laugardagur, 29. desember 2007

ó jólajól

Stundum eru þessi jól hérna á íslandi alveg of, allt þetta endalausa konfekt sem ég hef talið mér trú um að ég megi borða vegna þess það eru jólin. Ég er farin að ilma af gröfnum lax og appelsíni. Neinei þetta er hætt að ganga svona það er massíft átak...eftir jól. Já ég er sokkin í þetta íslenska ástand, ég held ég sé að fá postjólamelankolíu sem er orsökuð af ofneyslu á súkkulaði, lax, kjöti og gjöfum(sem ég er afskaplega þakklát fyrir). Snjórinn, já jólasnjórinn hann var sko velkominn, hann er æði.
Annars fór ég í íkea í dag hafði þangað ekkert sérstakt að sækja, útsalan í íkea er aldrei neitt rosalegt en tókst að koma heim með ilmkerti. Eitt ilmar af jarðaberjum og hitt af súkkulaði, nú fær nefið eitt að njóta lystisemdanna á meðan ég fæ mér hrökkbrauð og vatn. Og ég sem hélt að ég vildi hafa jólin alltaf, það er bara ágætt að hafa þau einu sinni á ári, sérstaklega í landi þar sem þau eru í fullkomnum yfirgír.

mánudagur, 24. desember 2007

gleðileg jól allir

sem villast á þessa blessuðu síðu...
Helsta afrek mitt fyrir þessi jól var að skrifa mína fyrstu málfræðiritgerð!! Henni var skilað í skjóli nætur aðfararnótt Þorláksmessu. Þorláksmessa fór í að undirbúa jólin, fór reyndar í bæinn í gærkveldi og hélt að það væri mitt síðasta. Jæja ennþá helling eftir .....

fimmtudagur, 20. desember 2007

sveimérþá

Afmæli skipta máli, eins árs skottan borðaði eins og hestur í dag sagði pólska matráðskonan mér og líka hérna heima í kvöld! Svo er hún eiginlega bara farin að labba, stendur, labbar fimm til sex skref, dettur,skríður og stendur upp á ný. Og nú næstu einu og hálfu vikuna á ég eina eins árs og eina tveggja....úlala

miðvikudagur, 19. desember 2007

Karólína eins árs í dag, jibbí!!!

Litla jólabarnið okkar á afmæli í dag, hún fór með banana og piparkökur í leikskólann. Það þarf líklega ekki að ítreka það hve yndisleg lítll hnáta hún Karólína er. Einstaklega geðþekk, klár og kát. Á sunnudaginn síðasta héldum við upp á afmælið fyrir familíu og vini, bökuð var múmínafmæliskaka. Fengum Sólu sem sérstakan eplaskívubakara og jólaglöggsbruggara og ekki nóg með það heldur gaf hún henni múmínpiparkökuhús sem er ekkert smá flott. Við er líka afskaplega stolt af stóru systurinni sem var afskaplega myndarleg að hjálpa til við að baka og undirbúa afmælið. Ísold var ekkert afbrýðisöm þó Karólína væri miðpunkturinn og samgladdist litlu systur á afmælinu. Í dag er svo jólaball hjá Ísold og afmæliskaffi hjá Karólínu leikskóla s.s. hátíð út um allan bæ. Mér finnst hálfótrúlegt að sé liðið ár frá fæðingu Karólínu, litla barninu mínu.

Karólína


Karólína, originally uploaded by pipiogpupu.

fimm daga


fimm daga, originally uploaded by pipiogpupu.

þriðjudagur, 18. desember 2007

Jólahvað!!!

