laugardagur, 27. október 2012

tímarugl

Það á að breyta klukkunni í nótt...eða ég held það! Ég er hreinlega ekki að ná þessu...man aldrei hvort það er verið að færa hana aftur eða fram, ég veit þetta hefur eitthvað með sólarljós að gera...ekki eru menn að rugla í manni að gamni sínu, sei sei nei! Eina hugsunin sem kemst að hjá mér er fæ ég að sofa lengur?! Jú svefn er eitt mest áhugamál mitt og mér dettur ekki í hug að skammast mín fyrir það.
Ég er líka mikið að spá hvar þessi klukkutími er tekinn og hvernig hann er settur aftur þegar vorar. Þegar ég vakna á morgun eða réttara sagt þegar stelpurnar tölta á fætur heimta morgunmat og sjónvarp...eða réttara sagt þegar Arnar og stelpurnar eru búin að vera vakandi heillengi og ég dröslast á lappir(svo ég sé nú ekki að fegra neitt) þá verður klukkan einum tíma fyrr en hún ætti að vera...
sem þýðir að ég verð með betri samvisku þrátt fyrir að hafa sofið jafn lengi!? er það ekki?
Ég er auðvitað strax farin að kvíða því þegar þetta gengur tilbaka því þá þarf ég að vakna fyrr til að vakna á sama tíma, eða hvað? ó þetta er svo ruglandi fyrir svona fólk eins og mig sem kann varla á klukku...

fimmtudagur, 25. október 2012

lítið sandkorn

Góðu fréttirnar eru þær að við fundum hleðslusnúruna fyrir myndavélina í dag en við héldum að hún hefði misfarist í landflutningunum miklu. ég var reyndar í þann veginn að fara panta svoleiðis einhvers staðar á netinu...en já sem betur fer kom ekki til þess. Ég er nú nokkuð ánægð að hafa ekki týnt neinu stórkostlegu í þessum flutningum...Já það verður að segjast.
Aðrar góðar fréttir fyrir veisluglaða eins og mig: Halloween og þessi hátíð virðist vera jafn mikilvæg og jólin hér í landi, það er skreytt, það er bakað, það er farið í sparibúninginn, það er sérstök förðun...það er hátíð í borg! Heyrið og haldiði ekki að indverjinn á horninu sé að selja flugelda!!!
Halló(vín) ég er að græða auka jól hérna!
 Annars er þetta mótmælablogg ég er í augnabliks ergelsi við Sykurberg fésbókar...þoli aðallega ekki að vera háð þessu kapítalíska samskiptaeiturlyfi... þetta voru vondu fréttirnar.
áfram góðar fréttir þá er að spá í að hlaða eitthvað af myndunum á flickr er samt mikið að brjóta heilan um stasi/persónunjósnir/þetta með börnin á alnetinu hræðir mig. Pabbi sagði stundum að við yrðum afar óáhugaverð kynslóð fyrir fornleifafræðinga...það væri hreinlega of mikið efni til að fara í gegnum...
Halloween er tekið alvarlega hér í borg

Himinninn oft flottur fyrir utan Harrison

tvöfaldur regnbogi úr skorsteini

Firth of Forth séð frá Kastalanum
Karó sagði í kvöld "this is my sister, the lucky girl"...mér fannst það fyndið, þær pikka upp margar setningar á dag, stundum virðast þær skilja þær alveg stundum ekki!

