Krumminn á skjánum
Ég veit ekki hvað krumminn krúnkaði sem við Stella frænka og telpnahjörðin mættum í dag hjá Rútstúni, ég veit hins vegar að það getur varla verið verra en heimsósóminn sem vellur út úr öllum fjölmiðlum. Skammdegisþunglyndið sem vanalega tekur við af jólunum er hjá mörgum veruleiki jólanna í ár. Desembermánuðurinn okkar hefur líklega ekki verið mjög frábrugðinn öðrum, við tókum þátt í stressinu með því að tvíbóka hverja mínútu fyrir jól. Allt til þess að geta svo haldið börnunum hátíðleg jól og slappað af...það eru allir svo mikið að stressa sig á því að ná að hvíla sig, lesa allar jólabækurnar, baka í rólegheitunum og prjóna allar jólagjafirnar. Mitt í öllu kaósinu, dafna börnin saklaus af glæpum góðærisins.Verður afkoma barnanna tryggð? Hvort Björgúlfarnir, Davíð, síungi gráhærði bankastjórinn eða hinir alsaklausu(í þeirra eigin huga) leiði hugann einhvern tíman að því, leikur mér forvitni á að vita. Ekki á svo að skiljast að ég sé svartsýn eða þunglynd, ég er nokk bjartsýn á að fá vinnu þegar minni lýkur að fjölskyldan geti lifað sæmilegu lífi í skuldafeninu.
Kannski er þetta kæruleysi eða aðgerðarleysi, því ekki er hægt að segja ég hafi verið aktíf í andófinu hef ekki mætt með slæðu við opinberar byggingar þennan mánuðinn þó frumburðurinn sé búin að lýsa því yfir að hún sé búin að fá nóg af mótmælum. Verst þykir mér þó að flestir þeir er stóðu í þessum glæpum sitja þarna í sætum sínum senda manni ekki einu sinni jólakort (sem í stæði, Takk kæra þjóð fyrir að leyfa okkur að taka ykkur í "#$%T%/Y$U), hvað um það!
Næst á dagskránni hjá okkur er að halda upp á fæðingarafmæli tveggja snótra, gullmolanna okkar( sem eru fæddar á sitt hvoru árinu sitt hvoru megin við áramótin...er þetta skiljanlegt stærðfræðingum?), búið er að panta balletköku af foreldrunum því þetta á að vera prinsessuafmæli hið mesta. Við sem höfum staðið okkur með prýði hingað til í afmæliskökugerðinni erum nokkuð stressuð því kröfurnar eru gífurlegar...hvernig á balletkaka að vera eiginlega? spyr maður sig, og ekki dettur mér til hugar að panta fullbúna köku frá kapítalísku bakaríi. Snót númeró dúó er búin að eiga afmæli og varð tveggja vetra með miklum glans fimm dögum fyrir jól, hún og skyrgámur eiga þennan dag sameiginlegan. Fékk jólaball og míníveislu, varð altalandi og alsyngjandi í kjölfarið. Miklar meiningar hefur hún líka um hvernig hlutunum skal háttað og síðast en ekki síst skulu allir vera kurteisir við fröken Karólínu Thoroddsen! Eða eins og hún orðar það við systur sína og hnykklar brýrnar "EKKI DÍÐA ANÖNU" (hún kann að segja sitt fulla nafn en kýs þó að kalla sig anana sem hún beygir með glans eða hreinlega Anna) móðirin er hæstánægð með dótturina enda góður kostur nútildags að standa fyrir sínu.
Ummæli
amma Rós