæsta gæðaflokki með Sophie Marceau.
Love actually
la double vie de Véronique(hljómar kannski yfirlætislega en ég held bara rosalega mikið upp á þessa mynd)

Fjórir staðir
Ólst að mestu upp á La petite chartreuse,15 í Aix-en-Provence
á nokkrum stöðum í kópavogi Þ.á.m Skjólbrautin og Holtagerðið sem voru fastir punktar
í mínu flækingslífi sem barn.
á Egilstöðum
Rue de Paris í París hvar annars staðar
Í Reykjavík á þónokkrum stöðum, Bleika húsið á laugaveginum var náttúrulega stórbrotnast með klóssettið úti og stundum varð ég að moka snjó til að komast þangað inn. Já og að lokum Danziger,Berlin. komin vel yfir fjóra staði en trúið mér þetta er stytt útgáfa.

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég fíla
My ó my ....SIX FEET UNDER ég gjörsamlega dýrka þá og við erum rétt að byrja á 1. seríu
Sex in the city
twin peaks, þó ég hafi aðeins séð 1. seríu.
desperate houswifes

Fjórir staðir sem ég heimsótt í fríum
Færeyjar
ástralía og japan(með mömmu)
austurríki, þýskaland og tékkland(í hinu margrómaða bakpokaferðalagi um hjarta evrópu sem við arnar fórum í um árið)
London þegar Arnar hélt upp á stórafmæli

fernt matarkyns

cous cous(hjá mömmu)
mousse au chocolat
grónagrautur (hjá ömmu í skjólinu)
jarðaber

Fjórar heimasíður sem ég skoða daglega
Nú það er bloggyfirferðin
gmailið
mbl.is
ruv.is(hef saknað fréttanna upp á síðkastið

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á
á tíu dropum með stelpunum
á suðrænni eyju
í fjallakofa í ölpunum
á sígrænu írlandi

fjórir bloggarar sem ég klukka
Tinna
Tinna
Baldur
Stella


Annars ætlaði ég að láta ykkur veðuráhugamenn vita að það er búið að vera frostlaust í tvo heila daga Júhú, sem er mjög fín tilbreyting. Lenti hins vegar í alvöru íslensku slabbi í fyrradag á hjólinu, algjört helvíti en nú get ég gengið um í fínu gúmmístígvélunum mínum.
Í þessum skrifuðum var dóttir mín að hvolfa hálfum pastapoka á gólfið svo að síðar.