Gangandi íkorni

Við erum nú búin að fá krasskúrs í hvað á að gera með veikt barn í Berlín á frídögum. Ísold mín var búin að vera mjög slöpp og á laugardagsnóttina fékk hún 40 stiga hita okkur auðvitað til mikillrar skelfingar. Vinafólk Alexar sem eiga barn gaf okkur góð ráð, fyrst til að lækka hitann og einnig hvert við ættum að fara. Hitinn sem betur fer lækkaði niður í 39 um nóttina og var 38,5 um morguninn. Þá var förinni heitið í sömu barnabráðamóttöku og við höfðum farið á á fimmtudaginn. Í þetta skiptið tók yndislega ljúf stúlka á móti okkur og átti ekki í neinum vandræðum með að skrá okkur inn. Lækninum leist ekkert á ástandið á barninu, hún fékk voða sterkan stíl til að létta á öndun og svo var það INHALIEREN, Ísold látin anda að sér einhverju til að hreinsa öndunarveginn. Bronkítisið var s.s. af verra taginu og við höfum nú farið 4 sinnum á deildina á tveimur dögum til að INHALIEREN, að auki fékk hún einhver fleiri lyf og pensilín þ.á.m.. Eftir hverja slíka innöndunarmeðferð var okkur skipað í 30 mínútna göngutúr og eftir hann hlustaði læknirinn barnið sem endaði alltaf með að hún sagði " Besser aber nicht gut!" Göngutúrarnir snérust nú mest um það að finna íkornan sem við sáum rétt glitta í á fimmtudeginum, mikil leit og vangaveltur áttu sér stað um þennan litla íkorna. Ísold er nefnilega komin með orð yfir dýr af mörgu tagi og þegar hún sá íkornan benti hún og sagði BABA.(sama segir hún um fugla og hunda sem verða á vegi okkar). Þessar ferðir okkar á spítalann í volkspark Friedrichshain hafa gert okkur nokkuð lúin og páskamaturinn bíður enn í ískápnum. Í eftirmiðdaginn gerðum við svo okkur ferðbúin til að fara í fjórða skiptið og tókum tramminn, sá fer beint frá okkur að spítalanum. Sólin skein, loftið var ferskt eftir smá rigningardembu og það fyrsta sem við sjáum þegar við komum að innganginum að barnaspítalanum er íkorninn. Sá var sko enginn mannafæla lék og sýndi listir sínar fyrir Ísold. Þetta hlaut að vera gott merki hugsaði ég... Þegar inn var komið var biðstofan tóm og því engin bið, Læknirinn hlustaði Ísold og sagði GUT í fyrsta sinn síðan var hún látin í innöndunartækið og svo máttum við fara heim. Á morgun ætlum við svo til okkar eigins barnalæknis. Ísold er búin að vera hitalaus í allan dag og þó hún sitji enn hjá mér lítil og máttlaus eins og litlu simpansarnir hjá mömmum sínum(sem maður sér í dýragarðinum) finnst mér eins og hún sé á batavegi.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Æ elsku krúttið, nú hlýtur henni að batna. Gott að hún fékk að sjá íkorna í sárabót eftir allt sem hún hefur þolað. Amma á Sólvöllum
Nafnlaus sagði…
Frábært að heyra að henni líði betur

Vinsælar færslur