Eiga mýs möguleika á eftirlífi?

Ég er oft að hugsa um bæklinginn sem foreldrar ættu að fá áður en þeir eignast börn. Þessi sem ég fékk ekki. Þessi sem segir manni hvernig maður tekst á við þessar sjöþúsund milljónir óleystu krísur, spurningar og efasemdir sem mæta manni í uppeldinu.
Einn kaflinn myndi fjalla um heimspekilegar spurningar, spurningarnar um dauðann. Já og þar væri að finna viðbragðsáætlun þegar barnið sér dauðar mýs og er óhuggandi af sorg. Nei hún átti ekki skilið að deyja þessi litla mús, því hún var bara músabarn...segir barnið
Já og hvernig útskýri ég fyrir grátandi barninu að við búum með harðsvíruðum músamorðingja þ.e. kettinum sem var einmitt fenginn til þess eins að eyða músastofninum í tenement íbúðinni okkar.
Af hverju þurfti þessi mús að deyja og hvers vegna er fólk alltaf að drepa kóngulær? segir barnið enn fremur við móður sína sem hefur gert einstaka flugu já og kónguló mein í gegnum tíðina. Er hægt að hafa of mikla samúð með öllum heimsins skepnum eins og það virðist auðvelt að hafa of litla samúð?
Og þá kemur enn stærri spurning hvernig á ég að útskýra fyrir börnum mínum hörmungar og heimsendaósómann sem fylla fjölmiðla og fréttatíma daglega. Þegar hátt í 1000 manns sökkva á botni miðjarðarhafs og ríkisstjórnir sem ákveða að bjarga ekki þessum mannlífum, viljandi. Hvernig útskýri ég fyrir börnunum hvernig sum mannlíf virðast miklu meira virði en annara samkvæmt fréttatímanum bara eftir því hvar á heimskringlunni þau fæðast. Hvernig útskýrir maður allt óréttlæti heimsins já eða býr til heilbrigða siðferðiskennd hjá ungum börnum af vestrænu forréttindakyni.
 Ég hefði haldið að Ba-nám mitt í heimspeki gæti hjálpað mér eitthvað við að svara þessum STÓRU spurningum en NEI, það hjálpar ekki djakksjitt. 

Ummæli

Vinsælar færslur