Vampírur og ást

nei ekki þjáist ég að síþreytu en er hins vegar illa haldin af blóðleysi og já fleiri kvillum. Þessu komst ég að eftir ævintýralega nótt á bráðamóttöku, þar sem ég var stungin í bak og fyrir, maginn á mér speglaður og ég fastaði í 12 tíma...Ég veit nú að ég væri ekki girnileg bráð fyrir vampírur eða blóðsugur hvers konar. Ég veit að flestir læknar líta út eins og Ken (í Barbie) og það getur verið mjög vandræðalegt þegar á að gera asnalegar rannsóknir á manni. Ég farin að þekkja nokkur orðatiltæki í bransanum, ein hjúkkan kallaði mig t.d. "þurra" eftir að hafa reynt að taka blóðprufur á nokkrum mismunandi stöðum, einnig fékk ég að heyra hljóðið í æðunum þegar blóðið er sogið út af miklum móð....óhugnanlegt ég veit. Já en ég tók þessu að sjálfsögðu með mesta hetjuskap...eða ekki. Ég grét úr mér augun og vorkenndi mér ómælt fyrir að vera föst á sjúkrastofu með 7 öðrum, þ.á.m einum sem hraut hástöfum alla nóttina. Svo saknaði ég þeirra ómælt þeirra sem eru vön að verma rekkju mína að næturlagi... En svo slapp ég eftir óhetjulega grátstafi og kveinkan enda var ég boðin í sveitabrúðkaup sem er líkast til það fegursta í heimi hér, ást við iðagrænar hlíðar og fjöllin blá...Blóðleysið varð síðan hin besta afsökun til þess að teiga rauðvínið duglega;)

Ummæli

Vinsælar færslur