sunnudagur, 21. október 2012

Skye -Skæslegt

Old man of Storr heitir tröllið þarna uppá fjallinu við gistum hinum megin við sum sé á norðuhluta eyjunnar
Stelpurnar voru varla byrjaðar í haustfríi þegar við brunuðum út úr bænum í átt að skæ, veðurkonan, ein amma sem ég spjalla alltaf við um veðrið á skólalóðinni hafði ráðlagt mér hvaða leið skyldi farið. Við keyrðum sum sé í gegnum Glenn Coe, og glenn þýðir gil. til mikillrar undrunar voru þarna ægileg fjöll sem jú minntu helst til á Ísland og inn á milli voru Loch (vötn), ár, skógar og stórbrotin náttúra. Skosku hálöndin í öllu sínu veldi...
Stelpurnar tvær vanar keyrslum til Akureyrar og Ólafsfjarðar voru furðu þolinmóðar þó stundum væri hnakkrifist, legið í hláturskasti og auðvitað þráspurt "hvenær komum við?". Við foreldrarnir heyrðum allt í einu hversu mikið þeim hefur farið fram í tungumálinu...og það sem meira er þær æfa sig á hvor annari (sem ég hafði ekki séð fyrir)..þannig eftir tveggja mánaða skólagöngu í Skotlandi geta þær sagt að mér finnst furðu mikið og skilja ennþá meira (við getum ekki lengur talað á ensku við hvort annað um leyndó). ég er ekki að gera mér grein fyrir hvernig tungumálið er að síast inn í þær en það er að síast með hreim og öllu, þannig segja þær Tu(2) en ekki tú(2) eins og ég segi og t.d. misskildu þær Isle of Skye sem I love skye en sögðu það samt með fullkomnum hreim.
Þegar við komum loks til skæ var orðið dimmt svo við sáum lítið sem ekkert og vissum varla á hverju við ættum von á. Ég var búin að lesa að nafnið skye, kæmi úr norrænu og vísaði í skýin sem umlykju oft cuillin fjallgarðinn sem er á syðri hluta eyjunnar. Veðurkonan og fleiri voru búin að mæra eyjunna út í eitt. Og jú í stuttu máli Sky er Skæsleg:)
En það sem vakti kannski hvað mesta furðu okkar þarna var hegðun dýra..
Fyrsta sjón okkar á laugardagsmorgni voru Svín og gylta að gera það á já hvað skal segja sinn einstaka svínslega hátt...Okkur varð starsýnt á þetta og þegar stelpurnar fóru eðlilega að spyrja hvað svínin væru nú að gera...þá fór Arnar að útskýra á sinn einstaka hátt hvernig skepnur búa til börn. Það þarf kannski ekki að koma á óvart en hann sér algerlega um þessa upplýsingagjöf (á meðan rannsóknir benda til að það sé yfirleitt móðirin sem sér um þennan þátt) Þegar við fórum svo í Þjóðminjasafnið í Edinborg hér um daginn er heil útstilling af dýrum að búa til börn...þá voru mín börn auðvitað alveg með á nótunum "mamma, sjáðu þau eru að búa til börn eins og svínin".
Hins vegar voru kindurnar á skye mun furðulegri (það er víst ekkert óeðlilegt við það að fjölga sér...og þurfa svínin öruglega að hafa sig alla við miðað við beikonneyslu skota ....), þær eru þarna út um allt og helst á miðjum einbreiðum vegunum...ekki séns að þær færi sig og þurfti Arnar oftar en ekki að finna leið einhvern veginn í kringum þær..ein kindin beið þarna í strætóskýli og mesta furða að þær væru ekki í einum af fjölmörgu rauðu símaklefunum á víð og dreif um afskekkta eyjunna...

þriðjudagur, 2. október 2012

ég þoli ekki þegar (zwei monate í Skotlandi)

ég les blogg þar sem eru langar gloppur á milli bloggpósta...samt gleymi ég pipiogpupu inn á milli og þar eru gloppurnar mun reglulegri en bloggin. Ég þoli ekki þegar mér er kalt á tánum og ég nenni ekki að standa upp og fara í sokka (það er tilfellið akkurat núna)
Annars erum við búin að vera með gesti þessa helgi, Sóla og Steini fengu náðarsamlegast að sofa á gólfinu okkar þar sem dýnan sem við höfðum pantað með flýtisendingu kom viku á eftir áætlun...þ.e. þegar Bryndís tengdamamma mín átti eina nótt eftir af sinni heimsókn. Já ég hringdi að sjálfsögðu og sagði ofurkurteisri konu að svona þjónusta væri bara ekki málið og fékk nokkur pund endurgreidd og samúð...Bryndís nostraði annars svo mikið við okkur að það er svolítið tómlegt hjá okkur núna bæði í íbúðinni og í hjartanu. Hins vegar er jólamaturinn kominn í hús, kynstrin öll af pítusósu, lakkrís, harðfisk og flatkökum, nei það væsir ekki um okkur í skotalandinu. Haustvindarnir farnir að blása (sbr. kaldir fætur) svo ekki sé minnst á haustrigningarnar... Á morgun ætla ég í skógarferð með Karólínu minni í skólanum, báðar eru þær farnar að segja ýmislegt á ensku/skosku og m.a. heilu setningarnar. Er ekki enn farin í hlýja sokka...