omg eitthvað,einhver hefur sest að í ennisholunni minni. Hún er sum sé ekki lengur hola hún er full af einhverju sem veldur mér sárum höfuðverki. Það sem hjálpar ekki er að setningafræðiritgerðin er að reyna á allar mínar heilasellur(þær tíndu og lömuðu líka). Mér líður eins og ég sé að togna í hausnum, er hægt að fá teygjubindi fyrir hausa...?
Aldrei hefði mér dottið í hug að ég myndi einhvern tíman sitja í þjóðdeild þóðarbókhlöðunar og reyta hár mitt yfir bók skrifuð á einhverju norðurlandamáli um fornmál! Nei er hægt að gerast þjóðlegri, held nú varla. Nú megið þið hætta að ávarpa mig á ensku eða tala afskaplega hátt og skýrt við það eitt að sjá ásjónu mína. Reyndar gerðist það í haust að kona ávarpaði mig á íslensku í heita pottinum í sundhöllini, ég hikstaði og var næstum búin að segja mottóið mitt,ha, ég er íslensk....ég hef bara dvalið langdvölum erlendis;)konan horfði á mig eins og ég væri nýsloppin af kleppi.
Ég bað bókasafnsvörðinn um að fá að ljósrita upp úr þessari merku bók en til að nálgast hana þurfti ég að aðlaga mig að lífi san quentin fanga á death row. "Það stendur hér hvernig þú ferð að" sagði konan og benti á plastað blað á afgreiðsluborðinu. Síðan fyllti ég út í þríriti hver ég væri,trúflokk og hvaða blaðsíður ég vildi fá ljósritaðar. Allt þetta til að vernda bókina...sem kom út 1966 og liggur ekkert undir skemmdum. dísus! Jæja vonandi hef ég tíma fyrir jólin þetta árið. Hverjum datt í hug að skipuleggja próf fyrir jól! það er ömurlegt fyrirkomulag. Ég segi próf í byrjun nóv og síðan í febrúar og laaaaaannnnnnnnngt jólafrí.

föstudagur, 14. desember 2007

systur


systur í bíltúr, originally uploaded by pipiogpupu.

Ísold og Karólína voru heima alla síðustu viku og skiptust á í þarsíðustu, mikið var tekið af systramyndum á því tímabili. Þegar átti síðan að taka myndir af bötnuðum systrum fyrir jólakortið, þurfti 70 tilraunir. Hvað gerðu menn á filmutímum og hvernig halda ljósmyndararnir börnunum kyrrum?
Í dag fór Ísold í sína fyrstu jólaklippingu á rakarastofuna á klapparstíg. Hún stóð sig með prýði, krullur fengu að fjúka (til að fá betri rækt í hárið) og er komin með sæta telpnaklippingu. Í dag fór Ísold í kirkju með leikskólanum svo að við fengum öll ný hlutverk, Karólína leikur jesúbarnið, Ísold er mamman, Arnar er kindin og ég er vitringur(og svo skiptum við endalaust um hlutverk). Þetta finnst kindinni okkar alveg ótrúlega skemmtilegt. Alveg heilluð af leikhúsi og við orðin heilaþveginn af abbabbabb, í því leikriti er hún auðvitað Aron Misti(neisti heitir hann víst). Annars áskotnaðist okkur nokkrar gamlar vídeóspólur úr vídeóleigunni okkar til að hressa upp á úrvalið, og nú er Poppsins(Marý Poppins) mikið uppáhald sem okkur líkar vel því það er fullkomin klassík.
Litla daman er ennþá í þann veginn að fara labba, algjör kelirófa. Þegar hún kemur á leikskólann byrjar hún að faðma fóstrurnar og svo fáum við knús þegar við sækjum hana. Yndi.

miðvikudagur, 12. desember 2007

múmínpiparkökuhús í stormi

Ég hef ástríðufullan áhuga á veðri, ég er alltaf að verða þess meira vör að minnsta kosti að ég gæti talað endalaust um þetta óviðráðanlega fyrirbæri. Ekki nóg með það þá tengist þessi veðurfarsárátta mín heimsendaótta. Það getur ekki verið að þetta stormasama haust sé eðlilegt, hvar er snjórinn, hvar er veturinn okkar? Aðrir sambýlingar mínir deila þessum áhuga frekar takmarkað með mér og sá fullorðni gæti ekki verið meira ónæmur á veðrið(fer út á stuttermabol í mínusgaddi).
Þegar ég var að hlusta á útvarpsfréttamanninn með hörmungarröddina í dag og hann sagði mér að nú væri það staðfest norðurpóllinn verður líklega allur bráðnaður 2013! Og ég sem hélt við værum seif næstu hundrað árin, hvað meinar maðurinn með þessu. Í kjölfarið heyrðist í útlenskum heimsósómaröddum sem sögðu nú væri ekki lengur tími til að ræða málin, það yrði að kalla saman þing tafarlaust og fá öll lönd til að taka þátt, sem sagt stofna nefndir. Á þeirri stundu fannst mér ég reyndar vera stödd í starwars mynd og hætti að hafa áhyggjur af heimsendanum. Ég hélt því bara áfram að reyna klára allt fyrir jólin eins og allir og við stelpurnar vorum meira að segja boðnar í að baka múmínpiparkökuhús í vesturbænum. Í stormsama skammdeginu keyrðum við svo heim hlustuðum á jólalögin á léttbylgjunni og slepptum kvöldfréttunum.

