múmínpiparkökuhús í stormi

Ég hef ástríðufullan áhuga á veðri, ég er alltaf að verða þess meira vör að minnsta kosti að ég gæti talað endalaust um þetta óviðráðanlega fyrirbæri. Ekki nóg með það þá tengist þessi veðurfarsárátta mín heimsendaótta. Það getur ekki verið að þetta stormasama haust sé eðlilegt, hvar er snjórinn, hvar er veturinn okkar? Aðrir sambýlingar mínir deila þessum áhuga frekar takmarkað með mér og sá fullorðni gæti ekki verið meira ónæmur á veðrið(fer út á stuttermabol í mínusgaddi).
Þegar ég var að hlusta á útvarpsfréttamanninn með hörmungarröddina í dag og hann sagði mér að nú væri það staðfest norðurpóllinn verður líklega allur bráðnaður 2013! Og ég sem hélt við værum seif næstu hundrað árin, hvað meinar maðurinn með þessu. Í kjölfarið heyrðist í útlenskum heimsósómaröddum sem sögðu nú væri ekki lengur tími til að ræða málin, það yrði að kalla saman þing tafarlaust og fá öll lönd til að taka þátt, sem sagt stofna nefndir. Á þeirri stundu fannst mér ég reyndar vera stödd í starwars mynd og hætti að hafa áhyggjur af heimsendanum. Ég hélt því bara áfram að reyna klára allt fyrir jólin eins og allir og við stelpurnar vorum meira að segja boðnar í að baka múmínpiparkökuhús í vesturbænum. Í stormsama skammdeginu keyrðum við svo heim hlustuðum á jólalögin á léttbylgjunni og slepptum kvöldfréttunum.

Ummæli

Edilonian sagði…
Einu sinni var ég í Finnlandi í -24 stiga gaddi, allt þakið snjó, hvít jólatré, snjórinn frosinn og bara hvítt vetrarríki svo langt sem augað eygði og sólin skein svo fallega á þetta allt. Þetta minnti mig svo á Ísland...þangað til mér var bent á það að svona væri þetta bara ekki lengur á Íslandi!! A.m.k. ekki í Rvk. Bara blautt svart slabb inná milli rigningar og roks:o/
Móa sagði…
er þá hægt að flytja snjóinn frá finnlandi til norðurpólsins...

Vinsælar færslur