16 litbrigði af gráum

Er hægt að lesa af eins og af alvöru pappír. Hann les upphátt, geymir fjölda bóka, hægt að lesa blöð, blogg... léttur sem fiður sléttur sem særinn...Kyndillinn er víst framtíðin og hvað þýðir það fyrir bókelskandi fólk. Ég heyrði viðtal við bókakonu nokkra í útvarpinu, sú hafði fengið slíkt skrapatól í jólagjöf og var hæstánægð. Ég varð hálf sorgmædd og hugsaði ósjálfrátt er bókin virkilega orðin elliær og úrelt! Munu bókasöfnin, fornbókabúðir, bókabúðir, kál og kenning líklega uppáhaldsíverustaðir mínir í allri veröldinni einhvern tíman hverfa og Amazóna(og slíkar sniftir) taka við. Svo stalst ég til þess að kíkja á auglýsingu af þessu undratæki hjá Amazónu, já og skömm frá því að segja að ég virðist hafa íslenskanýtæknielskandigenið því ég hreifst af kyndlinum kostum hans, 16 litbrigðum af gráum. En samt ekki alveg því þegar ég lagðist upp í rúm í gær og las mína bók fór ég að hugsa, hvernig er að lesa af skjá, hvernig er að halda á skjá, hvernig er að finna ekki fyrir pappírnum, finna hversu margar blaðsíður eru eftir á þykktinni. Er hægt að lesa af skjá í rökkri(sem ástmaðurinn skammar mig alltaf fyrir). Bókin hefur líka sína eigin lykt, nýbókarlykt, gömlubókarlykt, pabbabækur lykta t.d. á alveg sérstakan hátt, reykingarpabbalykt með dassi af öryggiskennd.
Kalliði mig nostalgíurómantíker en ég veit það ekki ég elska bókarformið og er ekki viss um að kyndillinn lýsi upp framtíðina. krumminn á skjánum!

Ummæli

Heiða sagði…
svoleiðis eins og talað út úr mínu hjarta bara. já, bók í rúmi eða skjár í rúmi er svolítið gegnsætt dæmi. það er annað með námstexta sem stundum eru lesnir af skjá líka, eða blöð sem maður freistast til að lesa af skjá stundum. Fornbókaverslanir munu aldrei deyja. Við erum nógu mörg sem elskum bækur til að halda þeim lifandi, rétt eins og vínilplötunum. þegar ég verð "gömul" (í árum) ætla ég að eiga fornbókaverslun.
Móa sagði…
nei það er líklegast rétt hjá þér man eftir spádómum um dauðdaga bókarinnar fyrir tugum árum síðan ;)! Myndi sko koma í fornbókaverslun þína í framtíðinni:)
Nafnlaus sagði…
Þó ég lesi nú ekki mikið þá gæti ég ekki hugsað mér að vera án bóka og dagblaða!! Bryndís

Vinsælar færslur