sunnudagur, 31. júlí 2011

Risaeðlur í rigningunni

Berlín er yndisleg borg, það verður bara að segjast...Ég veit varla hvar skal byrja.  Stelpurnar okkar eru skemmtilegir ferðafélagar og opnar fyrir þessari ofgnótt nýrra hluta... Á þessum tæpum tveimur vikum hafa þær ferðast með lestum og "sporðvögnum" á hverjum degi. Frumburðurinn hefur labbað daga langa í stórborginni án þess að kvarta... sem kemur móðurinni kannski hvað mest á óvart miðað við hversu bílvædd við erum heima. Þær hafa borðað, falafel á Súdönskum stað, víetnamskan, mexíkanst og auðvitað currywurst sem er nú orðið uppáhald Ísoldar. Leikvöllunum höfum við gert góð skil enda nóg af skemmtilegum og ólíkum rólóum. Einn daginn þar sem við vorum á gangi í Kreuzberg vorum við bókstaflega höstluð af velviljuðum þjóðverja á  hjólaleikvöll...þar sem börn fá hjálm og hjól að láni...fríkeypis og geta hjólað að vild á litlum brautum með litlum umferðarmerkjum og ljósum....ég sæi þetta í anda gerast á fróni, þar myndi líkast til kosta morðfjár inn. Síðustu dagar hafa verið votir svo ekki sé meira sagt, rignt stanslaust í marga sólarhringa en einhvern veginn fær það ekkert sérlega á okkur, á einum slíkum degi skoðuðum við hið frábæra naturkundemuseum þar sem hægt er að finna stærstu samsettu risaeðlur í Evrópu og ýmislegt fróðlegt, stelpurnar voru gjörsamlega að springa úr fróðleiksfýsn og við þurftum að hafa okkur öll við til þess að útskýra heiminn frá tímum risaeðla og til þessa dags. Það sem ég er kannski ánægðust með er að strax á fyrstu dögunum fóru stelpurnar að stinga sjálfar upp á því að fara á kaffihús til að fá sér Croissant (sagt með frönskum hreim) finnst eins og mér sé að takast að skapa litla heimsborgara, og það er bara Prima!

fimmtudagur, 21. júlí 2011

sumar í Berlín

Familían er komin til útlanda...jeij-börnin voru ofurspennt fyrir ferðinni sérstaklega flugferðinni og dýragarðinum, þau voru farin að telja niður í júní. Þegar við fórum loks upp á flugvöll ætlaði auðvitað allt um koll að keyra í tilhlökkun og spenningi. Sú yngri hafði aðeins flogið einu sinni áður en sem ungabarn, sú eldri flaug helling fyrir 2 ára svo minningarnar voru ekki margar um þetta stórkostlega fyrirbæri sem flugvél eða flugferð er. Það er ekki auðvelt að útskýra fyrir spenntu barni að í ferðalögum er maður alltaf að bíða. "are we there yet" er engin klisja, fyrst förum við í flugvél og þá þarf að bíða eftir því að fara upp í flugvélina, síðan þarf að bíða eftir hún takist á loft...síðan þarf auðvitað að sitja í einhverja klukkutíma þar til hún lendir loksins og þá tekur biðin eftir töskunum við, svo er beðið eftir lest og svo framvegis. Allt þetta reynist yngra barni mínu erfitt. "hvenær förum við í flugvélina?" ómaði sum sé allan tíman upp á velli, Síðan fórum við upp í vél þá heyrðist "hvenær fer flugvélin af stað?" loksins þegar flugvélin fór í loftið var barnið sofnað og missti því af teikoffinu...strax og hún vatnaði fór að heyrast "hvenær komum við" á 5 sekúndna fresti þar til við lentum og þá spyr Karólína "förum við núna í húsdýragarðinn?" En og aftur ullum við barninu vonbrigðum með því að útskýra fyrir barninu að fyrst yrðum við aðeins að koma okkur fyrir í Berlín áður en við færum að heimsækja berlínsku húsdýrin í Zoo. Eldri systirin kom inn í landið með opin augu, ekki var liðin mínúta á nýrri grundu þegar hún kallar á okkur og segir  "Sjáiði þennan ofn, ótrúlega flottur" Síðan bentu þær báðar á ruslatunnurnar "mamma, sjáðu þessar flottu ruslatunnur"... Tekið eftir sem flestum smáatriðum en þó sagði Ísold fljótlega, "Berlín er eiginlega eins og Reykjavík!" Hvað sem afkvæmin hafa um þetta allt að segja er hér mikið úrval rólóvalla sem eru nokkrum skörum ofar en heima að gæðum!

föstudagur, 1. júlí 2011

dýfði mér í sjóinn

Í sjónum með hinum fiskunum er best að vera! Allra meina bót, gott við tannapínupúkanum sem hertók líf mitt þessa vikunna og beinlínis lagði mig í rúmið. Sjórinn virkar því sem hið besta verkjalyf og lundarlyfta. Þetta verður sjósundssumarið mikla hjá pipiogpupu og familí. Í Berlín verðum við að láta okkur nægja vötnin með hinum þýsku striplingunum:)-Annars ætlaði ég nú bara að þvaðra um veðrið eins og venjulega. Mikið hefur verið kvartað undan kulda og vosbúð, mófuglar sumir hverjir fóru aftur á suðlægari slóðir, kartöfluvöxturinn er þremur vikum á eftir áætlun...en höfum við ekki bara verið dekruð af gróðurhúsaáhrifunum. Í það minnsta man ég vel eftir mér lítillri þá þótti mér einmitt þetta svala en ferska íslenska sumarveður yndislegt. amma mín í Frakklandi sagði alltaf þegar ég kom heim á haustin "mikið hafðir þú það gott í sumar, ég var gjörsamlega að kafna hérna(í Aix)". Kannski er þetta síðbúna sumar góðar fréttir fyrir jöklana okkar ... og vonandi koma svo mófuglarnir bara næsta sumar og dvelja við.