þriðjudagur, 7. nóvember 2006

Ólafsfjörðurinn

Nú er svolítið farið að draga af mér í þessu ástandi mínu, ég finn að ég er að dragast aftur úr í skólanum og mér óar við öllu því sem ég á eftir að gera í familíulífinu. Hvort ég sé búin að taka mér of mikið fyrir hendur svona á þessum síðustu mánuðum held ég nú ekki en ef krafturinn væri aðeins meiri þá væri þetta líklega auðveldara.
Hins vegar fórum við í dásamlegt ferðalag um helgina enda síðasti sjens á að flytja mig milli landshluta (ef hvalur 9 á ekki að koma við sögu það er).Við fórum til Ólafsfjarðar, dvöldum þar í húsi með þeim Tinnu, Eiríki og Vöku. Við komum þar að kvöldi til í gegnum ógnarlöng göng sem minntu á risaeðluháls. það var því ekki fyrr en daginn eftir sem við uppgötvuðum dásamlegan fjallahringinn sem umkringir þennan litla notalega og rótgrónna bæ. Þarna létum við dekra við okkur, fórum í fjallasund og höfðum það bara gott á afskaplega jólalegu heimili. Ísold naut sín vel þó henni væri ekkert vel við að heimiliskötturinn væri ekki uppstoppaður. Þessa daganna eru flest orðin hennar með ákveðnum greini og stundum líka í fleirtölu. Talar til dæmis um Pabbani, kakkani og fleira í þessum dúr.
Nú svo lærðist henni að frændi hennar hagaði sér stundum undarlega en við vorum viðstödd opnun á sýningu hans Curvers á Akureyri. lýsing Ísoldar á sýningunni var á þessa leið "bibbi lúlla góllinu".
Að komast heim frá Ólafsfirði reyndist svo þrautinni þyngri, í fyrsta lagi vorum við veðurteppt í heilan dag en síðan þegar við lögðum að stað fyrir sólarupprás í gærmorgun hafði vetrarkonungur lagt hvíta ábreiðu á bæinn og fjöllin sem gerði það að verkum að mann langaði ekkert til að fara. Við keyrðum því tregafull í gegnum ævintýralegt norðurlandið undir fullu tungli.

0 ummæli: