::::Dauðagildran Snorrabraut:::::

Norðurmýri þann 26. Janúar 2011


Opið bréf til Hverfisráðs Hlíða og til Stefáns A. Finnssonar deildarstjóra á umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar og Karls Sigurðssonar formanns umhverfis- og samgönguráðs.

Norðurmýri er hverfið mitt, þar hef ég búið með einhverjum hléum frá unglingsaldri. Eins og er alkunna er hverfið mitt svolítið eins og fallega gróin umferðareyja á milli nokkurra stórra gatna, Miklabrautin og Snorrabrautin þar stærstar. Skipulag þessara gatna og þá sérstaklega Snorrabrautar hefur lítið breyst samfara breyttum aðstæðum og umferð. Nú nýlega varð dauðaslys á Snorrabraut og eftir það hefur umræða í fjölmiðlum aðeins aukist um ástandið við þessa götu, bendi ég sérstaklega á greinar Ryan Parteka í Grapevine nú nýverið.

Þessa götu keyri ég sjálf næstum daglega og eða fer yfir gangandi. Hver sem hefur reynt að fara yfir Snorrabraut á grænu ljósi veit að það er ekki hægt, ljósið er það stutt hvað þá sé maður með eitt barn á hjóli og annað í kerru (þetta á einnig við ljósin sem eru á Snorrabraut til móts við Flókagötu). Barnið mitt byrjar í Austurbæjarskóla í haust og satt best að segja óar mér við þessu ástandi. Svörin sem fengust úr Fréttablaðinu frá Stefáni Agnari Finnssyni, deildarstjóra á umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar um lengd ljósa á Snorrabraut þótti mér og öðrum íbúum hverfisins snautleg. Ég trúi því ekki að ástandið geti talist eðlilegt þegar svona slys verða, þegar starfsmenn frístundaheimilis Austurbæjarskóla segjast óttast á degi hverjum um öryggi barna í þeirra umsjá þegar farið er yfir þessa götu og enn fremur þegar fólk er frekar tilbúið til þess að flytja en að búa hérna í annars fremur friðsælu hverfi.

Flestir nágrannar mínir, foreldrar, starfsmenn frístundaheimilis Austurbæjarskóla og já margir fleiri eru uggandi um þetta öryggisleysi og spyrja sig jafnframt hver forgangsröðunin sé. Eiga gangandi vegfarendur ekki að ganga fyrir eða verður bíllinn enn einu sinni ofan á. Sjálf ólst ég upp erlendis og það við hraðbraut en þar voru ráðstafanir gerðar með hliðsjón af því að þetta væri hraðbraut og það var alls ekki eins hættulegt eins og þar sem ég bý í dag. En Snorrabrautin er einhvern veginn óskilgreint millistig milli hraðbrautar og götu. Hún hefur ekki þann umferðarþunga sem hraðbrautir hafa en þeim mun hættulegri umferð. Nú er ég ekki sérfræðingur í skipulagi en hver sá sem þekkir þessa götu veit að:

Á Snorrabraut er of hár hámarkshraði, það eru of stutt ljós, of fáar göngubrautir og það þarf að athuga skipulag þessarar götu í ljósi þess að hún er í íbúahverfi og skólahverfi. Einnig veit ég til þess að skrifuð hafi verið Mastersritgerð um skipulag Snorrabrautar við HR svo ekki ætti að vanta menntað fólk til þess að gera eitthvað í þessu. Ég vona að það þurfi ekki fleiri slys eins og varð fyrir stuttu til þess að eitthvað verði að gert!

Bestu kveðjur

Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir

Norðurmýrarbúi, Mastersnemi í þýðingarfræði og móðir tveggja ungra vegfarenda.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Mjög vel skrifað og algerlega nauðsynlegt bréf. Amma Bryndís
Móa sagði…
takk fyrir, sendi þetta áðan:)
Takk fyrir nágranni. Þetta er mjög þörf og vel orðuð ábending!
Nafnlaus sagði…
heyr heyr! kv. tinna grannkona.
Kristján Blöndal sagði…
'Eg skal spamma þessu eins og enginn er morgun dagurinn.
Sólveig sagði…
flott hjá þér. það er algjörlega tímabært að breyta þessu.

Vinsælar færslur