föstudagur, 7. desember 2007

Knútur og Karólína


Um þetta leyti fyrir ári síðan voru Knútur og Wilson Mugga aðalfréttirnar og ég gjörsamlega að tryllast ú óþolinmæði að bíða eftir henni Karólínu minni. Nú er Knútur yfir 100 kíló hamingjusamur og vinsæll húnn í Berlín, líklega höfum við losnað við óboðna gestinn Wilson M. hef ekki heyrt neitt um hann lengi. Karólína er hins vegar hin hressasta rétt yfir sjö kíló að jafna sig á Rs-vírus. Svo er hún þvílíkt í startholunum að æfa sig að ganga og brestur það á líklega á næstu dögum. Systir hennar Ísold er að jafna sig á lungnabólgu og er mikið að teikna portret af fjölskyldunni þessa daganna, hún vill auðvitað fá verkin sín upp á vegg svo að íbúðin er þakin myndum af okkur. En snjórinn er kominn og það er hreint dásamlegt....hlakka til jólanna.

mánudagur, 3. desember 2007

mýrarangist

Án þess að ætla barma mér hefur ákveðinn taugatitringur hreiðrað um sig í brjóstholinu mínu. Ég varð þess áþreifanlega vör í dag í Bónus á Laugaveginum(af öllum stöðum) fann að ég starði heldur lengi á mysingsdollurnar og gat engan vegið ákveðið hvort ég ætti að taka fjólubláu dolluna eða Gotta og þessi viðbrögð endurtóku sig við hverja einustu hillu. Er það upandgo eða drytechlotionfree, pepparkakör eða piparkökur,fjör eða létt mjólk, spínatsalat í poka eða lambhaga í boxi, ýsa eða sænskar kjötbollur svona hélt þetta áfram þar til kaldur svitinn perlaðist fram á ennið og ég farin að ráfa um búðina algerlega stjórnlaust. Tilvistarangistin getur víst dúkkað upp á ótrúlegustu stöðum og komið fram í undarlegum hegðunum. Líklega er afskaplega góð og gild skýring á þessu, litlu skinnin eru enn heldur lasin, ég á að vera byrjuð á ansi mörgu fyrir skiladag í Hí....uhhh guðminngóður þessi færsla gerir mig stressaða. Það var því mjög vel þegið að fá ömmu stelpnanna frá Sólvöllum til að taka vaktina aðeins. Ég tók mér smá göngu í gegnum mýrina að kjarvalstöðum þar náði ég að róa mig aðeins með kaffilögg á meðan ég las fasteignablaðið.

laugardagur, 1. desember 2007

lungu með pest og pönnukökur

Familian fór til læknis í morgun, Ísold og Karólína báðar með lungnabólgu. Ástandið er búið að vera fremur hörmulegt alla vikuna, nokkrar heimsóknir á barnaspítalann með þá yngri sem er jafnvel með asma(en vil samt taka því með fyrirvara þar sem hver læknir hefur sína útgáfur af þessu), sú eldri fyrst grunuð um barkabólgu en versnað eftir því sem leið á vikuna. Við foreldrarnir höfum líka verið lasin með hósta og beinverki. Skólinn minn er í svolítillri hönk út af þessu ástandi en ég vil helst minnst hugsa um það á meðan ástandið er svona. Gerðum okkur því glaðan dag ( þrátt fyrir aum lungu) og við Ísold bökuðum pönnukökur a la muminmamma. Síðan átu allir af bestu lyst enda uppáhaldsmatur margra hér á heimilinu.
Veðrið minnti mig óþyrmilega á prúsneska veturinn þegar við stigum út grátt og ískallt. En ekki bætti úrskurður læknisins, mér fannst í nokkur sekúndubrot eins og ég væri stödd í krankhaus friedrichshein. Annars þrátt fyrir þessa minningu frá slæmum tíma í Berlín erum við orðin nokkuð heit fyrir að kíkja þangað í heimsókn, heimsækja vini, sýna nýjum fjölskyldumeðlimi rólóana og anda prenzlauer hip og kúl loftinu.
Annað í fréttum er að þegar móðir mín var í Bratislava í vikunni, þar sem hún var í hótelherberginu að hugsa um dóttur sína fannst henni allt í einu heyra mjög vel í mér og leit á sjónvarpsskjáinn... nei nei, haldiði ekki að þar hafi ég blasað við í franska sjónvarpinu að tala um fæðingarorlof hið íslenska á frönsku;) ætli ég sé ekki búin með kortérið mitt, glöð að mamma náði því;)