til minningar um páfagaukinn Stínu.






Elskulega Stína páfagaukurinn okkar lést síðastliðinn föstudag.
Það verður að segjast eins og er að okkur var mjög brugðið þegar við fórum með hana til dýralæknisins þar sem síðustu hjartslögin slógu í páfagaukshjartanu hennar.
Stína hefur verið hluti af fjölskylduni í rúm tvö ár, hún var fyrst ákaflega taugaveikluð og næstum árásargjörn. Hún gekk undir nafninu Stína Salander. Ilmur og fjölskylda gáfu okkur hana en þar flaug hún undir nafninu Ása, Edda lánaði okkur búrið hans Pésa sem hafði nýlega fallið frá. Húsmóðirin og ritstjóri pipiogpupu varði löngum stundum í að horfa á jútjúb vídeó til þess að reyna að gera hana gæfari, lítið gekk. Hins vegar fann ég það út að henni fannst skemmtilegast að hlusta á gufuna. Eftir smá tíma fórum við að leyfa henni að vera frekar frjálsa og fljúga inn og út úr búrinu að vild og þá má segja að smátt og smátt hafi hún orðið gæfari. Það byrjaði með því að hún var alltaf inní herbergi hjá stelpunum þegar við lásum fyrir þær. Nokkrum sinnum gerðist það að Stína flaug út úr íbúðinni, í fyrsta sinn fékk ég smá áfall og var að búa mig undir að segja stelpunum en hún kom aftur eins og ekkert hefði í skorist...þetta gerðist nokkrum sinnum eftir það. Síðasta sumar flaug hún út í útskriftarveislunni minni og kom heim örugglega ekki fyrr en klukkutíma seinna öll úfin og þvæld, eftir það fór hún ekki aftur út þó allt væri opið hér upp á gátt.
Ég gat verið svolítið óvægin við hana blessaða, fannst hún svolítið pirrandi stundum en hafði líkast til mesta kompaníið af henni af öllum fjölskyldumeðlimunum. Í fyrra fór hún að taka upp á því að setjast á hausana okkar og vera bara frekar mikið með okkur. Síðan um áramótin ágerðist það allsvakalega, hún fór meira að segja að kroppa í fæturnar okkar og hendur. Hún lét sig aldrei vanta í kvöldlesturinn og var barasta orðin hið skemmtilegasta gæludýr. Síðustu vikurnar var hún farin að haga sér svolítið undarlega sem var líkast til ástæða fráfallsins. Hún var t.d. oftar en ekki að reyna kúra sig undir sæng, rúmteppi, á heitri tölvunni, við ofninn og ofaná heitri uppþvottavélinni. Dýralæknirinn sagði að hún hefði greinilega verið hætt að næra sig nóg og þess vegna farið að sækja á hlýja staði. Okkur brá mikið við að heyra það því hún hafði haft hrausta matarlyst fram að þessu og látið okkur vita þegar hana vanhagaði um mat, og var orðin bara nokkuð pattaraleg og sæt. Það er með harmi sem við fjölskyldan jörðuðum Stínu út í garðinum undir einu reynitréinu.
Ísold skrifaði smá sögu um þetta fyrir skólann sinn í dag:

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Samúð. Hún var ósköp falleg. Gaman að lesa bréfið hennar Ísoldar. Amma Bryndís
Innilegar samúðarkveðjur til allrar fjölskyldunnar í Auðarstræti.
Sonja sagði…
Það er leiðinlegt þegar þessi kríli deyja. Það virtist þó sem Stína átti gott líf :) Knús.

Vinsælar færslur