fimmtudagur, 30. nóvember 2006

heilasull

Síðasta kennslustund þessarar annar var í dag, reyndar hef ég lítið getað mætt undanfarið vegna mikillrar ófrísku. En í dag mætti ég þar sem ég átti að taka þátt í fyrirlestri, svona ykkur að segja var framlag mitt ekki beysið. Ég sat á hliðarvængnum með bumbu út í loftið að upphugsa aðferðir til þess að lauma inn aulabröndurunum sem er það eina vitsmunalega sem heilinn minn gat kokkað upp í dag!!
En tími dagsins var sögulegur fyrir það að vera einn sá leiðinlegasti sem ég hef upplifað síðan ég hóf skólagöngu. Staðreyndin er sú að það er hreinlega ekki hægt að kenna á tölvur eða forrit í fyrirlestraformi, að þurfa að hlusta á- og svo ýtir maður á shift og enter er tilgangslaust. Ekki gerir það ástandið betra þegar manni líður eins og heilinn á sér sé kominn í vetrardvala og ég farin að hreyfa mig eins og smávaxinn flóðhestur. Eftir tímann sem drógst á langinn fékk ég minn ektamann til að skutlast eftir mér og sagði honum skýrt og skilmerkilega að ég væri í Odda, síðan lét hann mig vita hvenær ég gæti ruggað mér af stað út að hitta hann sem ég og gerði en sá engan Arnar. Hann spurði aftur hvar ég væri og ég sagði NÚ Í ODDA (með skemmtilegu hormónapirrröddinni) og stóð þá fyrir utan Lögberg....sem sagt heilinn minn virkar engan veginn sem skyldi. Nú þarf ég að klára ritgerðir og verkefni, spurning hvort ég geti fengið aðgang að utanáliggjandi heila:)

1 ummæli:

blaha sagði...

minn er enn ónothæfari en þinn, hringdi samtal í gær til að staðhæfa að orðið transcendental væri ekki að finna í orðabókinni, sem var eftir nánari athugun alls ekki satt. það eina sem heilinn minn gerir þessa dagana er að hæðast að mér og gera mig að fífli.