litla stjörnustríð hugans

Hér eru feðginin öll að horfa á Stjörnustríð (ekki mitt samt)
Enn er ég að flytja...sögðu afi og amma og vitnuðu í Hjalta litla við mig í gríni þegar þau voru að hjálpa til við einn af tugum ef ekki hundruðum flutninga sem ég hef staðið í um ævina. Nei ég er löngu hætt að telja og ég get ómögulega munað í hvaða bók hann Hjalti litli var alltaf að flytja.
Fyrir ári síðan í gær fluttum við hingað í turníbúðina, sem var í alla staði dásamlegt. Heilt lið af fólki úr hverfinu og úr háskólanum hjálpaði til og við vorum að flytja úr sardínudós yfir í turníbúðina undursamlegu. Stelpurnar bókstaflega elskuðu nýja herbergið sitt og gátu nú gert fimmleikaæfingar um alla íbúð. Okkur leið öllum strax svo mikið betur í nýju íbúðinni sem var ekki bara með heilu turnherbergi heldur líka með glugga á eldhúsinu. Gluggalaust eldhús er ekki vel þekkt pyntingaraðferð en hún er sannarlega árángursrík í að draga úr manni lífsviljann. Sardínudósaríbúðin var líka í eilífum skugga sem þýddi að sólin skein aldrei beint inn. Jú ég gæti skrifað mílulanga pistla um tengsl breskrar byggingalistar við pyntingar...
En nú erum við að flytja heim til Ítalíu norðursins, spilltasta smáríki heims ef Vatíkanið er ekki tekið með. Og ég virðist vera illa haldin af flutningskvíða...hann birtist þannig að í stað þess að vera byrjuð að undirbúa, pakka í kassa, þá hægist á öllu og ég kem mér hreinlega ekki að verki. Hausinn hins vegar bólgnar upp af áhyggjum af hinum og þessum hlutum og þar ríkir lítið stjörnustríð. Á yfirborðinu virðist ég hins vegar mjög róleg og sef á við björn í hýði.

Ummæli

Vinsælar færslur