fimmtudagur, 28. mars 2013

Olli Bongo

Skoska vorið minnir ekkert á Grikkland og reyndar erum við víst að upplifa kaldasta marsmánuð síðustu 30 ára.
Við mæðgurnar fórum að hitta eilífðarstúdentinn okkar niður í bæ í dag, þar sem hann bauð okkur út að borða. Staðurinn sem varð fyrir valinu heitir Olli Bongo líkast til eftir eigandanum en á matseðlinum stóð að þetta væri Anatólískur staður og þar fékkst allt frá breskum morgunverð til hamborgara og mexíkanskra vefja. Skemmst er frá því að segja að maturinn fannst mér nánast óætur, en ég át hann samt enda svöng og ég reyndi að horfa sem minnst á hamborgarann sem yngri dóttir mín fékk...
Karólína var hins vegar hæstánægð og Ísold líka sem fékk amerískar pönnukökur. Karó var á því að Olli Bongo væri vinur pabba síns og var mikið að spyrja hann hvar hann væri þegar við komum inn. Arnar sagði henni að þjónninn sem var vinalegur eldri maður væri sjálfur Olli.
Þegar leið á máltíðina sagði Karólína við mig "Mamma, ég veit hvaðan vinur hans pabba er"
"Ha, hver, hvaða vinur?" spurði ég hálf utan við mig.
"Nú, Olli Bongo"
"jááá, hvaðan er hann"
"Hann er frá Mammamía landinu" sagði skottan frekar montin og þegar ég spurði hana hvernig í ósköpunum hún vissi það, benti hún mér á allar myndirnar af hvítu húsunum sem bera við heiðbláan og sólríkan grískan himininn...
Fyrir utan hjá Olli Bongo mátti sjá snjóflygsur  og haglél fljúga um og stúdenta í ullarfrökkum ganga á móti vindi.

0 ummæli: