Hvað haldiði, Móheiður Hlíf var í saumaklúbb í gærkveldi. Þessi ævaforna og vinsæla stofnun í íslensku samfélagi hefur alveg farið framhjá mér hingað til. Á leiðinni í gær fannst mér þetta vera voðalega fullorðins eitthvað, man aðallega eftir einhverjum frænkum og mömmum vinkvenna minna sem töluðu um þessa fundi. Alltaf fremur heilög kvöld og algerlega forboðið utanaðkomandi að vita hvað færi þarna fram. Af öðrum meðlimum saumaklúbbs austur-berlínskra kvenna varð mér ljóst að þetta er líka algengt hjá ungum píum meira að segja frá tólf ára aldri, já viti menn. En eins og gefur að skilja get ég ekki sagt meir um þessa mjög svo skemmtilega kvöldstund nema að ég prjónaði um 10 umferðir á bleikgylta treflinum mínum, ÚHA....
Í dag héldum við skytturnar þrjár út úr húsi til að skoða hipp og kúl pönkara hverfið Friedrichshain. Fórum með tramminum að Frankfurter tor, þar skerast tvö hrikalega mikil breiðstræti þau Varsjávarstræti og Karl Marx allee með tilheyrandi stórgerðri arkítektúr. Við lölluðum okkur inn í lítið, eilítið grófara umhverfi en í PB en ósköp vinalegt hverfi(hverfin hér í borg eru mjög misjöfn og fólk getur talað um hverfið sitt og borið saman við önnur út í hið óendanlega). Pönkararnir voru þarna á hverju strái afskaplega vinalegir flestir þó einhverja snoðhausa þóttist ég nú sjá. En greinilegt þó að hverfið er á uppleið svona vinsældar og verðlega séð þó það sé alls ekki orðið svona hálf miðaldra eins og margir vilja meina Prenzlauer Berg sér orðið....(thirtysomething listauppar með ung börn!!!).
Ummæli