mánudagur, 2. febrúar 2009

fugl-orðin og bleyjulaus

Rétt áður en vinstristjórnin tók við völd í gær fórum við mæðgur út á sleðann. Fröken Karólína var reyndar ekkert á því að láta draga sig og gekk röskum skrefum mér við hlið á meðan úngfrú Ísold lét fara vel um sig á sleðanum. En auðvitað hafði hún auga með litlu systur og lét hana alveg vita hvenær hún væri að nálgast götuna of mikið. Á klambratúninu stefndum við á nýju brekkuna, sem frænkurnar úr hlíðunum kynntu okkur fyrir og þar renndum við Ísold okkur eins og væri enginn morgundagur. Sú yngri sat á bekk og fylgdist með okkur en var ekkert á því að renna sér sjálf. Þegar við vorum búnar að renna okkur heil ósköp bað Karólína um kakó, við Ísold eltum svo hana niður á Kjarvalsstaði. Þar sem við sitjum og erum að hlýja okkur með heitum drykkjum, pírir sú eldri augun og segir, "Mamma, ég er fugl-orðin eins og þú" en það er einmitt vinsælasta staðhæfing hennar. Þetta þýðir að hún má gera sömu hluti og ég og líka bera ábyrgð á litlu systur. Karólína tekur þessu ekkert illa ekki og lætur ekkert stjórnast með sig frekar en hún vill en segir hins vegar oft "ég er lítil" og skríkir. Hins vegar eru vatnaskil í heimilislífinu (líkt og í stjórnmálunum) þessa daganna því Karólína fór í dag bleyjulaus á leikskólann, ójá og það gekk svona líka vel. Síðustu tvær vikur höfum við hvatt hana óspart til að fara á koppinn og hún hefur verið mjög dugleg meira að segja svo dugleg að hún hefur farið alveg ein og hellt úr koppnum sjálf í klóssettið! Helgin var svo bleyjulaus og þar með lýkur bráðum fjögurra ára bleyjuskeiði okkar...í bili a.m.k.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Skemmtileg lesning. Þær eru æðislegar systurnar. Amma á Sólvöllum

blaha sagði...

tilhamingju með bleyjuleysið. var einmitt að kynna mér verð á bleium og dauðöfunda ykkur!